20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6670 í B-deild Alþingistíðinda. (4613)

Frumvarp til áfengislaga

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég bið þessa virðulegu deild að halda ró sinni og falla ekki í þær fallgryfjur sem við höfum séð opnast hérna í næsta herbergi stundum í tengslum við þetta mál. Ég kannast ekki við það að menn séu hér uppi með offors og sjaldan hef ég heyrt hæstv. landbrh. brugðið um það að hann hafi gengið fram með offorsi, óbilgirni og frekju hér í þingsölum. (Gripið fram í: Hver hefur sagt það?) Ég tel því enga ástæðu til að hafa uppi dylgjur í þá veru af neinu tagi.

Það er sérkennilegt að hv. 3. þm. Vesturl. er órólegur í þessu máli og gefur það kannski ástæðu til að ræða ítarlegar við tækifæri hverju það veldur. Ég skil ekki hvers lags læti þetta eru. Er ekki rétt að menn fái tíma til að ganga til þingflokksfunda með eðlilegum hætti og ráða ráðum sínum? Forseti skoðar svo á sín spil og boðar til fundar þegar hún telur rétt og nauðsynlegt í samráði við þm.

Ég vil geta þess að minn þingflokkur, þingflokkur Alþb., er nú að hefja fund og hafði gert ráð fyrir að sitja á fundi með venjulegum hætti. Ég vísa því á bug að verið sé að gera okkur það upp að það standi til af okkar hálfu að tefja hér mál. Ég kannast ekki við að það drepi þetta mál né önnur þó að það yrði tekið fyrir á þriðjudag en ekki í dag kl. 6 sem er harla óvenjulegur tími.

Ég vil einnig mótmæla þeim aðdróttunum í garð hæstv. forseta sem hér hafa komið fram sem ég tel að öllu leyti óeðlilegar og endurtek það að ég skora á menn að halda ró sinni og á okkur öll að reyna að halda okkur við þau grundvallaratriði sem við settum okkur í upphafi þessarar umræðu.