20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6682 í B-deild Alþingistíðinda. (4651)

126. mál, mat á sláturafurðum

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið enda er liðið á þann tíma sem þingfundur stendur í dag, en ég kem hér í ræðustól til að undirstrika það sem reyndar kom fram í ræðu hv. frsm. að það er full ástæða til að taka sláturhúsamálin til umræðu og það til rækilegrar umræðu hér í hv. Alþingi og þá skýrslu sláturhúsanefndar sem liggur fyrir. Það er rétt sem kom fram í hans máli að mikill samdráttur hefur orðið í sauðfjárslátrun. Það er þörf á endurskipulagningu víða á fyrirkomulagi sláturhúsa, en það er alls ekki sama hvernig sú endurskipulagning fer fram því að þessi mál eru viðkvæm. Þetta eru viðkvæm atvinnumál í hinum strjálbýlu byggðum landsins þó jafnvel að þessi atvinnustarfsemi standi ekki nema stuttan tíma á ári hverju. Þau fyrirtæki sem fást við slátrun, sláturleyfishafar, eru víða í erfiðleikum vegna þess samdráttar sem hefur verið á undanförnum árum og þeir hafa ekki bolmagn til þess að fara í þá endurskipulagningu og þann kostnað sem henni fylgir án þess að til þess komi einhver aðstoð, en það er nauðsynlegt að ráðast í hana eigi að síður. Ég vildi því aðeins koma hér í þennan ræðustól til að undirstrika það að það er afskaplega nauðsynlegt að þessi mál verði rædd og fái ítarlega umfjöllun hér í hv. Alþingi þannig að þessi mál skýrist og þingið móti sér stefnu í framtíðarmálum sláturhúsanna.

Ég endurtek það, þetta eru viðkvæm mál. Þetta eru viðkvæm atvinnumál fyrir fólkið í hinum dreifðu byggðum og þetta hefur verið óaðskiljanlegur þáttur í atvinnustarfseminni þar fram undir þetta og munar þar mikið um. Það er því ekki sama hvernig að þessum málum er staðið, en eigi að síður þurfum við að ná því marki að sláturhúsin þjóni því hlutverki sem þeim er ætlað, þau séu góðir vinnustaðir sem fullnægi eðlilegum kröfum um að framleiða góða matvöru sem gengur á neytendamarkaðinum.