25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6723 í B-deild Alþingistíðinda. (4671)

Lausn kjaradeilnanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hvernig er umhorfs í þjóðfélaginu og hver er það sem á sök á því máli? Eru það þeir sem bera úr býtum 30 000 kr. laun á mánuði? Voru það þeir sem báðu um matarskattinn? Voru það þeir sem báðu um að vextirnir færu upp úr öllu valdi? Voru það þeir sem höfðu áhrif á samningana á Vestfjörðum sem voru í raun og veru þeir samningar sem aðrir hafa verið neyddir til þess að samþykkja eða slík laun? Vita menn ekki hvað er að gerast í þjóðfélaginu? Það er verið að tala um heildarlaun nú. Það er verið að segja upp fólki í stórum stíl og það eru horfur á að yfirvinna yfirleitt minnki og sums staðar hverfi. Vilja hæstv. ráðherrar og hv. alþm. lifa á slíkum launum? Er það hægt? Ég held að ríkisstjórnin geti ekki þvegið hendur sínar í þessu máli. Það er hún sem hefur lagt á skattana, það er hún sem hefur pressað upp vextina og það er fyrst og fremst hún sem hefur haft áhrif bein og óbein á þá láglaunasamninga sem hafa verið gerðir.

Við sögðum fyrir hvernig það mundi fara ef t.d. matarskatturinn yrði lagður á. Það eru vissir hlutir sem fólk lætur ekki bjóða sér. Ríkisstjórnin sjálf hefur viðurkennt að þetta séu sultarlaun með því að hafa skattleysismörkin um 42 000. Hún hefur viðurkennt það með því móti. En það þarf að halda í þetta. Það er auðvitað. Þeir sem eru hinum megin við borðið í samningunum segja: Það er bara ekki hægt að borga meira. Þeir sjá ekki frekar en hæstv. ríkisstjórn að það sé hægt að skipta öðruvísi en gert er.

Nei, ég held að hæstv. forsrh. og aðrir hæstv. ráðherrar ættu að líta í eigin barm og taka á þessum málum eins og menn.