19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6553 í B-deild Alþingistíðinda. (4558)

466. mál, ferðamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það er aðeins út af síðustu ræðu hv. 11. þm. Reykv. Ég sagði að samkomulag hefði orðið um að frv. yrði flutt með tillögu um sölu á 2/3. Það var samkomulag innan ríkisstjórnarinnar sem flytur þetta frv. Áður fyrr hafði verið samþykkt að selja 30%. Út af fyrir sig gæti ég fyrir mitt leyti samþykkt það, en þar sem ég flyt þetta frv. stend ég að sjálfsögðu að því að haga málum þannig sem frv. gerir ráð fyrir. Það er þá fyrir framtíðina að breyta lögunum ef það reyndist ekki rétt að ríkið væri með 1/3, en að mínum dómi var skynsamlegra að það samkomulag yrði gert en að halda sig við að fyrirtækið væri alfarið selt.

Hv. þm. vék að sölu fyrirtækisins og að það væri aðeins til fastráðinna starfsmanna og vísaði til 2. gr. frv. Ég held að hann hafi misskilið og þá mislesið. Þar er um að ræða að fastráðnum skuli gefinn kostur á sambærilegum störfum. Hins vegar stendur í 1. gr.: „Starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins skulu eiga forkaupsrétt að hlutafénu, enda náist samkomulag um verð og greiðsluskilmála“ og það er auðvitað undirskilið í þessu öllu saman. En hér verður reyndin að sýna sig, hvernig staðið verður að hlutunum. E.t.v. eru ekki allir starfsmenn sem vilja kaupa. E.t.v. eru einhverjir sem eru lausráðnir starfsmenn, sumarstarfsmenn, sem eru reiðubúnir að kaupa.

Það sem mér finnst að liggi í hlutarins eðli samkvæmt þessu er að það er hópurinn sem þarna vinnur sem mótar hvernig að kaupunum yrði staðið og svo þeir sem ætla að kaupa, mynda hlutafélagið. Það eru þeir sem koma þá til með að segja til um hvaða þýðingu framtíðarbreytingar á hlutafé hefðu.