25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6733 í B-deild Alþingistíðinda. (4678)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, hér hafa verið gerð mistök, en það hafa orðið fleiri mistök sem hefði verið alveg ástæða til að fara betur ofan í. Ég verð að segja að í þessu tilfelli finnst mér vera nokkuð miklar umbúðir utan um þann kjarna sem er verið að ræða um.

Hvers vegna er ekki t.d. Sjónvarpið þá tekið hér betur í gegn? Hafa fréttir þaðan, m.a.s. fréttir frá þinginu, verið hlutlausar? Ég vil spyrja. Það er verið að hneykslast á því að fréttamenn tóku bókstaflega ummæli manns sem var talið að mundi hafa upplýsingar sem væri hægt að treysta. En er ekki alltaf hætta á svona mistökum og þarf margra klukkutíma umræður um þetta eina atriði í hv. Alþingi eftir það að siðanefnd blaðamanna er búin að fjalla um þetta atriði eitt og sér? Væri t.d. ekki ástæða til að athuga hvernig fréttir berast frá hinu háa Alþingi í gegnum Sjónvarpið? Er þar hlutleysis gætt? Er það, hæstv. menntmrh.? Ég fullyrði hér og nú að það er alls ekki. En um það þarf ekki að ræða þar sem við höfum þó staðreyndirnar fyrir okkur. T.d. sá sem hér stendur. Það er í eitt skipti sem hefur verið rætt við mig frá því í haust í Sjónvarpinu. Stjórnarandstaðan yfirleitt. Það er á hana hallað í fréttaflutningi. Ætli það sé nokkur hlutdrægni í t.d. ræðunni sem fjmrh. var að flytja hér í fréttum í gær? Það var stór hluti af ræðu. Og svo mætti lengi telja. Það getur vel verið að sumum t.d. sem hafa aðgang að fréttamönnum finnist það vera hótfyndni að finna að slíku og þeir séu ánægðir með sinn hlut. En málið er ekki svona einfalt. Ríkisútvarpið og Sjónvarpið á að gæta hlutleysis, á ekki að vera stýrt eða taka fyrst og fremst tillit til pólitískra sjónarmiða. En ég segi enn og aftur: Það er gert.

Og það er líka rétt. Hv. þm. eru feimnir við að ræða þessi mál vegna þess að þeir standa í þeirri trú eins og sá þingmaður sem talaði síðast að það mundi koma niður á þeim sjálfum ef um þetta væri rætt á opinberum vettvangi. Það kalla ég ekki að menn séu kjarkmiklir ef þeir glúpna fyrir því. En þeir auðvitað vilja tryggja með þessum hætti að það sé við þá talað og birtar glefsur úr því sem þeir segja. Það er tilgangurinn.

Ég ætla ekki að tala hér lengi, en nú vil ég skora á hæstv. menntmrh. að láta gera úttekt á því hvernig fréttir berast t.d. í Sjónvarpinu, það er allt annað með þó Ríkisútvarpið, það eru allt öðruvísi fréttir þar en í Sjónvarpinu, hvort þarna sé farið eftir því, sem segir í lögum og reglugerðum, að það eigi að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum.

Ég endurtek það, hæstv. menntmrh.: Ég skora á ráðherrann að láta kanna þetta og láta birta þá niðurstöðu og það sé ekki fenginn einn maður til þess heldur séu það a.m.k. þrír sem skoða það og lýsi yfir niðurstöðu sinni að þessu leyti.