19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6613 í B-deild Alþingistíðinda. (4575)

271. mál, framhaldsskólar

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka menntmn. þessarar hv. deildar fyrir vel unnin störf að frv. og lýsa ánægju minni yfir því að það skuli nú vera komið hér til 2. umr. og vonast til að það sé vísbending um að Alþingi sé reiðubúið til að afgreiða frv. til laga um framhaldsskóla sem ég tel mjög mikilvægt að verði samþykkt hér á þessu þingi.

Í framsögu minni við 1. umr. um þetta mál gat ég þess að í frv. væru mörg álitamál. Frv. um framhaldsskóla væri nýsmíði og þess vegna væru mjög mörg atriði sem haga mætti á fleiri en einn veg og lýsti því jafnframt yfir að ég væri reiðubúinn til samstarfs við menntmn. um skynsamlegar breytingar á frv.

Ég tel að þær breytingar sem meiri hl. menntmn. hefur gert á frv. séu allar til bóta og styð þær. Ég er hins vegar ekki alveg sammála þeim brtt. sem fram hafa komið frá þm. Kvennalista eða frá hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég ætla ekki að ræða það í einstökum atriðum heldur vil ég aðeins með nokkrum orðum ræða þau meginsjónarmið sem búa að baki þeim till. og lýsa þá í hvaða atriðum ég er ósammála.

Verksvið skólanefndanna hefur verið allmikið rætt og ekki er neinn vafi á því að það sýnist sitt hverjum um skólanefndir. Sumir eru hreinlega andvígir því að skólanefndir séu settar upp við framhaldsskóla. Aðrir eru fylgjandi því en þá skiptast skoðanir aftur á milli þeirra sem því fylgja um það hvert eigi að vera verkefni skólanefnda.

Mér sýnist skólamenn skiptast nokkuð í tvo hópa um skólanefndirnar, annars vegar þeir skólamenn sem þekkja þær af eigin raun, t.d. skólameistarar sem hafa unnið með skólanefndum eru mjög ánægðir með þetta ákvæði um skólanefndir í frv. Þeir skólameistarar sem ekki þekkja skólanefndir, hafa ekki haft þær í sínum skólum, óttast þær. Það er hið margkveðna að menn óttast hið óþekkta og þess vegna hef ég orðið var við andstöðu við skólanefndirnar frá þeim skólameisturum sem ekki hafa haft slíkar nefndir innan vébanda sinna skóla. Ég held að mér sé óhætt að segja að allir aðrir, þ.e. þeir sem þekkja þær, telji þær til bóta. Þær hafa skapað góð tengsl milli heimamanna og skólanna. Skólameistararnir og skólarnir telja vera styrk að þeim í sínu starfi og eru því áhugasamir um að slíkt fyrirkomulag verði lögfest.

Verksvið skólanefndanna eins og það lítur núna út, samkvæmt frv. eins og brtt. liggja fyrir um það, er eiginlega þríþætt:

Í fyrsta lagi að ákveða námsframboð. Og hvað er betra eða æskilegra verkefni fyrir heimamenn, fyrir fólkið í viðkomandi byggðarlögum, en að ákveða það nám sem viðkomandi skóli býður upp á? Ég held að ekkert verkefni sé eins nálægt fólkinu og það að hafa ákvörðunarvald um hvað á að kenna í viðkomandi skóla. Getum við fengið viðkomandi fag eða viðkomandi greinar sem næst okkur eða þurfum við að senda börnin okkar í skóla suður í Reykjavík eða eitthvað annað? Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt atriði og þess vegna er ég andvígur þeim hugsunarhætti Kvennalista að þetta sé ekki verkefni sem fólkið í viðkomandi byggðum eigi að skipta sér af, þetta eigi aðeins að vera verkefni kennaranna og skólameistaranna, en fólkið eigi ekkert að hafa um þetta að segja. Þessu sjónarmiði er ég andvígur og tel að þetta sé mjög eðlilegt og sjálfsagt verkefni skólanefndanna.

Annað verkefni þeirra er að undirbúa fjárlög og hafa hönd í bagga með fjármálastjórn. Það tel ég líka vera eðlilegt verkefni skólanefndanna.

Þriðja verkefnið er síðan íhlutun um ráðningar við skólana sem ég tel líka að skipti miklu máli fyrir heimamenn í viðkomandi byggð. Ég tel að mjög sé ofmælt hjá fulltrúum Kvennalista að grundvöllurinn á bak við þessar hugmyndir sé sá að vilja ekkert samstarf við kennara, vilja ekkert faglegt samstarf við ákvarðanir um innra starf skóla. Ég tel að í frv. sé einmitt gert ráð fyrir að allt það sem lýtur að hinu innra starfi skólans sé raunverulega í höndum skólameistarans og þess fólks sem þar vinnur. Brtt. meiri hl. nefndarinnar lýtur að því að undirstrika þetta betur með því að taka út ákveðin orð í þeirri grein sem fjallar um skólanefndirnar til þess að taka af öll tvímæli um hvert eigi að vera verkefni þeirra. Það eru tekin út orðin „að marka stefnu í skólahaldi“. Þetta er gert til þess að undirstrika, að mínu mati, að það sé skólameistaranna, það sé skólaráðsins fyrst og fremst að fjalla um þetta atriði. Það hafa raunverulega engir betri tök á því að hafa áhrif á innra starf skólans en kennarar og þeir sem við skólana vinna svo og nemendur einnig. Það þarf sérstakt átak einmitt í lögum eins og þessum til að opna fyrir möguleika á afskiptum hins almenna borgara af skólunum. Sú umræða er svo sem ekkert ný af nálinni, og hún er þekkt t.d. víða erlendis, að vissir hópar kennara og skólamanna vilja ekkert að fólkið í kringum þá sé að hafa allt of mikil afskipti af skólunum, vilji að skólarnir séu lokaðar stofnanir kennara og nemenda, það sé hægt að kalla til foreldra á einhverjum foreldradögum einu sinni eða tvisvar á ári og ræða við þá, leyfa þeim að fylgjast með því sem er að gerast í skólunum, en síðan eigi þeirra afskiptum að ljúka. Þessi umræða fer víða fram. Ég hef orðið var við hjá ýmsum forustumönnum kennarasamtaka hér á landi að þeir telja að þetta eigi að vera svona.

Ég er ósammála þessu sjónarmiði. Ég tel að skólarnir séu ekki til eingöngu fyrir kennarana eða starfsfólkið. Þeir eru til fyrir þjóðfélagið, fyrir nemendurna auðvitað fyrst og fremst, en foreldrarnir, fólkið í byggðum landsins, eiga að hafa mikið um það að segja hvernig skólarnir eru uppbyggðir og hvernig þeim er stjórnað, t.d., eins og í þessu tilfelli, hvaða nám er boðið fram í viðkomandi skóla. Þess vegna er ég ósammála þessu meginsjónarmiði, sem fram kemur hjá Kvennalistanum og stór hluti af þeirra brtt. byggist á, að vilja útiloka fólkið frá því að hafa áhrif á skólana í sínum byggðarlögum.

Það má auðvitað hugsa sér að skólanefndirnar séu tilnefndar á ýmsan hátt og að ýmsir aðrir en sveitarstjórnirnar komi þar að. Sveitarstjórnirnar eru þó löglega kjörnir fulltrúar fólksins í viðkomandi byggðarlögum. Kvennalistinn segir með dálítilli fyrirlitningu: Þetta eru pólitískt kjörnir fulltrúar — og þar með á að afgreiða þá sem næstum því óalandi og óferjandi. Þetta er þó það fólk sem byggðarlögin kjósa sér til forustu í sínum málum og til þess að gegna því forustuhlutverki ákveðið árabil eða ákveðið kjörtímabil. Ég tel að það sé raunverulega ekki til lýðræðislegra fyrirkomulag en að þetta fólk, sem hefur verið kjörið til þátttöku í sveitarstjórnum, komi inn í þessa þætti í stjórnun skólans.

Þetta vildi ég láta koma fram hér því að það er mikið grundvallaratriði og mér finnst að einmitt þetta atriði hafi dálítið verið afflutt í þessum umræðum. Þess vegna vildi ég að það kæmi alveg skýrt í ljós hver er tilgangurinn með frv. að þessu leyti og hver mín skoðun er á þessu.

Ég vil aðeins geta þess varðandi eitt atriði sem fram kom í máli hv. 18. þm. Reykv., varðandi þau lög sem fella eigi úr gildi að mér fannst ýjað að því að það væri einhver andkvennapólitísk stefna fólgin í því að fella úr gildi lög um húsmæðrafræðslu og um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands. Í því er auðvitað ekkert slíkt fólgið. Það er hússtjórnarfræðsla í grunnskólunum og margir framhaldsskólar hafa þegar tekið upp sérstakar hússtjórnarbrautir innan sinna vébanda. Lögin um húsmæðrafræðslu, eins og hún er í dag, eru því algjörlega úrelt eins og menn sjá ef þeir lesa þessi lög og þjónar raunar engum tilgangi að hafa þau í gildi öllu lengur.

Lögin um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands eru hins vegar úrelt einnig vegna þess að þetta nám hefur nú verið tekið inn í Kennaraháskóla Íslands. Í raun er búið að leggja Hússtjórnarkennaraskólann af sem sjálfstæðan skóla. Þetta nám fer að vísu fram í þeim húsakynnum sem Hússtjórnarkennaraskólinn hafði, en það er algjörlega komið undir stjórn Kennaraháskólans þó að það séu fyrrverandi starfsmenn Hússtjórnarkennaraskólans sem hafa þar kennslu með höndum og að vissu leyti stjórn þess náms. Þetta er auðvitað fyrst og fremst tilgangurinn með því að fella niður þessi lög, eins og er tilgangurinn með því að leggja til að ýmis önnur lög séu felld niður sem ekki standast lengur tímans tönn. Í því er ekki fólgið á neinn hátt neitt vanmat á þessu námi eða nauðsyn þess í skólakerfi landsins.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. Það er allmikill ágreiningur okkar á milli. Hann telur að valddreifing í frv. sé ekki nægilega mikil. Við skulum átta okkur á því í hverju þessi valddreifing er fólgin sem frv. gerir ráð fyrir. Við skulum aðeins fara um það nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi fá heimamenn nú miklu meira vald samkvæmt frv. til að ákveða námsframboð í framhaldsskólum í þeirra heimabyggð. Þetta er eins og ég gat um áðan mjög mikilvægt verkefni heimamanna.

Í öðru lagi fá skólarnir aukið fjárhagslegt sjálfstæði frá því sem nú er. Það er skýrt nánar í grg. og kemur fram í viðkomandi greinum í frv. og ég skal ekki þreyta þingheim á að lesa það nánar.

Í þriðja lagi eiga skólarnir nú sjálfir að annast þróunarstarf innan sinna vébanda. Ekki hefur verið gert ráð fyrir slíku hingað til. En nú er það skýrt tekið fram að hlutverk menntmrn. í því efni er fyrst og fremst að veita ráðgjöf en skólarnir sjálfir eiga að annast þróunarstarfið og ég tel það mjög mikilvægt.

Í fjórða lagi er sett upp miklu skýrari verkaskipting á milli menntmrn. og framhaldsskólanna en gildir í dag. Hlutverk menntmrn, samkvæmt frv. er fyrst og fremst að hafa með höndum heildarstefnumótun, hafa með höndum kennslueftirlit og gerð tillagna um fjárveitingar og að semja námsskrá. Skólarnir sjálfir fara hins vegar með framkvæmd alls skólastarfsins. Allt innra starf, öll fagleg ábyrgð á að vera í höndum skólastjórnar og skólaráðs.

Í fimmta lagi vek ég athygli á því að vald skólanna til að taka upp fullorðinsfræðslu, endurmenntun af ýmsu tagi, er lagt í hendurnar á skólunum sjálfum í miklu ríkari mæli en hefur verið gert og þar með er skólunum gert kleift að laga sig að atvinnulífi og staðháttum á viðkomandi stöðum. Af þessum ástæðum tel ég að það sé rangt sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hélt fram að ekki væri valddreifing í frv., þvert á móti, það er miklu meiri valddreifing í frv. en gildir í raun í dag.

Ég er andvígur því ótrúlega flókna stjórnkerfi sem fram kemur í till. hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég tel ekki rétt að skipta landinu upp í fræðsluumdæmi eins og þarna er gert ráð fyrir til þess að stjórna framhaldsskólunum sem eru sennilega núna eitthvað rúmlega 20 talsins. Auðvitað fjölgar þeim vafalaust. En að setja upp svo flókið stjórnunarkerfi fyrir þessa skóla tel ég ekki vera rétt. Þetta hefur komið til orða á mjög mörgum fundum sem ég hef verið á með fulltrúum skólamanna, m.a. skólameistara, að undanförnu og ég hef hvergi orðið var við að þetta stjórnunarkerfi, að setja upp svona millistig, eigi sér hljómgrunn. Það sé miklu eðlilegra að færa þetta vald út til skólanna sjálfra en að setja upp einhvers konar millistig eins og gert er ráð fyrir.

Áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, ætla ég aðeins að svara hv. 6. þm. Suðurl. Hann spurði um tvö atriði, þ.e. brtt. við 32. gr. Ég tel að þar sé nú sennilega um prentvillu að ræða því að ég held að það hafi ekki verið meiningin að fella niður síðari setninguna í 32. gr. eins og lesa má út úr þingskjalinu, þ.e. „hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum“. Að mínu mati átti sú setning að standa áfram en breytingin að vera á fyrri setningu 1. mgr. 32. gr. í þeirri veru sem fram er tekið í brtt. En ég mun athuga það í samráði við formann nefndarinnar.

Að lokum spurði hv. þm. hvernig bæri að skilja það ákvæði til bráðabirgða sem meiri hl. nefndarinnar gerir tillögu um, þ.e. að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þessara laga, þ.e. um stofnkostnaðarskiptinguna, skuli gerðir samningar um byggingarframkvæmdir halda gildi sínu. Hér er fyrst og fremst um að ræða byggingarsamninga sem hafa verið gerðir um áfanga sem eru í gangi við ýmsa skóla landsins. Ég nefni t.d. Fjölbrautaskólann á Selfossi, íþróttahús á Ísafirði, Menntaskólann á Egilsstöðum, þar eru framkvæmdir í gangi. Það hafa verið gerðir ákveðnir samningar um kostnaðarskiptingu og greiðsluflæði og ég lít svo á að þessi grein fjalli fyrst og fremst um það að þeir samningar skuli halda sínu gildi þrátt fyrir það sem fram kemur í þessu ákvæði til bráðabirgða.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að gera þetta frekar að umtalsefni. Ég ítreka þakklæti mitt til nefndarinnar fyrir vel unnin störf að þessu máli og vonast til að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.