19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6558 í B-deild Alþingistíðinda. (4563)

385. mál, söluskattur

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir góðar undirtektir við frv. og skil út af fyrir sig þau almennu rök sem hann flutti í þessu máli. Ég bendi hins vegar á að ef um er að ræða einhver mál sem óhjákvæmilegt er að breyta í söluskattslögunum liggja fyrir deildinni tvö frv. varðandi söluskattinn sem mætti hugsa sér að afgreiða með breytingum þeim sem ríkisstjórnin telur óhjákvæmilegt að koma í gegn vegna þess að einhverjir agnúar hafi komið upp á hinum nýju söluskattslögum.

Ég held að það væri a.m.k. æskilegt að ef frv. um breytingu á söluskattslögunum verður ekki lagt fram núna yrði það lagt fram til kynningar, það yrði sýnt núna fyrir vorið þannig að það sé ljóst, a.m.k. að því er þetta mál varðar, hvert ætlunin er að fara af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við söluskatt á almenningsbifreiðum.

Það er rétt að hér gera flm. ráð fyrir því að þetta nái víðar en til Reykjavíkur að sjálfsögðu. Það eru strætisvagnar víðar. Það eru strætisvagnar í Kópavegi, það eru strætisvagnar í Hafnarfirði og það eru strætisvagnar á Akureyri svo dæmi séu nefnd. Við sáum auðvitað í hendi okkar að þetta varð að ná víðar og hlaut að ná víðar. Ég viðurkenni líka sem einn af flm. að markatilvik kunna að vera óljós og kunna að vera erfið og þess vegna er orðalagið tiltölulega rúmt að því er varðar heimildir fyrir fjmrh. til að vinna að greiningu þessara markatilvika, en orðalag af þessu tagi er einmitt algengt í undanþágukafla gildandi söluskattslaga, 2. og 6. gr. þeirra sérstaklega reyndar.

Það er líka rétt, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði áðan, að það er ekkert sjálfgefið samband á milli þess að það verði felldur niður söluskattur á strætisvögnum og að þjónusta strætisvagnanna í Reykjavík batni. Það er því miður þannig. Mér hefur reyndar aldrei dottið það í hug. Hins vegar fyndist mér skynsamlegt að taka borgarstjórn Reykjavíkur á orðinu í þessu efni. Það hafa oft verið fluttar ítarlegar tillögur í borgarstjórn Reykjavíkur um endurbætur á strætisvagnasamgöngunum þar sem þetta er einn þátturinn. Þetta er eini þátturinn sem var tekinn út úr og samþykktur t.d. núna í vetur þannig að þar var líka gert ráð fyrir aukinni ferðatíðni og endurbótum á biðskýlum og breytingum á leiðarkerfi strætisvagnanna og fleiru þess háttar. Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Vesturl. um að það er svo fjöldamargt annað og meira sem verður að gerast ef strætisvagnarnir eiga að verða ákjósanlegur kostur fyrir þá sem alltaf eru að flýta sér eins og við erum reyndar flest. Þetta leysir því ekki vanda, en ég held að þetta sé pínulítið skref. Og þetta er kannski eina málið sem Alþingi hefur eitthvert vald á. Alþingi hefur ekki vald á mjög mörgum rekstrarþáttum strætisvagna Reykjavíkur eða almenningssamgangna yfirleitt.

Ég minni á að fyrir hv. deild liggur frv. frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur o.fl. um niðurfellingu söluskatts af iðgjöldum af bílatryggingum öryrkja og það er rakið sanngirnismál að mínu mati. Það kemur til meðferðar hér síðar. En það þarf að gilda fyrir árið 1988. Mér finnst ekki ásættanlegt varðandi það mál að það bíði heildarendurskoðunar. Það kemur til umræðu fljótlega þó að það yrði hinkrað kannski með þetta mál hér til heildarendurskoðunar á söluskattslögunum.

Mér finnst það líka vera innlegg í rök með afgreiðslu á þessu máli ef söluskatturinn er á síðasta snúningi. Ríkisstjórnin ætlar sér eða a.m.k. fjmrh. að fá fram afgreiðslu á virðisaukaskattinum. Hvernig það gengur veit ég ekkert um. Við sjáum hvað setur í þeim efnum. En ef svo fer eru viðbótarrök, má segja, fyrir því að fella niður söluskatt af almenningsvögnum ef virðisaukaskatturinn fer hér í gegn. Það eru viðbótarrök í málinu sem ég vil halda til haga þrátt fyrir mína afstöðu til virðisaukaskattsins út af fyrir sig.

En ég vænti þess að í framhaldi þessarar umræðu fái málið jákvæða meðhöndlun í hv. nefnd og hv. deild og ég vildi helst sjá það, og ég veit ég mæli þar fyrir munn allra flm. að þá vildum við helst sjá að þetta mál yrði að lögum í vor, en mundum, geri ég ráð fyrir, flest okkar vera tilbúin að skoða það í víðara samhengi, einkum og sér í lagi ef hugmyndir um breytingu á söluskattslögunum eins og þau voru afgreidd í vetur sæjust hér fyrir þinglok þó að það yrði ekki í formi afgreiðslu máls heldur plagg sem yrði lagt hér á borðin mönnum til glöggvunar.