25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6724 í B-deild Alþingistíðinda. (4675)

Lausn kjaradeilnanna

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls í þessari umræðu og lagt þessu máli lið. Hæstv. forsrh. hefur tekið undir þau sjónarmið sem ég setti fram í máli mínu og telur að þeir sem hafa lægst launin standi mjög illa.

Hann hefur hins vegar ekki tekið undir það sjónarmið að hæstv. ríkisstjórn geti komið til móts við launafólk með afnámi matarskatts eða annarra skatta sem lagðir hafa verið á þjóðina. Það eru hins vegar orðin tóm að hér sé um frjálsa samninga að ræða þegar atvinnurekendur hafa neglt það niður við önnur verkalýðsfélög að ef einhver önnur semji um eitthvað betra verði þeir að fá það líka. Þannig er búið að binda þetta á þann hátt að því verður ekki rótað nema með einhverjum aðgerðum. Þær víxlhækkanir sem gætu átt sér stað mundu auðvitað vera mjög mikið vandamál. Ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera, það liggur ljóst fyrir.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 17. apríl 1988 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú bryddar á þeirri skoðun í röðum forustumanna í viðskipta- og athafnalífi að stjórnmálamennirnir sjálfir séu eitt helsta vandamálið sem við er að eiga í efnahagsmálum. Þær þungu ásakanir á hendur stjórnmálamönnum sem í þessu felast eru rökstuddar með því að alþm. og ráðherrar taki alls ekki ábyrga afstöðu til þeirra vandamála sem fram undan eru eða fjalli yfirleitt um þau. Þeir líta fyrst og fremst á sig sem gæslumenn hagsmuna einstakra kjördæma og byggðarlaga og einbeita kröftum sínum að því að tryggja stundarhagsmuni þeirra en ekki framtíðarhagsmuni þjóðarinnar.“

Þetta eru alvarleg orð ef rétt eru. Er það þá rétt sem hér hefur komið fram að ríkisstjórnin ætli ekki að taka neitt á þessu máli? Eru þessi orð e.t.v. rétt um ríkisstjórnina? Getur það verið að Morgunblaðið hafi rétt fyrir sér um það að ríkisstjórnin sé aðalvandamálið, hún hafi ekki viljað taka á málunum. Ríkisstjórnin hefur lagt á þessa miklu skatta sem valda miklum vanda nú og henni ber að sjálfsögðu að leysa þann vanda nema þetta sé satt sem stendur í Morgunblaðinu. Ég á erfitt með að trúa því að ríkisstjórnin ætli að sitja undir þessum orðum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.