05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

61. mál, heilbrigðisfræðsluráð

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra jákvæð viðbrögð hans við frv. um heilbrigðisfræðsluráð sem ég hef lokið að mæla fyrir. Ég þakka honum einnig svör hans við þeim fsp. sem ég bar fram.

Ég vil þá fyrst víkja að því sem hann nefndi að við flm. hefðum ekki gert neina áætlun um hver kostnaður kynni að vera vegna þessa ráðs ef það væri stofnað. Reyndar fylgir slík áætlun í frv. í athugasemd um 7. gr. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að frv. var prentað upp vegna þess að það vantaði allar athugasemdir við greinar frv. En í athugasemdum um 7. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Ætla má að nokkurn tíma taki að byggja upp starfsemi heilbrigðisfræðsluráðs og er því óvíst hver umsvif þess verða í fyrstu. Til þess að reyna að gera sér nokkra grein fyrir þeim kostnaði sem fylgja mundi stofnun heilbrigðisfræðsluráðs má taka mið af Rannsóknaráði ríkisins til samanburðar.

Rannsóknaráði ríkisins eru ætlaðar tæplega níu milljónir króna á fjárlögum 1986. Þar störfuðu á skrifstofu sjö manns með framkvæmdastjóra. Auk launakostnaðar þeirra var innifalið í rekstrarkostnaði Rannsóknaráðs laun fyrir starfshópa, útgáfa skýrslna, upplýsingaþjónusta, fundahöld, erlend samskipti o.fl.

Búast má við að kostnaður við stofnun heilbrigðisfræðsluráðs verði a.m.k. helmingi minni en sú upphæð sem ætluð er til reksturs Rannsóknaráðs.“

Síðan geta umsvif þess að sjálfsögðu orðið meiri eftir því sem starfsemin vex. En eins og hæstv. ráðherra tók fram er ekki ætlað að launa þá 21 aðila sem í ráðinu sitja, heldur að þeir sæki fundi sér að kostnaðarlausu ef þeir t.d. eru búsettir utan Reykjavíkur.

Ég vil gjarnan, herra forseti, að athygli hæstv. ráðherra sé óskipt meðan ég ræði við hann sérstaklega. (Gripið fram í: Ekki veitir af.) Eins og ég sagði var gert ráð fyrir því í frv. að þessir 21 fulltrúar sem eiga sæti í ráðinu séu ólaunaðir en sæki fundi sér að kostnaðarlausu, þannig að þá yrði einungis um ferðakostnað að ræða ef þeir búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Við veltum því lengi fyrir okkur, flm., hvort bæri að hafa ráðið stórt eða lítið, vel meðvitaðar um þá gagnrýni sem gjarnan beinist að þeim ráðum eða nefndum sem eru mjög stórar. Hins vegar fannst okkur skipta geysilega miklu máli, og það kom reyndar fram í máli mínu þegar ég byrjaði að mæla fyrir frv. á fyrri fundi deildarinnar, að þarna yrði ríkjandi valddreifingarsjónarmið, að sem flestir fengju að koma að við þessa stefnumótun. Hún yrði ekki þröng og ekki á fárra höndum, heldur væri þessi stóri hópur fyrst og fremst hugsaður sem gagnabanki, ef svo mætti kalla, sem hefði tækifæri til að leggja sín sjónarmið og þekkingu fram og taka ákvörðun í sameiningu um forgangsröðun. Síðan höfðum við hugsað okkur framkvæmdanefndina og þá með framkvæmdastjóra sem hið raunverulega heilbrigðisfræðsluráð frá degi til dags, sem mundi annast alla daglega starfsemi ráðsins. Yrði það nánast eins og lítil nefnd, ef svo mætti segja, en ætti greiðan aðgang að stórum hópi aðila þar sem væri tryggt að margar ólíkar hugmyndir kæmu fram og jafnvel að þessi nefnd ætti kost á því, lagalega skilgreindan kost, að sækja sér víða í þann sjóð sem hún þyrfti að móta stefnu sína úr. Eins og ég sagði, þessar skoðanir okkar réðu úrslitum, að valddreifingarsjónarmiðið og það að ólík sjónarmið ættu aðgang að stefnumótun væri veigameira en hin svokölluðu hnitmiðuðu og markvissu vinnubrögð því að við töldum að við hefðum gert ráð fyrir þeim með framkvæmdanefndinni.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að leggja frekari áherslu á þessi mál með því að halda heilbrigðisþing í febrúarmánuði nk. Ég fagna því líka að hann vilji taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í þessu frv. þegar starfstilhögun forvarnastofnunar verður mótuð og lofa einhverjum þessara sjónarmiða að njóta sín þar. Ég legg enn fremur ríka áherslu á það að þau sjónarmið sem fram koma í febrúar, þegar þessi áætlun verður rædd, fái líka að koma til áður en samningu frv. er lokið. Ég tel það vera mjög mikilsvert vegna þess að þessi skýrsla um íslenska heilbrigðisáætlun hefur að mjög litlu leyti farið í umræðu meðal heilbrigðisstarfsfólks enn þá. Það var rétt núna á aðalfundi Læknafélags Íslands sem hún var rædd í fyrsta sinn og það voru greinilega mjög skiptar skoðanir um hana þar. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk fái tækifæri til þess að láta sín sjónarmið í ljós því að þessi stefnumótun varðar starf þess miklu.

Varðandi forvarnarstarf og þann ágreining sem hæstv. ráðherra vitnaði til og hefur komið fram í dagblöðum undanfarnar vikur og mánuði kann að vera að það ríki ágreiningur um ýmislegt sem varðar forvarnir milli hópa og einstaklinga meðal heilbrigðisstarfsfólks. Hins vegar taldi ég upp ákveðna þætti þar sem enginn vafi er á að aukið starf og þar með aukin fjármögnun skilar strax miklum árangri. Ég nefndi slysavarnir, ég nefndi reykingar, ég nefndi t.d. leit að sjúkdómum á byrjunarstigi og síðan tók ég reyndar dæmi af sjúkdómnum eyðni. Mig langar lítillega að minnast á það sem við ræddum í sameinuðu þingi í fyrradag, en það er einmitt kynfræðslan. Ég vil ítreka það enn í þessari umræðu að reynsla nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum hefur sýnt að aukin kynfræðsla dregur verulega úr tíðni ótímabærra þungana hjá unglingsstúlkum og þar með fóstureyðingum hjá þessum aldurshópi. Það var hér nýlega á ferðinni danskur læknir sem vann við heilsugæsluumdæmi í Kaupmannahöfn og hann sýndi fram á með tölum hversu snarlega hefði dregið úr bæði tíðni ótímabærra þungana og fóstureyðinga hjá unglingsstúlkum eftir að sérstakt átak var gert í kynfræðslu meðal unglinga. Það er því enginn vafi á að sum atriði í forvörnum eru hafin yfir alla gagnrýni eða ágreining. Síðan getur verið ýmislegt sem fólk greinir á um í sambandi við lifnaðarhætti og annað. En það eru þessi atriði sem ég áðan nefndi sem t.d. skipta verulegu máli og það sem er brýnt, til þeirra hefur ekki verið varið fé sem skyldi. Það er kannski fyrst og fremst það sem við eigum að beita okkur fyrir, einhverju sem við vitum að muni skila árangri. Það er engin afsökun fyrir okkur að gera það ekki.

Ég lýsi áhyggjum yfir því hve lítill skilningur fjármálayfirvalda virðist vera á mikilvægi forvarnarstarfs í heilbrigðismálum því að það kemur berlega í ljós í þeim fjárlögum sem liggja fyrir þessu þingi núna. Þykir mér mjög miður að ekki skuli gæta ríkari skilnings í þeirri forgangsröðun sem þar er sýnd. Ég vona hins vegar að hæstv. heilbrmrh. geti vegna áhuga síns og skilnings í þessum efnum miðlað einhverju til samráðherra sinna þannig að næstu fjárlög beri allt annað yfirbragð og sýni það að stjórnvöld skilji hversu mikilvæg þessi sjónarmið eru og hversu mikilvægt er að veita fé til þeirra.