20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6660 í B-deild Alþingistíðinda. (4603)

293. mál, áfengislög

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að frv. um breytingar á áfengislögum við 1. umr. Síðan hef ég tök á því að vinna að málinu til að hafa áhrif á það í hv. allshn. þar sem ég á sæti og þangað hygg ég að frv. muni verða vísað.

Mig langar þá að byrja á því að segja að mér finnst það afleit forgangsröðun í verkefnum okkar hér að við skulum verja tíma okkar nú til þess að ræða þetta mál þegar svo mörg önnur þarfari blasa við bæði þingi og þjóð. Ekki síst nú þegar samdráttur er í efnahagsmálum og verkföll eru yfirvofandi finnst mér að þetta mál skipti litlu. Miklu betur þætti mér að standa hér og ræða heildarstefnumörkun í áfengismálum þjóðarinnar sem lengi hefur verið brýn. Einnig þykir mér afleitt að margar þær brtt., sem sannarlega horfðu til bóta og lagðar voru fram í Nd., skyldu vera felldar því að þetta er mál sem hlýtur að varða okkur öll miklu. Þetta er auðvitað ekki einungis mál sem varðar alþm. miklu, heldur alla þjóðina. Þetta er mál sem hver og einn þarf að gera upp við samvisku sína og þess vegna fannst mér mjög miður að tillagan um þjóðaratkvæðagreiðslu skyldi vera felld vegna þess að ég tel að mál eins og þetta eigi að bera undir alla þjóðina. Fyrir því er hefð og það yrði þá gert að undangenginni ítarlegri og,mikilli umræðu um málið.

Í núgildandi áfengislögum segir í 1. gr.: „Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara.“

Ég tel að þetta markmið hafi ekki náðst nema að mjög litlu leyti og þar sem talað er um tilgang flm. þessa frv. stendur m.a. í 1. lið: „að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja“ o.s.frv. Ég tel að þetta markmið náist ekki með því einu að auka framboð á áfengi og sú skoðun mín er í samræmi við niðurstöður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eins og áður hefur verið vitnað til.

Nú er það svo að málið mundi vefjast minna fyrir mér og líklega flestum öðrum ef öruggt væri að áfengur bjór mundi koma í staðinn fyrir og leysa af hólmi þá drykkju af sterkum vínanda sem mörgum þykir óhófleg eða óæskileg hérlendis og á þetta einkum við um unglingana sem þegar hefur verið minnst á. En þrátt fyrir sterka sannfæringu manna í þessum efnum og jafnvel óskhyggju virðast þó niðurstöður rannsókna sýna að viðbót á áfengum bjór eykur heildarneyslu en kemur ekki í stað sterkari drykkja. Í þessu sambandi má nefna og reyndar ítreka að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur af heilsufarslegum ástæðum mælt með því í ljósi rannsóknaniðurstaðna að dregið sé úr heildarneyslu áfengis með takmörkun á aðgengi og með háu verði. Hvorugt hefur í raun verið reynt að marki hér.

Þetta mál, eins og ég áður sagði, varðar ekki bara alþm. heldur alla þjóðfélagsþegna. Þeir hafa margir og samtök þeirra látið til sín heyra því að það hefur bókstaflega rignt inn til þm. áskorunum og ályktunum ýmissa félagasamtaka sem gera sér ljósan þann heilsufarslega vanda sem hlotist gæti af viðbót sem þessari án þess að nokkuð annað sé gert til úrbóta. Og til að gefa örlitla mynd af því langar mig til að lesa eina ályktun, sem er reyndar frá aðalfundi Félags áfengisvarnanefnda á Austurlandi, með leyfi forseta, sem „skorar á alþm. að fresta afgreiðslu á fyrirliggjandi bjórfrv. þar til heilbrigðisáætlun hefur verið rædd og afgreidd á þingi. Samþykkt bjórfrv. kann að verða afdrifarík fyrir þjóðina og því mikilvægt að fjalla um það í tengslum við heilbrigðismál og áætlanir um bætta heilbrigði landsmanna.“ Þetta les ég vegna þess að mér þykir þetta meginefni. Mér finnst afleitt að taka svona út úr eina tegund áfengis og ætla að fara að ræða hana og greiða sérstaklega um hana atkvæði hér án þess að gera það í samhengi við aðrar tegundir áfengis og við heildarstefnumörkun í þessum efnum hér á landi.

Fyrr á þessu þingi bar ég fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. um niðurstöður þeirrar nefndar sem getið var áðan í umræðum hjá hv. 7. þm. Reykv. Þessi nefnd hafði verið skipuð í kjölfar samþykktar á þáltill. á Alþingi 7. maí 1981, en hún fjallaði um að skora á ríkisstjórnina að láta nú þegar undirbúa tillögur um stefnu hins opinbera í áfengismálum og var ítarlega sundurliðuð um það hvernig slíkt mætti fara fram. Í kjölfar þessarar,þál. var nefndin skipuð og var talsvert fjölmenn. Í henni störfuðu 17–18 manns og henni var ætlað að skila áfangaskýrslum til ríkisstjórnarinnar þannig að ríkisstjórnin gæti fylgst með störfum nefndarinnar. Þetta var reyndar gert, bæði í nóvember 1983 og svo í febrúar 1984. Þær áfangatillögur fjölluðu um sérstakt átak í áfengis- og fíkniefnamálum, en þær vöktu engin viðbrögð hjá ríkisstjórninni og veit ég reyndar ekki hvort var jafnvel fjallað um þær þar.

Nefndarmenn voru sammála um efni þessara tillagna, en allir þingflokkar áttu fulltrúa í nefndinni. Hún hélt áfram störfum sínum þrátt fyrir áhugaleysi stjórnvalda og komst að samkomulagi um lokatillögur sem hún síðan skilaði í janúar 1987. Þær fjölluðu í fyrsta lagi um markmið laganna, tilbúning og dreifingu áfengis, í öðru lagi um áfengisvarnir og í þriðja lagi um meðferð og þjónustu við misnotendur og aðstandendur þeirra. Þessar tillögur eru nokkuð ítarlegar og vel unnar og þær verðskulda sannarlega bæði meiri umfjöllun og athygli en þær hafa fengið, ekki síst af hálfu stjórnvalda. Og þá vil ég bæta þm. við.

Tillögurnar eru unnar í anda þeirrar stefnu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur mótað á þessu sviði, enda var nefndinni uppálagt að fylgjast náið með starfi stofnunarinnar og gera endanlegar tillögur sínar með framtíðarlausnir í huga. Síðan höfum við íslenska heilbrigðisáætlun sem var ítarlega rædd á nýafstöðnu heilbrigðisþingi sem haldið var í febrúarbyrjun og hún er samin í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og markmið hennar í áfengismálum eru mjög samhljóða tillögum nefndarinnar, sem ég áður gat um, þó að þær séu að sjálfsögðu ítarlegri.

Þetta þætti mér geta orðið góður efniviður fyrir okkur til þess að fjalla um í því skyni að móta heildarstefnu í áfengismálum. Sú stefna yrði auðvitað að taka til allra tegunda áfengis og hvernig okkur þætti skynsamlegast að fara með þær með tilliti til þess mikla heilbrigðisvanda sem þessi vímuefni valda í þjóðfélaginu og líti nú hver maður sér nær því ég hygg að í nærri hverri einustu fjölskyldu í landinu finnist dæmi um slíkan vanda, svo algengur er hann.

Mikil umræða hefur farið fram um vímuefnavanda barna og unglinga, en án þess þó að þær umræður hafi alltaf tengst hvor annarri eða almennri stefnumótun í áfengis- og vímuefnamálum. Ég tel það vera beinlínis skyldu okkar hér að taka niðurstöður eins og þær sem ég áður nefndi frá nefndinni sem fjallaði um mótun áfengismálastefnu til umræðu því að það er afleitur siður að setja á viðamiklar nefndir til að fjalla um mikilvæg mál og hirða síðan ekkert um niðurstöður og vinnu þeirra þegar til kastanna kemur.

Ég hef talað talsvert um niðurstöður og stefnumörkun á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er ágreiningur um túlkun þessara niðurstaðna og hafa þm. m.a. borist áskoranir frá hópum lækna sem greinir á um það hvernig túlka beri þessar niðurstöður og hversu óhæft það er að leyfa bruggun og innflutning áfengs öls eða bjórs hér í landi án þess að eitthvað annað komi á móti eða aðrar aðgerðir komi til til að vega upp á móti þessari viðbót. Hins vegar tel ég að þessar niðurstöður gefi ærið tilefni til þess að hafa áhyggjur og taka ekki á málinu á þennan hátt sem hér er lagt til.

Ég vil vitna stuttlega, með leyfi forseta, til minnisblaðs sem mér barst frá landlækni eftir fund sem haldinn var í Norræna húsinu nýlega með geðlækni frá Osló að nafni Hans Olaf Fekjær sem hefur mikla reynslu af umfjöllun um áfengismál og meðhöndlun áfengis- og vímuefnasjúklinga. Þar komu fram eftirfarandi upplýsingar, með leyfi forseta:

Heildarneysla áfengis ræður mestu um heilsufarslegt tjón af áfengisneyslu. Og þá er stuðst við ályktanir sérfræðinga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, norrænna, breskra og franskra vísindamanna og gefnar tilvitnanir til verka þeirra.

Síðan er komið með samanburð við önnur efni þar sem niðurstöður eru þekktar eða fylgni. Það er minnst á tíðni lungnakrabbameins sem eykst í hlutfalli við tóbaksnotkun. Það er minnst á fjölda kransæðasjúkdóma sem eykst í hlutfalli við magn fituefna í blóði. Það er minnst á fíkniefnanotkun sem eykst í réttu hlutfalli við magn fíkniefna í umferð, þ.e. framboð af fíkniefnum. Síðan er sem dæmi tekið að samfara lækkandi kaupmætti um og eftir 1980 minnkaði sala áfengis t.d. í Bandaríkjunum, Brettandi og Svíþjóð og samtímis dró úr heilsufarslegu tjóni áfengis og fyrir allar þessar staðhæfingar eru gefnar tilvitnanir.

Í öðru lagi er talað um að tilraunir í nágrannalöndum til þess að draga úr neyslu sterkra áfengistegunda með því að beina áfengisneyslunni að veikari tegundum hafa að öllu jöfnu mistekist. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að hafa áhrif í þessa átt en án árangurs. Og þá er vitnað sérstaklega til reynslu Finna og Frakka í þessum efnum. Það er einnig minnst á það að hugsanlega sé hægt að draga úr heilsufarsvanda vegna áfengisneyslu með því að beina áfengisneyslunni að veikari tegundum, en, og ég legg áherslu á það, þá verður jafnframt að draga úr sölu á sterkari áfengistegundum og ég vek athygli á því að sú tilraun hefur í raun aldrei verið gerð.

Meðal nokkurra þjóða hefur sala sterkra áfengistegunda minnkað á undanförnum árum, þar á meðal Svía. Sumir hafa talið orsökina vera aukna sölu á veikari tegundum áfengis sem er reyndar með öllu ósannað þar eð Svíar beittu jafnframt mjög harðri verðstýringu, þ.e. hækkuðu verð á sterkum tegundum umfram verð á öðrum vörum sem hafði í för með sér minnkandi sölu á þeim. Við höfum t.d. vanrækt hér á landi að nota verðstýringu til þess að hafa áhrif á neyslu áfengis eða gert það að mjög litlu marki.

Ég vil vekja enn athygli á því, eins og reyndar hefur komið fram í máli annarra, að náttúra bjórs er öðruvísi en annars áfengis. Félagsleg staða þess og félagsleg notkun er allt önnur. Á því leikur enginn vafi. Menn tala mikið um það að þeir vildu fegnir að unglingarnir og börnin þeirra, ef þau á annað borð neyta áfengis, mundu fremur velja sér bjór en sterkt áfengi. En hvenær og hvernig ætla foreldrarnir að draga línuna gagnvart bjórneyslu, við hvaða aldursmörk, vegna þess að bjórinn er notaður allt öðruvísi en vín? Hann er stundum næstum álitinn sem svaladrykkur. Vitandi það að neysla vímuefna t.d. byrjar yfirleitt með neyslu áfengis af einhverju tagi, hvaða foreldri veit í raun hver örlög barnsins verða því það veit enginn fyrir fram þegar hann stígur fyrsta skrefið? Við hljótum öll að hafa áhyggjur af því. Án þess þó að við ætlum að stýra hegðun barnanna okkar að öllu leyti viljum við þeim hið besta. Við hljótum að bera áhyggjur gagnvart þessu því í raun getum við ekkert fullyrt um þetta.

Ég hygg líka að það verði í raun aukin krafa um meira framboð og fleiri sölustaði af áfengi vegna þess að fólk vill jöfnuð í þessum efnum. Það fer fram á það að áfengisútsölur verði opnaðar víða um landið til þess að það geti fengið bjór, ekki síst vegna þess að félagsleg neysla hans er öðruvísi og það má vænta þess að í kjölfar bjórsölu fylgi önnur áfengissala og þess vegna aukist framboð af áfengi. Það er mjög líklegt og þá erum við farin að vinna beinlínis gegn þeim markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem lögð hefur verið mikil áhersla á, að minnka framboð og aðgengi að áfengi.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykn. - er hann í salnum? (Forseti: Hann er hérna til hliðar.) — skil ég vel viðbrögð hans. Meðan ég bjó erlendis, í 13 ár, þar sem neysla á bjór var almenn kom ég heim í heimsókn auðvitað og einu sinni kom ég á ráðstefnu þar sem var fjöldi útlendinga sem fannst það afskaplega undarlegt, einmitt þetta sem hv. þm. minntist á, að hér væri ekki hægt að fá bjór. Mér fannst það líka undarlegt þó að ég hefði ekki dálæti á honum sjálf, þá fannst mér það mjög undarlegt og ég skil vel viðbrögð hans. En síðan, eftir að þetta mál hefur komið til umræðu og ég hef nú skipt um starf og er hér á þingi og hef þess vegna þurft að gaumgæfa málið í miklu, miklu víðara samhengi og á annan hátt, þá í fyrsta lagi er mér alveg sama þó að öðrum finnist það skrýtið. En ég hef jafnframt komist að því að málið er miklu flóknara að þessu leytinu til. Það er ekki bara spurning um að leyfa bjórinn, það er spurning um að móta almenna stefnu sem tekur á þeim vanda sem fylgir í kjölfar þessarar neyslu.

Ég hygg að fáir geti tekið undir eða mælt með þeim tvískinnungi og þeirri hræsni sem er í þessum málum nú þar sem hluti manna getur auðveldlega náð til - þetta voru kölluð lífsgæði í Nd. - þessarar vöru en aðrir eiga erfiðara með það. Það er eðlilegt að þetta valdi óánægju, sérstaklega ef mann langar til að neyta vörunnar. Ég tek undir það, tvískinnungurinn er afleitur. En besta ráðið til að taka á honum er einmitt að móta heildarstefnu í áfengismálum, að mínu viti. Ég sé enga aðra betri leið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að það er talsvert mikill þrýstingur og áhugi frá þeim sem vilja selja bjór, eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. áðan. Vitanlega er mikið fjármagn sem felst í því að framleiða og selja vöru sem á sér svo örugga notkun. Þannig að það er enginn vafi að þarna eru miklir hagsmunir í veði.

Síðan vildi ég nefna það sem ég hygg að hafi lítið komið til umræðu. Það hefur í gegnum tíðina verið mikið áhugamál kvenna og kvennahreyfinga að starfa að bindindismálum og berjast gegn afleiðingum áfengisnotkunar. Ég vil í því sambandi minnast á Hvíta bandið sem upphaflega var bindindishreyfing og ég vitna, með leyfi forseta, til þess sem sagt er um Hvíta bandið í bók Sigríðar Thorlacius, Margar hlýjar hendur:

„Hvíta bandið á Íslandi var stofnað árið 1895. Var það Ólafía Jóhannsdóttir sem beitti sér fyrir stofnun þess. En það var í fyrstu eingöngu bindindisfélag og nefnt Bindindisfélag kvenna. Ekki er vitað hve margar gengu í það á stofnfundinum 26. apríl. En í júní 1896 eru félagar orðnir 250. Fljótlega voru stofnaðar deildir úti um land, á Ísafirði, Bíldudal, Flatey og Akureyri, og auk þess barnadeild í Reykjavík. Einnig starfaði yngri deild Hvíta bandsins hér í mörg ár og var fjölmenn. Í ágúst 1895 mætti á fundinum bandarísk kona, Jessy A. Ackermann, umboðsmaður kristilegs alheimsbindindisfélags kvenna. Gerðist íslenska félagið meðlimur þess og var eftir það kallað Hvíta bandið. Fyrstu stjórn Hvíta bandsins skipuðu Ólafía Jóhannsdóttir forseti, Elín Eggertsdóttir skrifari, Louise Jensen gjaldkeri. Allmargir karlmenn störfuðu innan vébanda félagsins framan af.“ - Reyndar getur nú ekkert um það hvað varð af þeim, hæstv. forseti.

„Sem fyrr segir var aðaltilgangur félagsins að vinna að bindindismálum. Gaf það út tímarit um skeið og var Guðrún Lárusdóttir ritstjóri þess. Var öfluglega unnið að því að koma á aðflutningsbanni á áfengi og viðhalda því. Var oft haft samstarf við Góðtemplararegluna um áskoranir til Alþingis þessu viðvíkjandi. Meðal tillagna sem fram komu á fundum var t.d. sú að konur skyldu ekki versla við kaupmenn er seldu vín og að veitingamönnum skyldi gert að skyldu að hýsa drukkna menn ef þeir væru ósjálfbjarga. Eitt sinn tóku konur í félaginu sig saman um að stand vörð við veitingahúsin á lokadaginn og fá menn til að eyða ekki kaupinu sínu í vín.“

Það er vert að minnast þeirra brautryðjendakvenna sem nú eru löngu gleymdar en löngu hefur fennt í sporin þeirra og fáir minnast á þær, því miður. Það var ekki að ástæðulausu að konurnar tóku sig saman og mynduðu bindindishreyfingar. Það var kannski ekki síst vegna þess að það voru fyrst og fremst karlmenn sem drukku þá vín og drukku vín illa. Það voru feður þeirra, það voru mennirnir þeirra, það voru bræður þeirra og synir þeirra sem lentu illa í því út af ofneyslu áfengis. Það var þeirra hag sem þær vildu reyna að bæta.

Ég minni ykkur líka á það, hv. þingdeildarmenn, að ein af ástæðunum fyrir því að konur voru mjög virkar að safna fyrir Háskóla Íslands á sínum tíma - því þar voru þær mjög duglegar án þess að þeirra hafi verið getið mikið af því tilefni — var ekki síst sú, auðvitað, að efla íslenska menningu. En önnur meginástæðan var líka að koma í veg fyrir það að karlmennirnir þeirra, synir þeirra, bræður, kannski feður og makar, lentu í sollinum í Kaupmannahöfn. Þær vildu frekar hafa þá hér heima þar sem minni hætta væri á að þeir færu illa, eins og margir fóru reyndar sem fóru til Hafnar á þeim tíma til náms. Þannig að þetta hefur lengi verið baráttumál kvennahreyfinga, að berjast gegn ofneyslu áfengis.

Reynsla annarra þjóða sýnir okkur að áfengisneysla barna og unglinga eykst og byrjar fyrr þar sem áfengur bjór er á boðstólum en þar sem hann fæst ekki. Það ástand sem nú ríkir í okkar þjóðfélagi í umönnun barna og unglinga, ekki síst í málefnum þeirra sem erfiðast eiga vegna vímuefnaneyslu, gefur ekki tilefni til að auka á þann vanda sem fyrir er, að mínu mati. Meðan ekki er gert betur í þessum efnum, meðan félagsleg umönnun barna og unglinga er ekki beysnari en hún er, meðan ekki er til langtíma meðferðarathvarf fyrir allra yngstu fórnarlömb vímuefnaneyslu, meðan geðheilbrigðisþjónusta barna annar ekki verkefnum sínum vegna fjármagnsskorts, meðan aðstæður til sérstakrar geðheilbrigðisþjónustu unglinga eru að vísu byrjaðar en hefur kannski ekki verið sinnt sem skyldi, í stuttu máli sagt: meðan úrræði okkar til að sinna þeim sem óhjákvæmilega verða fórnarlömb aukinnar neyslu eru ekki betri í reynd get ég ekki stutt það frv. sem hér er til umræðu.

Það kunna að koma þeir tímar og þær staðreyndir byggðar á reynslu að réttlætanlegt sé að bæta við það úrval áfengis sem á boðstólum er. En ég get ekki sannfærst um að þetta sé kappsmál kvenna og barna, en hingað kom ég sem málsvari þeirra. Þess vegna mun ég ekki styðja þetta mál. Ég mun reyna að hafa áhrif á það í nefndinni. Ég mun reyna að hvetja til þess að fremur verði staðið að því að móta heildarstefnu í áfengismálum þjóðarinnar því að það held ég að sé mun vænlegri kostur, bæði til að leita bóta á þeim vanda sem við höfum enn ekki getað sinnt, eins til að leita þess jöfnuðar sem margir vilja í þessum efnum. En ég mun ekki hafa fleiri orð við þessa 1. umr. og hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.