25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6726 í B-deild Alþingistíðinda. (4677)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér þykir að vísu miður að sumir þeirra hv. þm. sem hæst töluðu hér í dag, lengst og mest, eins og hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, skuli ekki vera viðstaddir þessa umræðu. (Gripið fram í: Þm. er að ganga í salinn.) Ég ætlaði svo sannarlega að beina nokkrum orðum til hans og ég mun gera það hér á eftir. Sömuleiðis vildi ég í upphafi míns máls þakka hv. 4. þm. Austurl. Sverri Hermannssyni fyrir að hafa tekið þetta mál upp á Alþingi og með drengilegum hætti komið og stutt að því að hreinsa og verja minningu fyrrv. forsrh. þessa lands, Stefáns Jóhanns Stefánssonar, með því að biðja um þessa skýrslu. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson glottir. Það er honum að sjálfsögðu frjálst. Ég mun mæla til hans hér nokkur orð á eftir í þessari umræðu. Hins vegar verð ég að segja það, herra forseti, að mér þykir það furðulegt þegar þm. koma hér hver á fætur öðrum, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og raunar hv. þm. Páll Pétursson líka, og lýsa því yfir að það hafi verið með öllu óþarft að óska eftir þessari skýrslu og að þessi skýrsla sé ekkert annað en einhvers konar refsivöndur sem verið sé að sveifla yfir höfðum fréttamanna.

Ég bið hv. þm. að hugleiða hvað þessir þm. eru í rauninni að segja. Samkvæmt þingskapalögum geta þm., ákveðinn fjöldi þm., óskað eftir skýrslu ráðherra um einstakt mál. Það sem þeir hv. þm., sem óskuðu eftir þessari skýrslu, voru að gera var einfaldlega að notfæra sér þennan rétt samkvæmt þingsköpum. Það er svolítið sérstætt að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli hafa svona mikið á móti þessu. Ég veit ekki betur en að hann hafi átt þátt í því ásamt öðrum þm. að óska eftir skýrslum um ýmis efni og ég held að það sé mjög mikilvægur réttur þm. á Alþingi Íslendinga að geta óskað eftir skýrslum frá ráðherrum um einstök efni. Það sem hv. þm. voru að segja, þeirra á meðal hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, er í rauninni að þm. eigi ekki að hafa þennan rétt eða að þeir eigi bara að nota þennan rétt í þeim málum sem honum eru þóknanleg.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði hér hátt á annan klukkutíma í dag um þetta efni á aðalfundartíma þingsins. Þegar tími til umræðna er heldur takmarkaður eins og er núna þegar nálgast þinglok er það auðvitað furðulegt tillitsleysi í garð annarra þm. að flytja ræður sem eru hátt á annan klukkutíma og fjalla þar að auki mestmegnis um atriði sem ekki eru þessu máli eða þessari skýrslu beint viðkomandi. En við hv. þm. erum ýmsu vanir í þeim efnum frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.

En ég vil ítreka þakkir mínar til hv. þm. Sverris Hermannssonar fyrir að hafa tekið þetta mál upp hér á hinu háa Alþingi með þeim hætti sem leitt hefur til þessarar skýrslu.

Um þetta mál má vissulega margt segja. Ég hef þó ekki hugsað mér að verða mjög langorður þó að ýmislegt liggi mér á hjarta. Það sem gerðist er að fréttastofu Ríkisútvarpsins urðu á mistök. Það er staðfest þegar málið er skoðað. Fyrst er málið skoðað í útvarpsráði. Ég átti þá sæti í útvarpsráði og átti aðild að þeirri samþykkt sem þar var gerð. Síðan biður útvarpsstjóri siðanefnd Blaðamannafélags Íslands um að skoða málið sérstaklega. Það er gert og úrskurður siðanefndar Blaðamannafélagsins er prentaður hér sem fskj. með skýrslu menntmrh. Allt er þetta á eina lund og ég sé ekkert, og ég endurtek: ekkert, óviðurkvæmilegt eða rangt við það að þetta mál skuli líka vera tekið upp á Alþingi með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Fréttamenn eiga ekki að vera hafnir yfir gagnrýni. Í þessu tilviki gerði fréttastofa Ríkisútvarpsins sig seka um ámælisverð vinnubrögð og mér finnst fullkomlega eðlilegt að um það mál sé fjallað og það sé gert af fullri hreinskilni. Hér er talað um það, og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði um það stór orð, að hér sé verið að reiða upp refsivönd. Hann talaði um ritskoðun og ýmislegt fleira í þeim dúr og hann sagði að hér væri verið að ráðast gegn frjálsri fjölmiðlun. Allt er þetta auðvitað rugl og misskilningur. Hér urðu fréttastofu Ríkisútvarpsins á mjög alvarleg mistök og það er bara heimsins eðlilegasti og sjálfsagðasti hlutur að það mál sé rætt til hlítar og reynt að gera sér grein fyrir því hvernig á því stóð að þessi mistök voru gerð og að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að slík mistök verði gerð aftur.

Ég minnist þess, ég held að það hafi verið árið 1979 eða 1980, þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins flutti ítrekað fregnir um það að ákveðinn starfsmaður bandarískrar stofnunar, sem hét, held ég, Center for Defence Information, í Washington héldi því fram að hér á Íslandi væru geymd kjarnorkuvopn. Þetta var margendurtekið í fréttum Ríkisútvarpsins. Í umræðum hér í Ed. á Alþingi dró ég það í efa að þessi ummæli væru rétt og að þessi stofnun væri traust heimild. Ég veit ekki hvert hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi formaður Alþb., sem þá ætti sæti í Ed. Alþingis, ætlaði að komast. Að ég, óbreyttur þm., skyldi voga mér að draga í efa að ummæli þessarar stofnunar, Center for Defence Information, væru rétt. En viti menn. Ári síðar kom þessi sami talsmaður þessarar stofnunar, sem þessi ummæli höfðu verið höfð eftir sem heilagur sannleikur í Ríkisútvarpinu, í þetta hús og það var boðað til fundar í þingflokksherbergi Framsfl. Þar stóð þessi maður og sagði: Herrar mínir. Ég hafði rangt fyrir mér. Það er ekkert sem bendir til þess að kjarnorkuvopn séu geymd á Íslandi. Ég hygg að ýmsir fleiri hv. þm. muni þennan fund. Hann er mér a.m.k. eftirminnilegur.

Ég man það líka að önnur stofnun í Washington birti bók þar sem var að finna kort þar sem Ísland var litað með ákveðnum lit eins og þau lönd þar sem kjarnorkuvopn væru annaðhvort í geymslu eða færu um. Ég skrifaði þessari stofnun og það bréf á ég enn og spurði á hvaða heimildum þetta væri byggt. Ég fékk bréf frá forstöðumanni þessarar stofnunar sem sagði: Við nánari athugun reyndust þær upplýsingar sem þetta kort var teiknað eftir vera rangar. Þær voru komnar frá stofnun sem hét og heitir Center for Defence Information og núverandi formaður Alþb. treysti betur en öllum öðrum í þessum efnum. Og forstöðumaður þessarar stofnunar skrifaði mér: Þetta verður leiðrétt í næstu útgáfu. Við hörmum þessi mistök. Við fylgjum þeirri reglu að skrá ekki upplýsingar nema hafa um það heimildir frá tveimur óháðum aðilum. Í þessu tilviki reyndust þessar tvær heimildir upprunnar frá sama stað, þessari frægu stofnun sem lék svo stórt hlutverk í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir nokkrum árum.

Hér gerðist það að fréttastofa Ríkisútvarpsins var blekkt. Eftir ótraustum heimildarmanni voru hafðar upplýsingar sem voru rangar. Nú veit ég það að þeir sem þekkja til rannsóknarblaðamennsku, þar sem menn eru á svona hálum brautum þar sem heimildir geta reynst ótraustar, fylgja einmitt þeirri reglu að birta ekki fréttir nema hafa um það staðfestingu frá tveimur óháðum aðilum. Ég veit að þeir sem lesið hafa bækur t.d. bandarískra rannsóknarblaðamanna geta borið að þetta er meginreglan. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefði eftir á að hyggja átt að fá staðfestingu á þessari frétt frá öðrum aðila. En það var ekki gert og ýmislegt geta menn lært af þessu. En það sem mér fannst og finnst vera ámælisvert í þessu er að það kemur tiltölulega fljótt í ljós að menn draga þessar heimildir í efa en það er haldið áfram að tönnlast á þeim dag eftir dag eftir dag. Þangað til loksins menn viðurkenna að hér hafa orðið alveg hrapalleg mistök. Hins vegar má svo segja það að sums staðar er kannski svolítið erfitt að lýsa eða beinlínis að festa hönd á hvernig þetta var gert vegna þess að þar ræður að sumu leyti mat og tilfinning. Það vill svo til að ég starfaði um hálfan annan áratug við fréttir og fréttaskrif og tel mig því ekki alveg ókunnugan þessum málum en mín tilfinning er sú að allur blærinn sem fylgdi þessum fréttaflutningi var í þá veru að gera orð og gjörðir fyrrv. forsrh. Íslands tortryggileg. Það var svona sá andi sem sveif yfir þessum fréttavötnum þessa daga, tónninn í þessum fréttum og framsetningin. Þetta tek ég fram að er mitt mat, það er auðvitað umdeilanlegt, og mínar skoðanir, en allt var þetta í þessa veru.

Það er eitt og annað afar fróðlegt líka sem kemur fram í þessari skýrslu sem hæstv. menntmrh. hefur lagt fram, hvernig þessi svokallaði sagnfræðingur sem reynist svo alls ekki vera sagnfræðingur opinberast að því að vera ósannindamaður. Það kemur líka fram í grg. Jóns Einars Guðjónssonar þegar hann er að leita eftir þessum heimildum. Ég efast ekkert um það að sá fréttamaður var í góðri trú. En það breytir ekki því að þarna urðu mistök. Í grg. hans á bls. 29 og 30 í skýrslu menntmrh. segir orðrétt, með leyfi forseta: „Fimmtudagur 12.11.: Ég hafði fengið vitneskju um að Tangen ætlaði á ritstjórn Klassekampen og ég sat því fyrir honum þar kl. 10:45. Ég sagði að nú yrðum við að fá bréfið. Nú var hann ekki jafnviss um hvort hann hefði það í fórum sínum. Tangen taldi jafnvel að hann hefði sent Ingibjörgu Hafstað skjalið, en hann sagðist hafa sent henni skjöl um íslensk öryggismál sem hann hefði komist yfir.“

Ég verð að játa að ég hrökk svolítið við þegar ég las þessar setningar vegna þess að mér sýnist að hér sé um að ræða fulltrúa Kvennalistans í útvarpsráði og ég veit eiginlega ekki hvaða tengsl þarna eru á milli. Þetta er afar sérkennilegt að ekki sé meira sagt. (Gripið fram í.) Þræðir frá þessum séra Tangen liggja býsna víða sem reynist svo ekki vera sagnfræðingur þegar allt kemur til alls.

Það hefur komið fram gagnrýni hér á það að sagnfræðingnum dr. Þór Whitehead skyldi hafa verið falið að semja þessa skýrslu. Ég held að hann hafi verið ákaflega vel til þess fallinn og sé ekki betur en þetta sé ágætlega unnið verk þó að vísu komi fram í greinargerð, sem Stefán Jón Hafstein fréttamaður hefur sent formönnum þingflokka, að Þór Whitehead gerði sér ekki grein fyrir starfsskipulagi Ríkisútvarpsins þannig að dagskrárgerðarmenn eins og sá sem ég nefndi voru ekki á vegum fréttastofu heldur störfuðu sjálfstætt. En það er kannski það eina sem e.t.v. mætti finna að því sem hér er sagt og vinnubrögðum við þetta, en annars hef ég ekki athugasemdir við það að gera.

Ég held hins vegar að það sé misskilningur hjá hv. þm. að það sé rangt eða óeðlilegt að Alþingi láti þetta mál til sín taka. Ég held að það hafi verið mjög eðlilegt í ljósi þess sem á undan var gengið og auðvitað eiga menn að draga lærdóma af því þegar svona mistök eiga sér stað.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti mjög langa kaldastríðsræðu ef svo mætti segja. Það vill nú svo til að hann er sennilega eini þingmaðurinn sem er sérfræðingur í leyniskjölum og er aðalpersónan í frægri bók sem heitir Leyniskýrslur SÍA og einn af aðalhöfundum hennar. Það væri auðvitað alveg í stíl við ræðu hans í dag að ég læsi hérna nokkur af hugverkum hv. þm. úr þessari ágætu bók. Ég ætla hins vegar að mestu að stilla mig um það, en þó eru hérna örfáar setningar sem ég get ekki stillt mig um rifja upp og minna á. Það er nefnilega svo í þessari bók að það koma mjög skýrt og greinilega fram tengsl ríkisstjórnanna í Austur-Evrópu við þann flokk sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þá var í og er í enn þó að flokkurinn hafi skipt um nöfn nokkrum sinnum. Með leyfi forseta stendur á bls. 204, af því að hv. þm. var að víkja að einhverjum skjölum um námsmenn og Bandaríkin og þá sem stunduðu þar nám, og það er í skýrslu sem að vísu er undirrituð af Þór Vigfússyni, hún er ekki eitt af hugverkum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar:

„Rætt var einnig hið mikla vandamál námsmannasendinga austur fyrir tjald. Var það skoðað frá mörgum hliðum og ákveðið að skrifa um það bréf ítarlegt og senda Einari Olgeirssyni, þ.e. flokknum, og Árna Björnssyni, þ.e. Æskulýðsfylkingunni.“

Á öðrum stað stendur hér, og það mun hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafa skrifað ef mér ekki skjöplast: „Námsmenn þeir, sem fóru austur fyrir tjald, og þá fyrst og fremst til DDR [þ.e. austurþýska alþýðulýðveldisins], hefðu allir farið á vegum flokksins“. Og það má nú mikið vera ef allir þessir námsmenn, sem lýst er í þessari ágætu bók, hefðu ekki einhvern tíma hitt einhverja stjórnarerindreka þarna og verið spurðir um ástand og gang mála á Íslandi.

Síðan segir í annarri skýrslu sem hv. þm. hefur líka skrifað og það er nú ekki beint um námsmennina. Ég ætla að ljúka með þeirri tilvitnun. Það er á bls. 47, með leyfi forseta: „Okkar álit í stuttu máli: Við álitum, að rétt sé og sjálfsagt að leyfa ekki umræður né gefa fólki kost á að velja um neitt nema á grundvelli sósíalismans, og þá síst Þjóðverjum. Okkur er það jafnframt ljóst að „frjálsar kosningar“ eins og það tíðkast á Vesturlöndum gefa alranga mynd af vilja fólksins.“

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri um þetta eða fleiri tilvitnanir héðan. En það væri alveg í stíl við það sem hv. þm. gerði hér í dag ef ég héldi uppi svona klukkutíma lestri úr þessari bók hans. Ég ætla ekki að gera það. En ég ætla hins vegar að beina því til hv. þm. að lesa þessa bók og lesa síðan og íhuga þá ræðu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti í dag. (GHelg: Hún kom út fyrir 30 árum.) Já, já, ég held að hún sé fáanleg enn þá, hv. þm. Hún er til á bókasafni þingsins. Þetta er nefnilega mjög merkileg bók og hún er merkileg heimild. En ég skal hins vegar fyrstur manna viðurkenna að það er auðvitað hæpið að vera að dæma þessa menn út frá því sem þeir sögðu og gerðu fyrir 30 árum í ljósi allt annars tíma og allt annarra aðstæðna og það mættum við kannski hafa í huga um ýmislegt fleira.

En ég held, svo að ég víki aftur að þeim mistökum sem hér urðu og við þurfum auðvitað að gæta þess að eigi sér ekki stað aftur, að það sé hollt að íhuga núna hver staðan er í fjölmiðlun hér á landi. Hér hefur orðið svokölluð fjölmiðlasprenging sem veldur því m.a. að margt reynslulítilla starfsmanna fjallar nú um fréttir og fréttatengda þætti, ekki síst á öldum ljósvakans og raunar einnig í prentmiðlum, og hið margumtalaða og langþráða frelsi í þessum efnum hefur leitt til mjög harðnandi samkeppni fjölmiðlanna um fréttir. Án þess að ég geti rökstutt það beinlínis finnst mér oft að farið sé meira af kappi en forsjá í þessum efnum og að kannski hafi það átt þátt í þessu frumhlaupi fréttastofunnar á sínum tíma að koma fréttinni á framfæri og vera fyrstur með fréttina án þess að hafa gefið sér tíma til að ganga úr skugga um að fréttin væri rétt og hefði við rök að styðjast.

Þessi harða samkeppni hefur líka leitt til annars konar fréttamats og ég held að það sé ástæða fyrir fréttamenn og fjölmiðlastjóra, ritstjóra, útvarpsstjóra og sjónvarpsstjóra að athuga svolítið sinn gang og yfirleitt þá stefnu og stefnur sem eru uppi í fréttaflutningi. Hafa gæðin aukist með auknu framboði? Ég held ekki. Ég hef jafnvel á tilfinningunni að gæðin kunni að hafa minnkað. Ég nefni sem dæmi frétt sem ég heyrði fyrir fáeinum dögum þegar verkfall verslunarmanna var að byrja á útvarpsstöðinni Stjörnunni. Þar var sagt: „Átök hafin. Fólk slasast í verkfallsátökum.“ Jú, það kom í ljós að unglingar höfðu efnt til óláta fyrir utan verslun og það hafði maður meitt sig á fingri. Það þarf ekki að hlusta lengi á þessa útvarpsstöð til að finna fleiri svona dæmi. Þau eru á hverjum einasta degi. Þetta er ný tegund af fréttaflutningi sem ég held að íslensk fjölmiðlun geti ákaflega vel verið án og ég held að sé engum til góðs og ekki til bóta.

Við sjáum líka dæmi um dagblóð sem eru sett þannig upp að forsíðan er ekkert nema tilvísanir með flennistóru letri á eitthvað sem er á baksíðunni eða inni í blaðinu og reynist svo ekki vera neitt eða ákaflega lítið og stundum eru ekki einu sinni nein tengsl á milli fyrirsagnarinnar á forsíðu og „fréttarinnar“ á baksíðunni.

Ég ætla að nefna aðra frétt. Fyrir fáeinum dögum var í Tímanum fimm dálka frétt með stríðsletri yfir þvera forsíðuna og fyrirsögnin var svona: „Kristnitakan árið 1000 árangurslítil.“ Í fréttinni var verið að leggja út af skoðanakönnun um trúarlíf og trúhneigð okkar sem nú erum á dögum. En að hugsa sér þá rökleysu, það hugsunarleysi eða ég veit ekki hvað ég á eiginlega að kalla það sem er á bak við það að dagblað birtir frétt með stríðsletri undir fyrirsögninni „Kristnitakan á Alþingi árið 1000 árangurslítil“. Þetta finnst mér hreint út sagt alveg skelfilegt. Ég get ekki að því gert.

Það er annað líka, sem við eigum að leiða hugann að í íslenskri fjölmiðlun, sem er að gerast núna. Sjá menn ekki hvernig verið er að má út mörkin á milli auglýsinga og efnis í dagskrám t.d. Stöðvar 2 og raunar miklu, miklu víðar? Ég held að það sé líka hættuleg og óæskileg þróun.

Ég ætla að stilla mig um að minnast á málvillurnar, ambögurnar og vitleysurnar sem sífellt stinga mann í eyru og er satt að segja alveg skelfilegt því svo læra börnin málið sem fyrir þeim er haft.

Ég ætla nú, herra forseti, ekki að lengja þetta mikið frekar. En það vil ég hafa sem mín lokaorð að við fjölmiðlun hér og ekki síst á Ríkisútvarpinu og raunar á blöðunum líka og víðar vinnur margt mjög vel hæft fólk sem vinnur sín störf vel og eru traustir fréttamenn og vandvirkir. Sem betur fer er þetta fólk í meiri hluta. Og það á auðvitað líka að geta þess sem vel er gert. Hjá Ríkisútvarpinu er margt afar vel gert og það er skylda okkar að hlúa að þeirri stofnun þannig að hún geti haldið áfram að starfa af fullri reisn. En það þýðir ekki það að þeir sem þar starfa og verða á mistök eins og hér hafa orðið eigi að vera hafnir yfir gagnrýni. Þvert á móti. Það er skylda okkar að láta þá gagnrýni koma fram.

Það er kannski ákaflega óklókt fyrir þá sem starfa að stjórnmálum að gagnrýna fréttamenn og blaðamenn. Ég sat í útvarpsráði í níu ár og gerði það mjög oft og það er ekkert skynsamlegt. Ef menn vilja að sagt sé frá sér og sínum málum er það ekkert skynsamlegt. Ég hef komist að raun um það offar en einu sinni með mjög áþreifanlegum hætti. Það borgar sig ekki. En hins vegar er það skylda að gera það og benda á það sem miður fer. Auðvitað verða mönnum á skyssur í starfi. Það er mannlegt. En þarna voru skyssurnar mjög alvarlegar og það þurfti mjög harða mótspyrnu til þess að það væri viðurkennt að þarna hefðu orðið mistök. Og þess vegna er mjög gott að þetta skuli vera rætt ítarlega. En ég endurtek að það er margt mjög hæft og vandvirkt fólk sem starfar að þessum málum og gerir vel. Og sem betur fer eru það meginreglurnar að hér er vel unnið og heiðarlega. Hitt eru miklu fremur undantekningar. En þær eiga bara ekkert að liggja í láginni og til þess eru vítin að varast þau og menn geta ekki varast þau nema á þau sé bent og um þau sé rætt.

Ég held að skýrslan sem hér er til umræðu sé ekkert meiri áfellisdómur um það sem hér gerðist en þegar var komið fram hjá siðareglunefnd Blaðamannafélagsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Úrskurður siðanefndar er sá að útvarpið hafi í fréttatímum útvarps og þætti dægurmáladeildar á Rás 2 brotið 3. gr. siðareglna þar sem segir: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum.“ "

Brotið er alvarlegt. Skýrslan sem hér liggur fyrir segir í rauninni ákaflega lítið meira en þetta. Það var búið að kveða upp þennan dóm. En ég sé ekki að menn geti kvartað yfir því með nokkrum rökum að þetta mál skuli vera tekið upp á Alþingi vegna þess að þeir sem eru að gera það eru í rauninni að segja að þingmenn hafi ekki rétt til að biðja um skýrslur um einstök og ákveðin mál. Ég held að það sé fjarri að hér sé verið að reisa einhvern refsivönd, hér sé verið með einhverjar hótanir, ritskoðun eða eitthvað því um líkt. Það er einfaldlega verið að benda á hluti sem hefði átt að gera betur og hefði átt að gera með öðrum hætti. Þess vegna þarf auðvitað að ræða þessi mál opinskátt.

Ég fagna því sömuleiðis að ég sé að það hefur verið sett nefnd til að endurskoða fréttareglur. Ég get ekki litið svo á að sú nefnd sé sett til höfuðs einum eða neinum. Ég held einmitt að þessar reglur þurfi að endurskoða og það sé rétt, svo og ýmsa starfshætti fréttastofu. Útvarpsstjóri hefur nýverið gert mjög áhrifamiklar ráðstafanir. Hann hefur vikið frá yfirmanni fréttastofu Sjónvarpsins. Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun vegna þess að sá starfsmaður hafði borið ábyrgð á röð mistaka í fréttaflutningi sem voru óafsakanleg og til þess fallin að rýra traust á fréttum Ríkisútvarpsins, sjónvarpsfréttum. Og ég held að þar hafi verið brugðist við alveg með réttum hætti. Það hefði verið ámælisvert ef ekkert hefði verið gert í þeim efnum að mínu mati.

En ég endurtek að það er nauðsynlegt að þegar svona alvarleg mistök verða, eins og hér urðu, sé málið rætt út í hörgul og þeir sem þar eiga hlut að máli geri sér grein fyrir því að hér er um alvarleg mál að ræða og það séu gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Það er auðvitað hægt með því að ástunda traustari heimildaleit og vandaðri vinnubrögð. Þetta snýst allt um að hlaupa ekki eftir fyrstu gróusögu eins og er í þessu tilviki. Að vísu má segja að fréttamenn höfðu ekki kannski beina ástæðu til að vantreysta þessu, en hér var þó um þannig mál að ræða að það var rík ástæða til þess að ganga eftir því hvort hér væri rétt með farið. Þarna urðu mistök og við skulum læra af þeim.