20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6647 í B-deild Alþingistíðinda. (4593)

433. mál, sala fasteigna Grænmetisverslunar landbúnaðarins

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild fyrir fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til að selja fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins að Síðumúla 34 og jarðhús í Ártúnsbrekku við Elliðaár í Reykjavík.

Á árinu 1986 var undirritaður samningur milli sölusamtaka íslenskra matjurtaframleiðenda og ríkissjóðs um sölu eigna Grænmetisverslunar landbúnaðarins með fyrirvara um samþykki Alþingis. Á fjárlögum síðasta árs var heimild til að selja ofangreindar eignir, sbr. 6. gr., lið 5.22, en sú heimild var ekki nýtt, einkum vegna eftirtalinna tveggja þátta:

Í fyrsta lagi: Ekki var talið að það ákvæði sem var í heimildinni um að fasteignirnar yrðu áfram nýttar í þágu samtaka framleiðenda matjurta væru gildar eða uppfylltar.

Í öðru lagi: Upplýsingar lágu fyrir um slæma rekstrarafkomu Samtaka íslenskra matjurtaframleiðenda, SÍM, og að samtökin áformuðu að selja hluta fasteignanna til að mæta þeim fjárhagsvanda sem leiddi af slæmri rekstrarafkomu.

Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs var ákveðið að endurnýja ekki þessa heimild heldur boðað að lagt yrði fyrir Alþingi sérstakt frv. um sölu nefndra eigna. Frv. er flutt til þess að afla fjmrh. heimildar til þess að ganga endanlega frá ráðstöfun og sölu eigna Grænmetisverslunar landbúnaðarins samkvæmt framansögðu.

Að lokinni umræðu í hv. Ed. legg ég til að þetta mál fari fyrir hv. fjh.- og viðskn.