05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

61. mál, heilbrigðisfræðsluráð

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Það er góður hugur að baki frv. en ég verð að lýsa mínum efasemdum um hvort slíkt ráð, heilbrigðisfræðsluráð sem gert er ráð fyrir, sé rétta leiðin. Hér er um umfangsmikið ráð að ræða með 21 fulltrúa. Staðreyndin er sú að það hefur ekki verið lögð nægjanleg áhersla á hvers konar forvarnarstarf í heilbrigðiskerfinu. Hún er réttmæt sú gagnrýni sem oft heyrist um að vegna takmarkaðs fjármagns geti aðilar ekki sinnt þeirri fræðslu og forvarnarstarfi sem hinum ýmsu aðilum ber að gera. Það er spurning hvort ekki væri hætta á að það mundi skarast eitthvað ef slíkt heilbrigðisfræðsluráð væri sett á laggirnar ef fleiri aðilar færu að sinna þessum verkefnum. Margir aðilar, eins og reyndar eru nefndir í upptalningunni, hafa þetta verkefni að sinna slíkri fræðslu og forvarnarstarfi. En augljóst er að það þarf að efla allt forvarnarstarf í heilbrigðisþjónustunni. Ég hef einhvern tímann sagt það áður og endurtek nú að ef lögð væri á það meiri áhersla með fjárveitingum væri hægt að stoppa í fjárlagagötin, það er staðreynd. Það væri hægt að minnka þann kostnað sem lýtur að heilbrigðiskerfinu bæði vegna slysa og ýmissa sjúkdóma sem væri hægt að koma í veg fyrir með slíku forvarnarstarfi.

Ég legg áherslu á og tek undir það að efla þarf alla fræðslu eins og hv. 6. þm. Reykv. nefndi áðan, t.d. kynlífsfræðslu. Þetta þarf auðvitað að gerast alveg frá grunnskóla og upp úr. Hvers konar fræðslu sem lýtur að þessum málum þarf að efla innan skólanna og innan fræðslukerfisins.

Ég vildi aðeins láta heyra í mér varðandi flutning þessa máls og þakka hv. flm. fyrir allan þann fróðleik sem hefur komið fram í hennar framsögu, kom fram á síðasta fundi þar sem framsagan var svo löng að það dugðu ekki minna en tveir fundir.

Ég á sæti í heilbrigðisnefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Það verður því væntanlega skoðað þar og leitað umsagna. Ég veit ekki betur en að frv. hafi á sínum tíma verið sent til umsagnar margra aðila en fáir skiluðu inn umsögnum. Það hlýtur því að verða að leita eftir þeim á nýjan leik.