25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6686 í B-deild Alþingistíðinda. (4659)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Hinn 7. des. 1987 var lögð fram á Alþingi svohljóðandi beiðni um skýrslu frá menntmrh.:

„Óskað er eftir því við menntmrh. að hann gefi Alþingi ítarlega skýrslu að undangenginni rækilegri rannsókn um fréttaflutning Ríkisútvarpsins dagana 9. og 10. nóv. sl. vegna hins svonefnda Dag Tangen máls. Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi í Sþ. þegar og henni hefur verið útbýtt.“

1. flm. till. var hv. 4. þm. Austurl. Sverrir Hermannsson og meðflm. átta þingmenn úr stjórnarflokkunum þremur.

Till. var samþykkt samhljóða á fundi í Sþ. 10. des. 1987 og menntmrh. tilkynnt það samdægurs. Í framhaldi af því var hafist handa um að vinna að máli þessu í menntmrn. Skýrslan var lögð fram á Alþingi í fyrri viku og vænti ég þess að hv. þm. hafi haft góðan tíma til að kynna sér efni hennar vandlega.

Ég vil í upphafi gera Alþingi grein fyrir því í örfáum orðum hvernig unnið var að gerð þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu.

Leitað var til Ríkisútvarpsins og óskað eftir því að öll gögn málsins, endurrit frétta og fréttatengdra þátta, bókanir útvarpsráðs og annað af því tagi yrðu send menntmrn. Gögn þessi bárust flest 18. jan. og eru birt sem fylgiskjöl 1-9 í skýrslunni. Hinn 8. febr. sl. sendi útvarpsstjóri ráðuneytinu síðan afrit af úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands um umræddan fréttaflutning Ríkisútvarpsins, en útvarpsstjóri hafði átt frumkvæði að því að vísa málinu til nefndarinnar. Er úrskurður siðanefndar birtur sem fylgiskjal 10 í skýrslunni.

Hinn 15. jan. leitaði menntmrn. til dr. Þórs Whitehead, prófessors í sagnfræði við heimspekideild Háskóla Íslands, og óskaði eftir ráðgjöf hans og umsögn vegna málsins. Dr. Þór Whitehead, sem nú dvelur við sagnfræðirannsóknir í Freiburg í Vestur-Þýskalandi, er ótvírætt einhver fremsti sérfræðingur okkar í sögu íslenskra utanríkis- og öryggismála á fjórða og fimmta áratugnum og höfundur fræðilegra rita og ritgerða um þau efni. Hann gjörþekkir skjöl er varða Ísland og íslenska menn frá þessum árum og varðveitt eru í skjalasöfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Var það mat ráðuneytisins að enginn væri betur til þess fallinn að vinna skýrslu þá er Alþingi óskaði eftir en dr. Þór.

Í bréfi ráðuneytisins var þess farið á leit við dr. Þór að hann legði mat á eftirfarandi:

1. Skjöl þau um samskipti íslenskra og bandarískra stjórnvalda er gerð voru að umtalsefni í fréttum og fréttatengdum þáttum Ríkisútvarpsins 9. og 10. nóv. 1987.

2. Vinnubrögð fréttastofu Ríkisútvarpsins varðandi skjöl þessi.

Skýrsla dr. Þórs Whitehead, Álitsgerð: Dag Tangen málið og Ríkisútvarpið, barst menntmrn. 29. febr. sl. og er hún birt í heild í skýrslu minni sem hér er til umræðu.

Mál þetta snýst um fréttaflutning og aðra umfjöllun Ríkisútvarpsins í kjölfar þess að Jón Einar Guðjónsson, fréttaritari Ríkisútvarpsins í Osló, hafði hinn 9. nóv. 1987 eftir norskum manni, Dag Tangen að nafni, þær upplýsingar að til væri skjal eða skjöl sem sýndu fram á náið samband bandarísku leyniþjónustunnar við Stefán Jóhann Stefánsson er hann var forsætisráðherra Íslands á árunum 1947–1949. Eins og dr. Þór Whitehead kemst að orði í álitsgerð sinni fólst í fréttum útvarpsins augljós aðdróttun um að Stefán Jóhann Stefánsson hefði staðið í sambandi við bandarísku leyniþjónustuna með þeim hætti sem ekki samrýmdist stöðu hans sem forsætisráðherra Íslands.

Það er á allra vitorði að leyniþjónustur erlendra ríkja ráða í þjónustu sína stjórnmálamenn og aðra áhrifamenn sem síðar ganga erinda þessara stofnana í heimalöndum sínum. Þótt ekki væri fullyrt að svo hefði verið um Stefán Jóhann hlaut einhver af hlustendahópi Ríkisútvarpsins að skilja fréttina og ályktanir sem henni fylgdu á þann veg. Kom það raunar óðar fram í blaðaskrifum um málið og umræðum utan dagskrár hér á Alþingi. Jafnvel þótt fréttin væri ekki lögð út á versta veg fólust tvímælalaust í henni brigsl um annarleg tengsl forsætisráðherra við leyniþjónustu Bandaríkjanna.

Í álitsgerð sinni telur dr. Þór Whitehead að starfandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins, Friðrik Páll Jónsson, hafi miðað við aðstæður haft gildar ástæður til að útvarpa tíðindunum frá fréttaritaranum í Osló í þeirri von að staðfesta mætti þau, þ.e. sýna fram á tilvist umræddra skjala, þegar næsta dag. Daginn eftir, 10. nóv., var fluttur pistill frá fréttaritaranum í Osló í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins. Þar var fullyrt að umrædd skjöl væru til. „Leyniskýrslur þær, sem Dag Tangen hefur um Ísland, eru rúmlega tíu síður og ítarlegar“, sagði fréttaritarinn og fullyrti að skjölin sýndu ótvírætt fram á fundi Stefáns Jóhanns Stefánssonar og fulltrúa bandarísku leyniþjónustunnar. Þeir hefðu skipst á upplýsingum sem ströng leynd hvíldi yfir.

Nú er komið á daginn að þessar fréttir Ríkisútvarpsins voru rangar og fluttar gegn betri vitund. Í álitsgerð dr. Þórs Whitehead kemur fram að þennan morgun, hinn 10. nóv., reyndi fréttaritari útvarpsins að fá að sjá skjöl Tangens, en Tangen kvaðst ekki geta fundið þau. Fréttaritarinn skýrði þeim fréttamanni sem hafði með málið að gera á fréttastofunni, Má Jónssyni, frá þeirri stöðu sem upp væri komin.

Niðurstaðan varð hins vegar sú að halda fréttaflutningnum áfram í þeirri trú eða sannfæringu að Tangen fyndi senn skjölin. Umræddur fréttamaður hefur skýrt frá því að hann hafi ekki talið neina ástæðu til að tortryggja Tangen þar sem hann hafi treyst á orð hans sem fræðimanns. Slík tiltrú, þegar um jafnalvarlegar ásakanir er að ræða, getur ekki og má ekki vera leiðarljós fréttamanna Ríkisútvarpsins.

Þennan sama dag áttu fréttaritarinn í Osló og viðkomandi fréttamaður aðild að umræðuþætti á Rás 2 Ríkisútvarpsins. Í ljósi þess að fréttaritarinn hafði engu við fyrri fréttir að bæta og ekkert í höndum til að sanna staðhæfingar Tangens verður að telja það ákaflega misráðið af honum og viðkomandi fréttamanni að koma fram í þessum umræðuþætti nema þá til þess að vara hlustendur við fljótfærnislegum ályktunum og upplýsa sannleikann um að skjölin væru ekki komin fram. Hvorugt gerðu þeir. Umræðurnar í þættinum voru afar hlutdrægnislegar og einkenndust af pólitískum hleypidómum.

Umsjónarmaður þáttarins, Stefán Jón Hafstein, hefur komið á minn fund og látið í ljós mikla óánægju með það að álykta megi af álitsgerð dr. Þórs Whitehead að hann hafi vitað að skjölin hefðu ekki fundist er umræðurnar áttu sér stað. Þessu neitar hann og kveðst eingöngu hafa byggt á upplýsingum frá fréttastofunni. Hefur hann afhent mér greinargerð þar sem þetta sjónarmið er áréttað og tel ég sjálfsagt og skylt að koma því hér á framfæri. Ég rengi ekki orð umsjónarmanns þáttarins, en vek athygli á því að í álitsgerð dr. Þórs beinist gagnrýnin á umsjónarmanninum ekki síður að hlutdrægnislegri meðferð mála og leiðandi spurningum.

Daginn eftir og næstu daga hélt Ríkisútvarpið áfram fréttaflutningi um leyniskýrslur og áfram var látið að því liggja að Tangen hefði umrædd skjöl undir höndum. Í álitsgerðinni kemur fram að það var að kvöldi miðvikudags 11. nóv. sem fréttaritarinn í Osló frétti að Dag Tangen hefði sagt fréttaritara dagblaðsins Vísis í Osló að hann hefði engin skjöl undir höndum um samband Stefáns Jóhanns Stefánssonar við bandarísku leyniþjónustuna. Hann kvaðst hafa reynt að ná sambandi við Tangen en ekki tekist það.

Daginn eftir, að morgni fimmtudags 11. nóv., náði fréttaritarinn tali af Tangen á ritstjórnarskrifstofu Klassekampen, sem er blað norskra marxlenínista. Þá kvaðst Tangen ekki viss um það að hafa haft umrætt skjal undir höndum og taldi jafnvel að hann hefði sent það til kunningjakonu sinnar í Reykjavík.

Orðrétt segir nú í álitsgerðinni: „Þennan sama dag birti dagblaðið Vísir þau tíðindi frá fréttaritara sínum í Osló að ekkert væri að finna um Stefán Jóhann Stefánsson í því skjali sem Dag Tangen hefði sýnt honum. Friðrik Páll Jónsson hefur skýrt undirrituðum [þ.e. Þór Whitehead] svo frá að þetta hafi einkum orðið til þess að tortryggni vaknaði á fréttastofunni í garð Tangens. Þar brugðu menn nú á það óvenjulega ráð að biðja nágranna hinnar íslensku kunningjakonu Tangens að fylgjast með póstkassa hennar og bærist bréf frá Noregi yrði fengið leyfi í síma til að opna það. Auk þess var Jóni Einari Guðjónssyni falið að hljóðrita viðtal við Tangen.“

Í viðtalinu fullyrti Tangen að skjalið um Stefán Jóhann Stefánsson væri að finna í skjalasafni Trumans, fyrrv. Bandaríkjaforseta, í Missouri. Af hálfu fréttastofunnar var enginn fyrirvari gerður. Hlustendum var ekki greint frá þeirri óvissu sem upp var komin.

Föstudaginn 13. nóv. greindi fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum, Jón Ásgeir Sigurðsson, frá því að hann hefði farið í Truman-safnið í Missouri. Það hefði ekkert komið fram í skjölunum er sýndi fram á tengsl Stefáns Jóhanns Stefánssonar við bandaríska leyniþjónustumenn.

Það var svo ekki fyrr en 19. nóv. að mál þetta var til lykta leitt í Ríkisútvarpinu. Þá var birt viðtal við Dag Tangen þar sem hann kvaðst aldrei hafa fullyrt að hann hefði séð skjöl er sýndu samband milli Stefáns Jóhanns Stefánssonar og bandarísku leyniþjónustunnar. Fréttastofan gaf í framhaldi af því út þá yfirlýsingu að fyrri fréttir um málið væru úr lausu lofti gripnar og harmaði að heimild sem hún taldi ekki ástæðu til að vefengja skyldi reynast ótraust.

Dr. Þór Whitehead bendir á að hér hafi forráðamenn fréttastofunnar varpað aðalábyrgð málsins yfir á fréttaritarann í Osló. Eins og eftirgrennslan Þórs leiddi í ljós var það hins vegar á fréttastofunni sjálfri sem brotalömin lá. Þar héldu menn dögum saman leyndri mikilvægri vitneskju um málið og afvegaleiddu hlustendur.

Eins og fram kemur í álitsgerðinni er mál þetta margþætt og ýmis atriði, sem rakin eru þar og varða vinnubrögð á Ríkisútvarpinu, hef ég ekki nefnt í þessari ræðu. Þau eru í mínum huga efniviður í sérstaka úttekt á vegum yfirstjórnar stofnunarinnar á vinnubrögðum fréttastofunnar.

Í því sambandi er þess að geta að útvarpsstjóri hefur skipað þriggja manna nefnd til að gera úttekt á stjórnun og rekstri fréttastofu hljóðvarps og sjónvarps og skila tillögum sem fram kunna að koma um breytta skipan mála.

Þá er nefndinni falið að yfirfara fréttareglur Ríkisútvarpsins og gera tillögur um breytingar á þeim eftir því sem þurfa þykir. Nefndinni hefur enn fremur verið falið að móta aðrar starfs- og siðareglur sem nefndin telur nauðsynlegar til að tryggja að markmiðum útvarpslaga og reglugerðar um Ríkisútvarpið verði náð.

Formaður nefndarinnar er Baldur Guðlaugsson hæstaréttarlögmaður, en aðrir nefndarmenn Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur og Ólafur Þ. Harðarson lektor.

Fréttastjóri Ríkisútvarpsins, Kári Jónasson, hefur í viðtali við Morgunblaðið haldið því fram að skýrslan sem hér er til umræðu hafi verið pöntuð til að klekkja á fréttastofunni og annarleg sjónarmið ráðið efnistöku. Ég vísa þessum fullyrðingum á bug.

Fréttastjóri Ríkisútvarpsins ætti frekar að verja tíma sínum til að íhuga vandlega þau mistök sem fréttastofunni hafa orðið á og bæta vinnubrögðin en láta frá sér fara vanhugsaðar yfirlýsingar af þessu tagi.

Skýrslan sem hér er til umræðu var ekki samin að frumkvæði menntmrh. og enn síður að frumkvæði höfundar álitsgerðarinnar, Þórs Whitehead. Skýrslan er sem fyrr segir samin að ósk Alþingis og það skyldu menn hafa í huga í þessum umræðum.

I útvarpslögum nr. 68/1985 segir m.a. um Ríkisútvarpið: „Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn,túlkun og dagskrárgerð.“

Í reglugerð um Ríkisútvarpið nr. 357/1986, segir m.a.: „Fréttir þær sem Ríkisútvarpið flytur mega ekki vera blandnar neins konar ádeilum eða hlutdrægum umsögnum heldur skal gætt fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum, stofnunum, félögum og einstaklingum. Við skráningu frétta skal þess jafnan gætt að heimildir séu sem fyllstar og óyggjandi:"

Í álitsgerð dr. Þórs Whitehead, sem byggð er á rannsóknum á öllum gögnum málsins og viðtölum við ýmsa málsaðila, eru leidd rök að því að fréttastofu Ríkisútvarpsins og dægurmáladeild Rásar 2 hafi orðið á alvarleg mistök í fréttaflutningi og annarri umfjöllun í Dag Tangen málinu. Hér hafi ekki verið starfað í samræmi við þær kröfur sem útvarpslög og reglugerð um Ríkisútvarpið gera.

Eðlilegt er að spurt sé í framhaldi af þessari niðurstöðu til hvaða ráða eigi að grípa. Ég tel að útvarpsráð hafi brugðist skynsamlega við með bókun sinni 20. nóv. þar sem vinnubrögð fréttastofunnar voru harðlega átalin. Ég tel það einnig við hæfi að útvarpsstjóri leitaði eftir úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Niðurstaða siðanefndar var eins og kunnugt er mjög í samræmi við ályktun dr. Þórs Whitehead, en hún taldi að Ríkisútvarpið hefði í fréttatíma útvarps og þætti dægurmáladeildar Rásar 2 brotið gegn 2. gr. siðareglna félagsins. Brotið væri alvarlegt.

Þá hefur útvarpsstjóri skýrt frá því að hann hafi átt viðræður við fulltrúa fréttastofunnar um vinnubrögð og verkstjórnarleg atriði. Ég hef síðan óskað eftir því í bréfi, sem ég hef ritað útvarpsstjóra, að álitsgerð dr. Þórs Whitehead verði vandlega kynnt starfsmönnum fréttastofu Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, og starfsmönnum dægurmáladeildar Rásar 2. Útvarpsstjóri hefur síðan skipað nefnd þá sem ég gerði að umtalsefni fyrr í þessari ræðu. Framhald málsins er í höndum útvarpsstjóra.

Á undanförnum árum hafa orðið talsverðar breytingar í fjölmiðlun hér á landi eins og öllum er kunnugt um. Sumt af þessum breytingum er tvímælalaust til batnaðar. Fjölmiðlarnir eru óháðari stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum en áður. Ríkið hefur ekki lengur einkarétt á rekstri útvarpsog sjónvarpsstöðva. Þetta hefur skapað fjölbreytni og grósku í fjölmiðlaheiminum svokallaða. En jafnframt þessu hefur ýmislegt gerst í fjölmiðlun sem ekki er til fyrirmyndar. Óyfirvegaður og hlutdrægur fréttaflutningur, mér liggur við að segja æsifréttamennska, hefur komið til sögunnar og skýlir sér á bak við rannsóknarblaðamennsku. Í hraða samkeppninnar gefa fjölmiðlarnir sér minni tíma en áður til að meta fréttir og áhrif þeirra. Stundum virðist öllu máli skipta að vera fyrstur með fréttina. Því fer þó fjarri að hér séu allir fjölmiðlar undir sömu sök seldir og það sýnir að fum, agaleysi og rokufréttir eru ekkert náttúrulögmál.

Ein er sú þróun á vettvangi svokallaðra ljósvakafjölmiðla sem ég hef sérstakar áhyggjur af. Mér virðist að þar geri menn hlustendum æ erfiðara fyrir að gera skýran greinarmun á fréttum annars vegar og fréttamati eða fréttatúlkun hins vegar. Þessu er blandað saman með þeim hætti að hlustendur vita stundum ekki hverjar eru staðreyndir mála og hvað eru skoðanir viðkomandi frétta- og dagskrárgerðarmanna. Sömu mennirnir lesa oftsinnis fréttir og túlka þær og stundum er frétt og útleggingu hrært svo saman að engin leið er að greina þar á milli. Fréttatengdir þættir, sem svo eru nefndir, virðast mér stundum auka enn á rugling af þessu tagi. Ég held að hér hljóti að vera hægt að gera á bragarbót með öðruvísi vinnubrögðum, skýrari verkefnaskiptingu.

Herra forseti. Ég er sammála dr. Þór Whitehead um að Tangen-málið svonefnda er víti til varnaðar. Það er mál sem Ríkisútvarpið verður að læra af. Ég er sannfærður um að þetta er einnig skoðun útvarpsstjóra og útvarpsráðs, svo sem viðbrögð þessara aðila bera gleggstan vott um.