20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6669 í B-deild Alþingistíðinda. (4609)

Frumvarp til áfengislaga

Forseti (Guðrún Agnarsdóttir):

Að gefnu tilefni vill forseti taka fram, sérstaklega vegna ummæla um það hér áðan að um óvanaleg vinnubrögð væri að ræða, að það er reynsla forseta af setu hér um eitt kjörtímabil að ef ræðumaður óskar eftir því að hlé verði gert á máli hans og hann vilji ljúka því síðar, þá sé engin ástæða til annars en að verða við þeirri beiðni. Það hefur forseti ítrekað séð gert án nokkurra andmæla. Þess vegna hygg ég ekki að um óvanaleg vinnubrögð hafi verið að ræða.

Síðan vil ég líka taka það fram að einungis einn þm. hefur komið til mín og beðið sérstaklega um að fundur yrði hafður hér að loknum þingflokksfundi í dag og það er hv. 3. þm. Vesturl. Enginn annar hefur komið að máli við mig um þetta mál eða beðið um eina eða aðra fyrirgreiðslu í því sambandi. Sjálfri finnst mér mjög eðlilegt að þetta mál fái vanalega afgreiðslu þingsins. Ef tök verða á því og menn geta mætt hér til fundar kl. 6 mun verða boðaður fundur. Ég mun kanna það meðal þm. hvort þeim takist að mæta hér á fundi kl. 6.