25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6691 í B-deild Alþingistíðinda. (4660)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Um það bil sem jólaannir hófust á hinu háa Alþingi óskaði ég eftir því við hæstv. forseta sameinaðs Alþingis að fá orðið utan dagskrár um hinn makalausa málflutning og fréttaflutning Ríkisútvarpsins dagana 9. og 10. nóv. sl. Ástæðan var sú að ég vildi fá nánari upplýsingar um málið frá hæstv. menntmrh. og eins hitt að ég vildi ekki láta við það sitja að ekki yrði fleira að finna um málið í þingtíðindum en utandagskrárumræða sem hv. 2. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, hóf hinn 12. nóv. Vegna anna færðist hæstv. forseti undan langri utandagskrárumræðu. Fyrir því var á það ráð brugðið af okkur nokkrum þingmönnum að biðja hæstv. menntmrh. skriflega um skriflega ítarlega skýrslu um málið. Á því var full þörf, sérstaklega vegna þess að hastarlega var vegið að minningu fyrrv. forsrh. Stefáns Jóhanns Stefánssonar.

Nú liggur skýrslan fyrir og vil ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir viðamikla og rækilega úttekt á málinu. Það sem mesta athygli hlýtur að vekja er hinn þungi áfellisdómur sem upp er kveðinn yfir störfum fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Nú eru liðin um 40 ár frá því að Íslendingar mörkuðu þá utanríkisstefnu sem þeir fylgja enn og felst í samvinnu þeirra við aðrar vestrænar lýðræðisþjóðir. Það er kunnara en frá þurfi að segja að harkalega var deilt um þessa utanríkisstefnu frá upphafi og sóttu andstæðingar hennar einkum að tveimur mönnum með persónulegum og óvægnum hætti, þeim Stefáni Jóhanni Stefánssyni, sem var forsrh. er við Íslendingar gengum í Atlantshafsbandalagið árið 1949, og dr. Bjarna Benediktssyni sem var utanrrh. á sama tíma. Dundu um árabil á þeim látlausar árásir um það að þeir hefðu framið landráð vegna þess að þeir beittu sér fyrir varnarsamstarfi við Bandaríkin. Hefði margur maðurinn efalaust bognað við þessar árásir, en þeir stóðu þær báðir af sér með fullri reisn og uxu raunar af.

Er tímar hafa liðið fram hefur reynslan staðfest að því friðvænlegar hefur verið í heiminum sem vestrænar lýðræðisþjóðir hafa verið sterkari og samhentari. Friður hefur verið í norðurálfunni í skjóli jafnvægis síðustu 40 árin og þar hafa Íslendingar lagt sitt af mörkum. Smám saman hefur því dregið úr árásum á þessa stefnu og deilum um hana hérlendis og er nú svo komið að Alþb. treystir sér jafnvel ekki lengur til að gera það að úrslitaatriði um stjórnarsetu að varnarsamstarfinu við Bandaríkin sé slitið. Einnig hefur orðið hljóðara að þessu leyti um þá menn sem áttu mestan þátt í að marka utanríkisstefnuna á sínum tíma, þá Stefán Jóhann Stefánsson, Bjarna Benediktsson og Eystein Jónsson. Fólk er flest tekið að horfa um öxl af fullum skilningi og án þess að gleyma sér í vígorðaflaumi.

En hinn 9. nóv. sl. virtist sem skyndilega birtist gamall uppvakningur frá dögum kalda stríðsins á öldum ljósvakans í Ríkisútvarpinu og í kjölfarið lagði draugurinn undir sig fréttasíður Þjóðviljans. Var þar um að ræða harðar árásir á Stefán Jóhann Stefánsson og margvíslegar getsakir um tengsl hans við bandarísku leyniþjónustuna, CIA.

Nú er það auðvitað ekki mál Alþingis með neinum hætti hvað útgefendur Þjóðviljans kjósa að skrifa í blaði sínu. Hér er sem betur fer prentfrelsi og útgefendur Þjóðviljans bera ábyrgð fyrir lesendum sínum og auðvitað fyrir dómstólum þegar því er að skipta. En öðru máli gegnir um fréttastofu hljóðvarpsins. Sú skylda er lögð á alla þá sem eiga útvarpstæki að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins. Þessari stofnun er ætlað að vera útvarp allra landsmanna og henni hafa verið tryggðir tekjustofnar í samræmi við það. Það er því ljóst að ábyrgð hennar er miklu meiri en venjulegs einkamiðils, enda er ráð fyrir því gert í útvarpslögunum. Alþingi hlýtur í umboði þjóðarinnar að láta sig varða með hvaða hætti fréttaflutningur er í hljóðvarpinu og bregst raunar skyldu sinni við landsmenn ef það sinnir því ekki að neinu leyti. Vitanlega má Alþingi eða umboðsmenn þess ekki ritskoða með neinum hætti fréttir Ríkisútvarpsins, en það hlýtur að gera þeim sem annast þar fréttaflutning skylt að bera ábyrgð á honum.

Mál þetta hófst mánudaginn 9. nóv. sl. er ein aðalfrétt hljóðvarpsins þá um kvöldið snerist um meint tengsl Stefáns Jóhanns Stefánssonar við CIA, bandarísku leyniþjónustuna. Í fréttinni voru engir fyrirvarar settir heldur beinlínis fullyrt að Stefán Jóhann Stefánsson hafi verið eins konar flugumaður CIA. Hann hafi ekki aðeins hitt menn frá henni í kurteisisskyni eins og gengur heldur beinlínis gefið henni leynilegar upplýsingar. Síðar í þessum fréttatíma sagði að svo náið samband sem Stefán Jóhann Stefánsson átti að hafa haft við CIA væri mjög óvenjulegt. Einnig var sagt að leyniskýrslur þær, sem Dag Tangen hefði komist yfir um Ísland, væru um tíu bls. og mjög rækilegar. Gefið var í skyn að bandarískar hersveitir hefðu verið sendar til Íslands til þess m.a. að koma í veg fyrir hugsanlega valdatöku kommúnista. Og í þessum fréttatíma var einnig eytt miklum tíma í að tíunda deilur er risið höfðu í Noregi um uppljóstranir Dags Tangens.

Því er við að bæta að í þættinum Dagskrá, sem Stefán Jón Hafstein fréttamaður annaðist á Rás 2 í hljóðvarpinu, var sama dag, 10. nóv., rætt við Jón Einar Guðjónsson og Þorleif Friðriksson um þetta mál. Sagði Jón Einar, sem er fréttaritari hljóðvarpsins í Osló, þá m.a. að honum hefði eftir mikla mæðu tekist að hafa upp á Tangen sem færi nú huldu höfði í höfuðborginni. Höfðu þeir Jón Einar og aðrir útvarpsmenn svipað eftir þessum norska felumanni og komið hafði fram í fréttatímum hljóðvarpsins og þegar hefur verið greint, en bættu við getsökum frá eigin brjósti um hugsanleg tengsl Alþfl. við bandaríska og norræna ráðamenn.

Er ekki að orðlengja það að fréttaflutningur hljóðvarpsins þessi tvö kvöld, 9. og 10. nóv., olli nokkru uppnámi. Þjóðviljinn birti t.d. miðvikudaginn 11. nóv. fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu sem hljóðaði svo: „Stefán vann með CIA.“ Var þar óspart vitnað í fréttaflutning kommúnista sem verið höfðu hörðustu andstæðingar utanríkisstefnunnar árið 1949, svo sem Einar Olgeirsson.

Daginn eftir, fimmtudaginn 13. nóv., kvaddi hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson sér hljóðs hér á Alþingi utan dagskrár. Þá hafði hann náð sér eftir lestur Gunnlaðarsögu og aðalfund Alþb. og óskaði nú eftir því í tilefni fréttanna í hljóðvarpinu að upplýsingar yrðu gefnar um það hvernig staðið yrði að birtingu skjala um samskipti Íslands og annarra þjóða. Vitnaði Hjörleifur í Atómstöðina eftir Halldór Laxness í þessu sambandi, en ýmsir þingmenn efuðust raunar um að sú ágæta skáldsaga gæti verið góð heimild um það sem raunverulega gerðist á því tímabili er utanríkisstefnan var mörkuð og ég rakti lítillega í upphafi míns máls.

Hljóðvarpið hélt áfram fréttaflutningi frá þessu máli miðvikudagskvöldið 11. nóv., en lagði þó megináherslu á það í nokkrum ásökunartón að engar fastar reglur væru til á Íslandi um birtingu opinberra skjala. Einnig var rætt um málið í sambandi við umræður á Alþingi fimmtudagskvöldið 12. nóv.

Því má síðan skjóta inn í til gamans en líka í nokkurri alvöru að Þjóðviljinn skrifaði föstudaginn 13. nóv. af mikilli hrifningu um fréttaflutning hljóðvarpsins á liðnum dögum. Sagði þar m.a. í umsögn Þjóðviljans, sem Óttar Proppé er skrifaður fyrir, svo, með leyfi forseta: „Vissulega hefði verið gaman fyrir Þjóðviljann að eiga þessa frétt, en við hljótum að gefa fréttastofu Ríkisútvarpsins prik fyrir að vera fyrst með fréttirnar að þessu sinni.“

En segja má að málinu hafi lokið með tveimur fréttum hljóðvarpsins föstudagskvöldið 13. nóv. Önnur var um það að þau skjöl, sem Dag Tangen hefði undir höndum um Ísland, leiddu ekkert í ljós um það sem hann fullyrti, enda væru þau gömul skjöl sem hefðu velflest birst fyrir mörgum árum í Morgunblaðinu.

Hin fréttin var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Í skjalasafni Trumans Bandaríkjaforseta er skýrsla frá bandarísku leyniþjónustunni um íslensk málefni frá því í júní 1948. Þar er Stefáns Jóhanns Stefánssonar getið og fleiri Íslendinga, en hvergi í skýrslunni kemur fram að Stefán Jóhann hafi hitt bandaríska sendiherrann og starfsmann bandarísku leyniþjónustunnar reglulega í Reykjavík eins og fréttastofan hefur haft eftir norska sagnfræðingnum Dag Tangen.“ Var hér heldur betur komið annað hljóð í strokkinn en þriðjudagskvöldið 10. nóv. þegar þetta hafði verið fullyrt.

Þetta dæmalausa mál verðskuldar auðvitað athugun og umræður. Í fyrsta lagi hefði það verið mjög óvenjulegt og fréttnæmt, eins og raunar var tekið fram af fréttamönnum hljóðvarpsins, ef Stefán Jóhann Stefánsson hefði beinlínis unnið með sendimönnum CIA hér á landi. Slík frétt hefði verið mjög óvenjuleg og því þurft vandlegrar heimildakönnunar við. Menn geta ekki tekið einhverja huldumenn í Osló trúanlega um svo óvenjulegt atriði þegar það stangast á við hugmyndir flestra Íslendinga um hvernig stefnumörkun í utanríkismálum fór fram. Hér var um viðkvæmt og umdeilt mál að ræða og upplýsingar bornar fram í því sem hlutu að koma á óvart. Fréttamaður á hvergi að vera eins á verði og í slíku máli, sérstaklega fréttamaður í útvarpi allra landsmanna sem gerðar eru ríkari kröfur til en á einkastöðvum eða einkablöðum.

Í öðru lagi ber að gæta þess að óleyfilegt hefði verið að álykta, jafnvel þótt einhver minnisblöð hefðu fundist um viðræður íslenskra ráðamanna við bandaríska sendimenn, að hinir íslensku ráðamenn hefðu verið á þeirra snærum. Það vita allir sem vilja vita að þeir sem hitta erlenda sendimenn að máli geta ekki stjórnað því hvað slíkir menn setja síðan í skýrslur sínar. Við getum þess vegna ekki tekið skýrslur þeirra og skjöl trúanleg án sjálfstæðs heimildamats. Við megum ekki og aldrei líta á íslensk utanríkismál með bandarískum augum. Það er hins vegar ekki sjáanlegt í þeim fréttum sem birtust í hljóðvarpinu eða í umræðuþætti þeim sem Stefán Jón Hafstein stjórnaði 10. nóv. og vitnað hefur verið hér til að beitt hafi verið gagnrýnni hugsun að þessu leyti. Þar var umsvifalaust gleypt við fullyrðingum hins norska huldumanns um það sem stæði í bandarískum skjölum sem sönnun fyrir því að íslenskir ráðamenn hefðu ekki gætt íslenskra hagsmuna heldur beinlínis verið á snærum Bandaríkjamanna. Jafnvel þótt eitthvað það hefði staðið í skýrslum eða skjölum Bandaríkjamanna sem gefið hefði norska huldumanninum og fréttamönnum á hljóðvarpinu tilefni til fréttaflutnings þeirra hefði orðið að leggja sjálfstætt mat á það.

Í þriðja lagi verður að rifja upp að þetta er ekki eina dæmið þar sem tilefni hefur verið gefið til efasemda um vönduð vinnubrögð og óhlutdrægni á fréttastofu hljóðvarpsins. Mörgum er í fersku minni er birtar voru um það rokufréttir fyrir nokkrum árum í hljóðvarpinu að kjarnorkuvopn væru fólgin á Keflavíkurflugvelli. Fyrir því var borin rannsóknarstofnun ein í Washington. Þegar til kom reyndist þessi stofnun vera ákaflega umdeild fyrir þann pólitíska blæ sem var á öllum hennar gögnum og þeir pappírar sem vísað var til ekki taka af nein tvímæli, enda hafa að geyma innihaldslitlar vangaveltur. Hjaðnaði það mál af sjálfu sér.

Einnig komu upp ákafar deilur um fréttaflutning hljóðvarpsins í kjaradeilu opinberra starfsmanna í október 1984. Eru röksemdir í því máli tíundaðar í bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, „Deilt á dómarann“ eins og hún heitir, þar sem það blandaðist inn í mál þeirra einkaútvarpsstöðva sem þá voru reknar. Var þá þó enn brýnni ástæða en endranær fyrir fréttamenn á hljóðvarpinu að gæta óhlutdrægnisskyldu sinnar þar sem þeir voru sem opinberir starfsmenn beinir aðilar að kjaradeilunni og hljóðvarpið var um tíma eini starfandi fjölmiðillinn í landinu.

Ég er ekki að fullyrða, og á það legg ég áherslu, ég er ekki að fullyrða að fréttamenn Ríkisútvarpsins ætli sér að vera vísvitandi hlutdrægir eða þeir megi yfirleitt ekki sjálfir hafa skoðun á því hvað skiptir máli. Ég hygg hitt betri skýringu á þeim mistökum, sem tvímælalaust hafa verið gerð þar á bæ, að fréttamenn hafi ekki vandað sig nægjanlega. Þeir hafi ekki staldrað við og spurt sjálfa sig hvort þeir hafi gert öllum marktækum sjónarmiðum í málum nægjanleg skil og hvort heimildir þeirra fyrir fréttum hafi verið traustar. Alþingi getur ekki krafist þess og má ekki krefjast þess að fréttamenn gerist boðberar einhverrar einnar stjórnmálaskoðunar eða að sum mál séu bannmál þannig að ekki megi um þau ræða eða flytja af þeim fréttir.

En Alþingi á fyrir hönd landsmanna allra heimtingu á því að fréttamenn starfi eftir bestu samvisku að því að flytja okkur vandaðar og áreiðanlegar fréttir. Þannig og aðeins með þeim hætti geta fréttamenn rækt þá skyldu sína sem þeim ber samkvæmt útvarpslögunum. Þeir geta ekki skellt skuldinni á norskan huldumann því að þeir framkvæmdu sjálfir sitt heimildamat með því að taka hann trúanlegan um það sem ótrúlegt var. Það er til að afstýra frekari mistökum af þessu tagi sem mál þetta og mistök fréttastofunnar eru svo rækilega reifuð.

Ég ítreka þakkir mínar, herra forseti, til hæstv. menntmrh. fyrir mikilsverða skýrslugerð í máli þessu.