20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6649 í B-deild Alþingistíðinda. (4597)

436. mál, bifreiðagjald

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um bifreiðagjald sem er 436. mál á þskj. 786.

Frv. er efnislega nær samhljóða 1. kafla brbl. nr. 68 frá 1987, um sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem sett voru á sl. sumri og fólu í sér margháttaðar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs. Brbl. þessi fólu í sér breytingar á hinum ýmsu lögum sem undir fjmrh. heyra auk ákvæða um nýja tekjustofna ríkissjóðs.

Frv. til staðfestingar á umræddum brbl. var lagt fram á sl. hausti. Mál hafa síðan þróast á þann veg að ákvæði II. og IV. kafla og VII. kafla þeirra hafa verið afnumin þar sem þau hafa verið felld inn í aðra löggjöf þar sem þau eiga heima samkvæmt efni sínu. Í ljósi þessa hefur sá kostur verið valinn að flytja sérstök frv. um efni þeirra þriggja kafla sem eftir standa af brbl. Með þessum hætti er öllum efnisatriðum brbl. komið fyrir í viðeigandi sérlögum í stað þess að framlengja líf þeirra á lögbókum í formi bandorms.

Þetta frv., annað tveggja frv. sem flutt eru í framangreindum tilgangi, er efnislega samhljóða 1. kafla brbl. að öðru leyti en því að í því er kveðið á um rýmri heimildir til að undanþiggja bifreiðagjaldi í fyrsta lagi bifreiðar í eigu öryrkja, í annan stað bifreiðar björgunarsveita og í þriðja lagi fornbíla, þ.e. bifreiðar sem eru 25 ára eða eldri.

Að því er varðar framkvæmd á heimildinni til undanþágu á bifreiðum öryrkja þykir mér rétt að vekja athygli hv. þm. á því ákvæði reglugerðar sem um það fjallar. Það er í 4. gr. reglugerðar frá 28. des. 1987 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Af bifreiðum í eigu þeirra sem njóta örorkustyrks, styrks vegna örorku barna eða örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins skal ekki greiða bifreiðagjald skv. þessari reglugerð. Ef aðili sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds skv. þessari mgr. á fleiri en eina bifreið skal bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngri.“

Þessu til viðbótar er þess að geta að af hálfu fjmrn. var erindað til Tryggingastofnunar og heilbrrh. um framkvæmd slíkrar reglugerðar þar sem tilkynnt var að fjmrh. hefði ákveðið að nýta sér þessa heimild og þess farið á leit að heilbrrn. og reyndar Tryggingastofnun gerði tillögur um framkvæmdina og hvernig best megi tryggja hnökralausa framkvæmd þessarar ákvörðunar. Í þessu bréfi segir:

„Sérstaklega þarf að hyggja að því hvernig tryggja megi þeim öryrkjum sem komnir eru á ellilífeyrisaldur sama rétt og öðrum öryrkjum í þessu sambandi.“

Það hefur vafist nokkuð fyrir heilbrrn. og Tryggingastofnun að tryggja þessa framkvæmd með þeim einfalda hætti að afhenda innheimtumanni ríkissjóðs áreiðanlega og rétta skrá yfir öryrkja eftir 67 ára aldur af - eigum við ekki að segja - tæknilegum ástæðum. Framkvæmdin hefur hins vegar verið sú að innheimtumenn ríkissjóðs hafa fengið skrár að frumkvæði fjmrn. um alla þá sem skráðir eru öryrkjar fram að 67 ára aldri og auk þess alla þá sem njóta svokallaðs bensínstyrks eftir 67 ára aldur. Um það gildir reglugerð sett af heilbr.- og trmrn. frá 30. júlí 1980 í tíð þáv. hæstv. félmrh., Svavars Gestssonar, en þar segir:

„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða uppbót á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk vegna rekstrar bifreiðar sem bótaþega er brýn nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar.“

Þess skal getið að hér er um að ræða meginþorra þess fólks sem er á skrá yfir öryrkja fram að 67 ára aldri en þó kann það ekki að vera algerlega tæmandi. Hér er miðað við bensínstyrk sem upphaflega nam ákveðinni krónutölu sem fylgt hefur síðan vísitölu. Er miðað við um 200 lítra bensínnotkun á ári.

Það sem hér hefur verið sagt er það að þótt heimildin hafi að fullu verið nýtt hefur ekki verið gengið frá reglugerðinni með formlegum hætti. Framkvæmdin er eins og hér er lýst en enn er beðið eftir nákvæmum skrám af hálfu heilbrmrn., Tryggingastofnunar sem ekki hafa talið sig geta gert það með tryggilegri hætti en fram kemur af þessu, þ.e. að bæta við á undanþágulistann öllum þeim sem bensínstyrks njóta. Undanþáguákvæðin ná þá til öryrkja, skilgreint skv. þessu í framkvæmd, björgunarsveita og fornbílaeigenda, en það eru nýmæli frá upphaflegum ákvæðum brbl. á liðnu sumri.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.