19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6638 í B-deild Alþingistíðinda. (4580)

46. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. efnislega að sinni en kem hér aðeins upp til að segja frá fyrirvara sem þingflokkur Framsfl. gerði. Hinn 11. apríl var dómsmrh. ritað svohljóðandi bréf:

„Þingflokkur framsóknarmanna hefur fyrir sitt leyti fallist á að frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ásamt með fylgifrv. um breytingu á þinglýsingalögum og um lögbókandagerðir verði lögð fram á Alþingi.

Varðandi fyrstgreinda frv., gerði þingflokkurinn meðfylgjandi bókun sem skýrir afstöðu hans til áframhaldandi meðferðar málsins.“

Ég vil nú, með leyfi forseta, lesa þessa bókun: „Þingflokkur Framsfl. hefur fjallað um frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ásamt fylgifrv. Frv. gerir ráð fyrir umfangsmiklum skipulagsbreytingum sem auðsjáanlega hafa mikinn kostnaðarauka í för með sér án þess að það liggi fyrir á þessu stigi.

Þingflokkurinn er þess fylgjandi að lögregluvald og dómsvald í opinberum málum verði aðskilið og telur rétt að frv. verði lagt fram á Alþingi þannig að málið hljóti umfjöllun á opinberum vettvangi og þingnefndir starfi að því.

Þingflokkurinn telur að við núverandi aðstæður séu ekki möguleikar til þess að auka útgjöld ríkisins í svo miklum mæli sem frv. virðist gera ráð fyrir. Þingflokkurinn telur því að aðrar leiðir þurfi samhliða að koma til nánari athugunar til að ná fram því markmiði sem að ofan greinir. Í því sambandi er rétt að nefna eftirfarandi leiðir:

1. Frumvarp um lögréttu gerði ráð fyrir aðskilnaði og framtíðarskipan dómstólakerfisins og því rétt að rifja upp kostnað sem því mundi verða samfara.

2. Útfæra má héraðsdómarakerfið þannig að það verði víðtækara en nú er og dómarar starfi við fleiri bæjarfógeta- og sýslumannsembætti.

Þingflokkurinn vill því samkvæmt framansögðu hafa allan fyrirvara um meðferð málsins og telur ekki mögulegt að ljúka þessu umfangsmikla máli á þeim stutta tíma sem er til stefnu á yfirstandandi þingi. Telur þingflokkurinn að fela eigi milliþinganefnd að vinna að málinu áfram.

Að lokum vill þingflokkurinn taka fram að nauðsynlegt er að öll kjördæmi séu jafnsett að því er varðar héraðsdómstóla og telur því nauðsynlegt að ef héraðsdómstólar verða settir á stofn þá verði tveir starfandi á Norðurlandi, þ.e. annar á Norðurlandi eystra og hinn á Norðurlandi vestra. Nauðsynlegt er að slík breyting eigi sér stað á frv. fyrir framlagningu.“

Lýk ég hér lestrinum á bókun þingflokks framsóknarmanna. Það er rétt sem hér hefur komið fram að ákvæði eru í stjórnarsáttmálanum um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds. En þar er ekki ákvarðað nákvæmlega með hvaða hætti það skuli gert.

Ég held að það sé heppilegt að fá umræðu um þetta mál. Það eru fleiri skoðanir á þessari skipan en fram komu í ræðu hæstv. dómsmrh. Ég held að það sé heppilegt að nota tímann til að reyna að finna skynsamlega útfærslu á ákvæðum stjórnarsáttmálans. Ég hef ekki trú á því að niðurstaðan verði sú sem lögð er til í þessu frv.

Það er rétt að undirstrika það sem kom fram í ræðu ráðherrans að ekki þarf að fella marga dóma á Norðurlandi vestra því að þar er fólk siðgott. En það breytir því hins vegar ekki að nauðsynlegt er að þar sé dómur starfandi, eða dómar. Við búum við viðunandi kerfi á Norðurlandi vestra með þeim dómurum sem þar eru nú. Ef ofan á yrði að stofna einn héraðsdómstól í Norðurlandi vestra tek ég fram að ég tel að það sé ekkert sjálfgefið að hann sé staðsettur á Sauðárkróki.