25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6721 í B-deild Alþingistíðinda. (4669)

Lausn kjaradeilnanna

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég bið afsökunar á hvað ég hef leiðinlegan málróm því ég er svo illa haldin af kvefi. „Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það.“ Einhvers staðar er þetta sagt. Þegar þjóðarsáttin fræga var gerð 1986 held ég að margir þeir sem undir hana skrifuðu hafi skrifað undir hana í þeirri trú að þetta væri eitthvað sem allir mundu sætta sig við eða allir mundu sitja við sama borð. Fyrstu samningarnir, sem hæstv. núv. forsrh. gerði, gengu þvert á þetta. Í þeim samningum eru líka ákvæði um að ef eitthvað hækkaði nú hjá þessum sem einna minnstar kröfurnar gerðu og gengu að þjóðarsáttinni skyldi hækka hjá þeim líka. Síðan er þetta gegnumgangandi í samningum. Þetta er vitanlega mjög slæmt og þýðir að þó eitthvert félag vilji brjóta sig út úr og reyna að ná mannsæmandi samningum kemst það ekkert áfram. Svo getum við talað um frjálsa samninga alveg eins og við viljum.

Höfuðkrafa Verslunarmannafélags Reykjavíkur er um 42 000 kr. á mánuði í lágmarkslaun. Hver af öðrum af kaupmönnum segir það hiklaust, segir það í, sjónvarpi og útvarpi: Ég borga engum þessi laun. Ég borga hærri laun. Hvernig í ósköpunum dettur atvinnurekendum í hug að halda að þeir komist upp með endalaust að skrifa undir einhverja samninga sem þeim sjálfum dettur svo ekki í hug að fylgja þegar þeir eru að tala um fólk sem þeir vilja borga? Það er og hefur verið svoleiðis núna í mörg ár: Það er ákveðinn hópur af fólki sem alltaf er saminn ofan í þetta láglaunafen. Það skal ekki þaðan upp úr. Síðan hlær atvinnurekandinn þegar búið er að undirrita samningana og hann borgar bara það sem honum sýnist. Þetta er ekkert annað en staðreynd sem allir geta kannað ef þeir þekkja nokkuð til vinnumarkaðarins.

Það eru auðvitað margar samverkandi ástæður fyrir því að fólk rís upp og það í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur núna. Ég vil taka undir það sem þau hafa sagt hérna sem hafa talað á undan mér: Ekki síst hafa þessir óvinsælu skattar og fyrst og fremst matarskatturinn aukið þessa gremju. Ég vil líka taka undir það sem einn ungur maður skrifaði í Alþýðublaðið fyrir nokkrum dögum: Þetta fólk sem situr við kassana á þessum lágu töxtum sem það hefur sér alla peningana í þjóðfélaginu. Það veit vel að það eru til peningar til að borga fólki annað en þessi hungurlaun.

Mér finnst ekki að ríkisstjórnin geti falið sig á bak við það að hún vilji styðja frjálsan samningsrétt. Þetta verkfall spilar svo víða inn í og það á eftir að gera þjóðinni svo mikið ógagn ef ekki er komið inn í það. Þá er ég ekki að biðja um lögbindingu. Ég er að biðja um að það sé komið inn í það og það sé reynt að hjálpa fólki til að ná sanngjörnum kröfum fram. Ríkisstjórnin hlýtur að verða að koma að þessu. Hún á fyrst og fremst sökina á hvernig þetta er komið.