20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6653 í B-deild Alþingistíðinda. (4600)

293. mál, áfengislög

Jóhann Einvarðsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með síðasta ræðumanni um að kominn sé tími til að Alþingi taki efnislega afstöðu til þessa bjórmáls, það sé ekki verið að lesa upp símaskrána, nafnalista eða aðra slíka hluti sem eru þessu máli alls óskyldir. Þess vegna held ég að þau áhrínsorð frá einum „kollega“ okkar í Nd. muni ganga eftir, að það finnist skynsamir menn hér í Ed. sem muni ræða þetta mál efnislega en ekki út frá öðrum forsendum.

Ég virði vel skoðanir þeirra sem eru andvígir þessu bjórmáli þó að ég sé persónulega ekki sama sinnis. Ég tel að eins og frv. er orðið núna sé raunverulega verið að staðfesta það, eins og frv. liggur fyrir, að bjór sé aðeins ein tegund af áfengi. Áfengi er leyft að selja hér á landi af öllum styrkleikum fyrir ofan það sem við köllum bjór. Mér finnst það tvískinnungur að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um bann við einstökum tegundum af áfengi.

Ég tek fyllilega undir það að fræðsla um áfengismálin, eins og önnur vímuefni, á að vera mikil af ríkisins hálfu og eins áhrifarík og nokkur tök eru á. En ég tel að sá tvískinnungur sem er í þjóðfélaginu í dag, að bjór er leyfður til sölu, meira að segja hjá ríkisfyrirtæki, þar sem við komum inn til landsins sem farþegar á Keflavíkurflugvelli, og hjá farmönnum, en öðrum sé meinað að kaupa bjórinn, gangi ekki upp.

Ég fullyrði að meðan bjórbannið var í reynd í gildi, áður en heimiluð var sala í Fríhöfninni, var léttara að útskýra fyrir útlendingum að bjór væri bannaður á Íslandi en það er í dag. Hann er ekki bannaður og hann er ekki leyfður, heldur svona sitt lítið af hvoru. Ég hef verið staddur suður á Keflavíkurflugvelli að taka á móti farþegum og séð til ýmissa hátt settra manna, ekki endilega embættismanna, en áhrifaríkra manna í þjóðfélaginu, taka á móti félögum sínum komandi frá útlöndum og snúa þeim við í dyrunum og biðja þá í guðs bænum að fara inn og kaupa einn kassa af bjór sem þeir mættu taka með sér til landsins. Síðan þegar komið er fram er hlegið að öllu saman þegar loks útlendingurinn fær útskýringu á því hvers vegna hann átti að gera þetta. Þetta gengur náttúrlega ekki. Bjór er vissulega áfengi, það er rétt stefna í þessu frv., og við eigum að staðfesta það.

Ég er alveg tilbúinn að ræða það að banna bjór á Íslandi alfarið og þá hjá farmönnum sem farþegum. Ég er líka tilbúinn að ræða það ef við erum reiðubúin til þess að velta því fyrir okkur að banna áfengissölu og meðhöndlun þess hér á landi alfarið. En ég held að það sé hvorki vilji í þessari stofnun né í þjóðfélaginu til þess að algert bann verði lagt á áfengi. Meðan það er svo tel ég skynsamlegra að við leyfum sölu á þeim tegundum sem framleiddar eru hér á landi og þá ekki síst veikustu tegundunum.

Hvað sem sagt verður um okkur sem foreldri held ég að ég sætti mig frekar við það að vita af sonum mínum drekkandi jafnvel nokkrar dósir af bjór en að vera að slá sér saman með öðrum ungum mönnum um sterkari drykki eins og viskí og vita nánast ekkert hvað er að ske í veröldinni eftir nokkra sopa. Ég tel að sá tvískinnungur sem er samfara reglum um áfengissölu sé afleitur. (Gripið fram í: Á þingmaðurinn ekki dætur?) Jú, en hún er sem betur fer það ung enn þá að ég er ekki orðinn mjög smeykur um að hún muni neyta bjórs eða áfengis að sinni a.m.k. En það kemur að því að ég hef áhyggjur af því líka.

Um það hvort þetta veldur aukningu á áfengisneyslu í landinu vil ég ekki fullyrða. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að menn spái því að það verði um aukningu að ræða. En ég er ekki viss um að hún verði jafnmikil og menn hafa talið vera, m.a. vegna þess að ég tel að sú neysla á bæði löglegum og því sem hægt er að kalla ólöglegan bjór í landinu sé allmiklu meiri en menn vilja vera láta. Ég segi það m.a. vegna þess að víða kemur maður þar sem manni er boðið upp á bjór. Það eru stundum þannig tegundir að maður er nánast viss um að hann fékkst ekki í fríhöfninni. Hann kemur einhvern veginn til landsins eftir öðrum leiðum. Einnig held ég að það muni draga úr neyslu sterkra drykkja ef bjórinn verður heimilaður.

En um þetta er ekkert óeðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir. Síðasti ræðumaður hafði sína skoðun á þessu máli og ég hef mína. Ég tek undir það með honum að því fyrr sem Alþingi losar sig við þetta mál út af dagskránni og tekur efnislega afstöðu til ess, því betra.

Ég er formaður allshn. þessarar virðulegu deildar og ég skal lofa ykkur því að málið muni fá eins skjóta og vandaða meðferð í þeirri nefnd og nokkur kostur er. En ég vænti þess að menn í hv. deild séu mér sammála um að taka málið til efnislegrar meðferðar fyrir þingslit í vor.