20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6667 í B-deild Alþingistíðinda. (4605)

293. mál, áfengislög

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ræða mín verður stutt. Hún var raunar frumflutt 10. júní 1985 þegar ég talaði fyrir áliti meiri hl. hv. allshn. og meiri hl. lagði til að frv. yrði samþykkt. Ræðan er sem sagt endurflutt vegna margra áskorana og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Menn hafa æðimikið rætt um bjór og ekki bjór að undanförnu. Ég hygg ekki að við bætum okkur neitt á langri umræðu hér í kvöld um það mál. Ég býst við því að öll rök bæði með og móti séu þegar komin fram og ég veit að hver einasti hv. alþm. hefur hugsað mikið um þetta mál. Sumum finnst það ekki stórt í sniðum. Sjálfur hef ég ekki tekið neinn þátt opinberlega í umræðu um málið.

Ég hef gert það upp við mína eigin samvisku hvernig ég greiði hér atkvæði og það veit ég að allir hv. þm. hafa gert. En sem sagt, mín von er sú og sjálfsagt okkar allra að hvernig sem atkvæðagreiðsla hér fer — og ég hef ekki hugmynd um hvernig hún muni fara - verði það til gæfu fyrir okkar þjóð.

En ég vil leggja á það áherslu að ég er mjög eindregið á móti því að vísa þessu máli frá Alþingi, vísa því til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að okkur beri skylda til að taka afstöðu hér og allir geri það auðvitað eftir bestu vitund og í von um að gott muni leiða af atkvæði þeirra. Þannig vona ég að atkvæðagreiðslan fari, hvort sem málið verður samþykkt eða fellt verði ákvörðunin rétt.“