20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6682 í B-deild Alþingistíðinda. (4652)

126. mál, mat á sláturafurðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það sem mig langar til að benda á í upphafi er að það er náttúrlega alveg út í hött að miða við 1. júní 1989 því það er í raun og veru þá verið að samþykkja bara í ár. (Gripið fram í: Nei, það er til 1990, það eru tvö ár.) Já, til 1990. Það eru tvö ár, en það er sama. Eins og þessi mál standa nú verður ekki mikið gert á næstu tveimur árum. Ég veit ekki hvar á að fá fjármagn til þess.

Það hefur komið fram hér að nauðsynlegt sé að taka þessi mál til umfjöllunar. Það hefði átt að vera búið að því fyrr og sú skýrsla sem við höfum fengið í hendur um tillögur um breytingar er í mörgum tilvikum alveg út í hött. Það gengur því aldrei að gera þetta á þann veg, enda hygg ég að þetta sé framkvæmt á skrifstofuborði hér í Reykjavík án þess að gera sér grein fyrir því hvernig aðstæður eru í þessum málum víða úti um land. T.d. er gert ráð fyrir því í tillögunni, ef ég man rétt, að ekki eigi að slátra við Eyjafjörð og það eigi að flytja frá Vopnafirði til Kópaskers allt fé. Þeir sem þekkja þarna til vita að það er alveg fráleitt. Þess vegna þarf að fara að ræða þessi mál og gera það af einhverri þekkingu á aðstæðum og af einhverri skynsemi. En það tekur meira en tvö ár að koma því í lag.

Við höfum frétt að ekki séu líkur á því að við getum flutt út kjöt til Efnahagsbandalagsþjóðanna öðruvísi en að gera átak í einu, tveimur sláturhúsum á landinu. Hvernig verður farið með það mál? Hefur hv. landbn. skoðað það? Mér dettur ekki í hug að spyrja ríkisstjórnina um neitt í þessu efni. Ég veit að svar við því kemur ekki því að hún kemur sér náttúrlega ekki saman um þetta frekar en annað. Hitt hefði verið fróðlegt að hafa hæstv. landbrh. hér til þess að spyrja hann, persónulega, hverju hann muni reyna að vinna að í þessum efnum. En það er ekki ástæða til þess að ræða þetta mál frekar. Það þarf að taka á því og það þarf að gera það í sambandi við aðila úti um land. Þetta er náttúrlega eins og hefur verið, þetta er ekkert nýtt, að það er verið að biðja um breytingu, um frest á þessu í eitt, tvö ár í einu, en menn taka ekki á vandamálinu eins og það liggur fyrir.