19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6645 í B-deild Alþingistíðinda. (4586)

463. mál, þinglýsingalög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39 10. maí 1978. Hér er, eins og fram kom í máli mínu áðan, um fylgifrv. með frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði að ræða. Eins og fram kom í athugasemdum með því frv. er ætlunin - og það er tilgangur þessa frv. — að þinglýsingarnar verði framvegis stjórnvaldsathöfn en ekki dómsúrskurður eða dómsathöfn eins og nú er. Þinglýsingarnar verði þannig áfram verkefni sýslumanna.

Þinglýsingar eru verkefni sem flokkast undir viðfangsefni sem á latínu eru nefnd einu nafni „jurisdictio voluntaria“ og eru á mörkum dómstarfa og stjórnvaldsathafna. Þróunin í nágrannaríkjum okkar í Evrópu hefur þó verið sú að telja þær fremur stjórnvaldamegin og er nú lagt til að svo verði einnig hér frá miðju ári 1990, en þá er gert ráð fyrir að lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði taki gildi.

Ég ætla ekki að rekja einstök ákvæði í frv., það skýrir sig sjálft. Meginbreytingin er sú að orðið „þinglýsingarstjóri“ kemur í staðinn fyrir „þinglýsingardómari“ og úrlausn þinglýsingarstjóra við meðferð þinglýsingar skal sæta stjórnsýslukæru til dómsmrn. í stað áfrýjunar til Hæstaréttar, en það er einnig hægt að höfða mál til ógildingar slíkum úrlausnum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.