20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6676 í B-deild Alþingistíðinda. (4631)

271. mál, framhaldsskólar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég tel að aðferð forseta, sú sem hann ætlar að viðhafa, sé hin eina mögulega einfaldlega vegna þess að ég hef gert tillögu um að kaflinn í heild orðist eins og þar er gerð tillaga um og það er kaflinn í heild sem er borinn upp. Þetta er kannski svipað og ef hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flytur tillögu um að vísa frv. í heilu lagi til ríkisstjórnarinnar svo ég nefni það sem dæmi. Þá er gerð tillaga um afgreiðslu á öllu frv. á einu bretti og þá verður að afgreiða hana sem sérstaka tillögu án tillits til annarra brtt. sem koma fram. Ég tel að þegar gerð er tillaga um að breyta kaflanum í heild, það er gerð tillaga um nýjan kafla sem inniheldur allt annað en það sem fyrir var, sé ekki hægt að hafa neina aðra aðferð því ef það væri farið að grípa á einstökum brtt. mundi það aldrei passa neitt saman.