05.11.1987
Neðri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

33. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga, sem er að finna á þskj. 33, um jarðhitaréttindi, en það er flutt af mér og fjórum öðrum hv. þm. Alþb.

Þetta frv. tekur til alls jarðhita og með því er lagt til að lögfestar verði reglur um umráðarétt og hagnýtingarrétt jarðhita. Meginstefnumörkun frv. felst í því að landeigendur hafi umráð jarðhita á yfirborði landsins og undir því að 100 m dýpi, en umráð alls jarðhita, hvort sem er á landsvæðum, sem ekki eru háð einkaeignarrétti eða undir yfirborði einkaeignarlanda í meira en 100 m dýpi, skuli vera í höndum ríkisins, þ.e. almannaeign.

Með frv. er einnig lagt til að ráðherra veiti leyfi til rannsókna, borana og hagnýtingar jarðhita sem er almannaeign skv. lögunum og að sett verði reglugerð með nánari fyrirmælum um framkvæmd laganna, þar á meðal um umsóknir um jarðhitaleyfi og jarðhitarannsóknarleyfi, svo og um leyfin sjálf, en í þeim er eðlilegt að ákveða leyfisgjöld sem leyfishafi greiðir þegar við á.

Enn fremur er í frv. lagt til að þeir sem þegar hafa borað eftir jarðhita dýpra en 100 m í einkaeignarlandi skuli halda rétti sínum til nýtingar jarðhitans án sérstaks leyfis og án greiðslu leyfisgjalds. Slíkir aðilar skulu einnig hafa forgangsrétt til frekari nýtingar á jarðhitasvæðum, þó ekki til nýrra fyrirtækja.

Í frv. er lagt til að sveitarfélög, sem land eiga á jarðhitasvæði við gildistöku laganna, skuli hafa forgang að nýtingu jarðhitans á landi sínu og vera undanþegin leyfisgjaldi.

Í frv. er einnig lagt til að veitt verði heimild til eignarnáms vegna rannsókna, borunar og vinnslu jarðhita og inn í frv. er tekið núverandi ákvæði orkulaga um vinnslu jarðhita og verndun jarðhitasvæða ásamt smávægilegum breytingum.

Þetta er, herra forseti, meginefni þessa frv. Þetta mál hefur áður verið flutt og þeir sem setið hafa í þessari virðulegu deild á fyrri þingum kannast við þetta mál. Það var upphaflega flutt sem stjfrv. í ársbyrjun 1983 af þáverandi ríkisstjórn með vissum fyrirvörum af hálfu sjálfstæðismanna sem stóðu að þeirri stjórn. En með frv. er tekinn upp þráður sem hófst á Alþingi 1937 þegar gerð var fyrsta tilraunin til að setja heildarlög um jarðhita. Nú er helstu ákvæði um þetta efni að finna í vatnalögum og í orkulögum og þar er ekki að finna skýr ákvæði sem varða eignarhaldið á jarðvarmanum. Það er löngu, löngu brýnt að löggjafinn taki á þessu máli og skeri úr um það hver skuli vera nýtingarréttur einkaaðila og hversu vítt almannarétturinn skuli ná varðandi þessa auðlind. Hér eru mörkin dregin við 100 m dýpi. Allur jarðhiti sem sóttur er neðar verði almannaeign en einkarétturinn gildi niður að þeim mörkum. Þegar á þessu máli hefur verið tekið af öðrum í sambandi við þessi efni þá hefur gjarnan verið miðað við 100 m dýpi en auðvitað er það matsatriði hvar sú lína nákvæmlega er dregin.

Í umræðum um mál þessu skyld, sem hafa verið færð inn á Alþingi, hefur vissulega verið rætt og deilt um það hvort lagasetning af þessu tagi brjóti í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar. Það er ekki að mati flm. þessa máls talið að svo sé og við styðjum okkur þar við löglærða menn sem um þetta hafa fjallað og vitnað er til í grg. Þar er vitnað til Ólafs Lárussonar prófessors en einnig er vitnað til álitsgerða Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra og formanna í stórum og öflugum stjórnmálaflokkum. Báðir þessir stjórnmálamenn og lögspekingar töldu að lagasetning af því tagi sem hér er gerð tillaga um bryti ekki gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Ég vísa til bls. 6 í grg. þar sem raktar eru niðurstöður Ólafs Jóhannessonar um þetta efni, en hann telur eðlilegt að sett séu ákvæði í lög um náttúruauðæfi af þessu tagi og að það brjóti ekki gegn eignarréttarákvæðum.

Ég bendi á að á bls. 7 í þessu frv. er rakið í grg. hvernig skipan þessara mála er í ýmsum löndum sem eiga yfir slíkri auðlind að ráða sem er jarðvarmi og þar er almannarétturinn mjög víðtækur í löndum eins og Noregi, og það á reyndar við um auðæfi í jörðu, ekki jarðvarma þar sérstaklega, heldur olíuauðæfin. Í Danmörku hefur verið sett löggjöf sem varðar hráefni neðanjarðar og einnig varðandi olíulindir. Í Bandaríkjunum, landi einkaframtaksins sem stundum er kallað, hafa verið sett lög um jarðhita þegar árið 1970 og 1974, þar sem verðmæti í jörðu eru undanskilin sölu landareigna og í Bandaríkjunum er langmestur hluti jarðhita í umsjá ríkisins. Sama gildir um Nýja-Sjáland. Þar var sett löggjöf 1953 um jarðvarma sem kveður á um að hann sé almannaeign án bóta til landeigenda og þar er um mjög víðtæka og almenna löggjöf að ræða.

Ég nefni þetta til þess að draga fram varðandi þetta mál að við erum með þessu ekki að ganga gegn því sem almennt hefur verið lögfest í löndum sem virða þó einkaeign býsna víðtækt en hafa undanskilið auðlindir, olíulindir, jarðefni og jarðvarma frá einkaeignarréttinum og lýst það almannaeign.

Menn spyrja: Er nauðsynlegt að setja slíka löggjöf? Hvað knýr á? Það er margt. Það.er í fyrsta lagi réttlætismál. Það er í öðru lagi þörfin á að nýta þessar auðlindir til almannaheilla án þess að greiða þurfi of fjár fyrir slík réttindi. Og það er rannsóknarþörfin, það eru möguleikarnir á að ganga óhindrað fram til að rannsaka þessa auðlind okkar sem við vonumst til að geta hagnýtt okkur í auknum mæli. Einkaeignarrétturinn og landamörk sem sumpart liggja þvert gegnum jarðhitasvæði hafa komið í veg fyrir og standa í vegi fyrir eðlilegum rannsóknum á jarðvarmanum.

Menn þekkja dæmin um það hvaða verði sveitarfélög hafa verið að kaupa jarðvarmaréttindi og er skemmst að minnast kaupanna á Ölfusvatni í Grafningi af hálfu Reykjavíkurborgar þar sem um 60 milljónir voru greiddar, 1985 mun það hafa verið, fyrir landskika sem að fasteignamati var metinn á 400 þús. kr. Þetta sýnir mat sem ég tel vera óeðlilegt, að nokkur geti átt auðlind sem er fólgin í iðrum jarðar, auðlind sem auk þess fylgir ekki landamörkum, eins og ég hef þegar getið um, og spyr ekki um landamörk.

Ég vil að endingu, herra forseti, nefna ábendingu sem virtur jarðeðlisfræðingur kom á framfæri við mig nýlega í sambandi við þetta mál. Hann sagði: Ég á mjög bágt með að skilja það hvernig þjóð í eldfjallalandi eins og Íslandi telur annars vegar rétt að bæta tjón af völdum eldvirkni, af völdum jarðelds í sínu landi, eins og við höfum gert og samstaða er um, en að hinu leytinu er samfélaginu ætlað að greiða stórfé til aðila sem eru taldir eiga tilkall til auðlindar sem er rakin til þessa sama jarðelds og er af sömu rót.

Það er heilbrigð skynsemi að mínu mati sem þarna liggur að baki þessum orðum jarðvísindamannsins. Það er ekki gott að Alþingi Íslendinga skuli ekki hafa tekið á þessu máli með lagasetningu og því er þetta frv. enn flutt í von um að nýtt þing vilji færast í fang það verkefni að skera hér úr með lögum.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til hv. iðnn.