25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6737 í B-deild Alþingistíðinda. (4680)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur hv. 3. þm. Vesturl. gleymt í ræðustólnum bókinni sem hann hefur á náttborðinu sínu um leyniskýrslur SÍA. (EG: Ef þingmanninum líður illa í návist þessarar bókar skal ég taka hana. Ég mun hafa gleymt henni þarna áðan.) Nei, ég þarf ekki að nota hilluna sem er undir ræðustólnum. Þetta er allt í lagi.

Hér er til umræðu skýrsla hæstv. menntmrh. um fréttaflutning Ríkisútvarpsins 9. og 10. nóv. 1987 vegna upplýsinga frá Norðmanninum Dag Tangen um utanríkismál Íslands. Sá fréttaflutningur sem hér um ræðir varðar mjög viðkvæmt og umdeilt tímabil í sögu þjóðarinnar, tímabil sem enn hefur ekki verið nægilega vel upplýst af íslenskum aðilum. Brýna nauðsyn ber því til að þeir sem enn lifa af þátttakendum í sögu þeirra tíma og ekki síst þeir er mótuðu söguna skrái hana hver frá sínum sjónarhóli. Reyndar er það mjög lærdómsríkt fyrir manneskju sem var of ung til að upplifa þetta eins og fullorðið fólk gerir eða jafnvel unglingar að skynja hversu þessir tímar eru enn viðkvæmir og hversu hörundsárir menn eru gagnvart þeim enn þá. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Mér er sem ég skynji, þar sem ég sit hér úti í salnum og hlusta á menn tala, sterkan óm af þeim tímum sem ég get ímyndað mér að hafi verið á dögum McCarthy í Bandaríkjunum þar sem menn gengu um með gleraugu og ofsóttu aðra menn. Það er eins og sumir hafi ekki losnað við þessi gleraugu enn, jafnvel þó að heimurinn og samskipti manna hafi breyst töluvert síðan.

Það kom fram á þinginu, reyndar fyrir jólin, þegar þetta mál bar á góma í utandagskrárumræðu að enn hvíldi nokkur leynd yfir skjölum sem vörðuðu mjög sögu okkar á þessum tíma og þá lýstu bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. því yfir að þeir mundu beita sér fyrir því að settar yrðu reglur, sem nú eru ekki til, um meðferð opinberra skjala og hvenær skyldi aflétta leynd á þeim. Ef þeir væru hér mundi ég vilja leggja á það áherslu við þá að þeir gerðu eitthvað í þessum efnum sem fyrst.

Í stuttu máli reyndist umræddur fréttaflutningur, sem hér hefur mikið verið fjallað um, byggður á ónógum og ótraustum upplýsingum og má ýmislegt læra af þeim mistökum sem gerð voru. Þegar öll kurl voru komin til grafar í málinu baðst fréttastofan afsökunar og útskýrði málið fyrir þjóðinni í útvarpinu eins og reyndar kemur fram í skýrslunni á bls. 41, með leyfi forseta:

„Í kvöldfréttum útvarps 19. nóv. var eftirfarandi lesið:

Friðrik Páll Jónsson: Fréttir um náin samskipti Stefáns Jóhanns Stefánssonar og bandarísku leyni; þjónustunnar hafa reynst úr lausu lofti gripnar. Í Bandaríkjunum hafa engin skjöl fundist sem benda til slíkra samskipta og Dag Tangen, sagnfræðingur í Noregi, segir nú að hann hafi aldrei séð slík skjöl. Jón Einar Guðjónsson, fréttaritari útvarps í Noregi, segir aftur á móti að Dag Tangen hafi áður sagt að hann hafi séð skjöl um slík samskipti.

Margrét Jónsdóttir: Jón Einar Guðjónsson hefur um langt skeið verið fréttaritari útvarpsins í Noregi og reynst áreiðanlegur fréttamaður. Hann sagðist í dag standa fast við það að Dag Tangen hefði sagt sér að hann hefði séð skjöl sem sönnuðu náin samskipti Stefáns Jóhanns og leyniþjónustunnar. Jón Einar kveðst harma að hafa ekki tekið viðtöl sín við Tangen upp á segulbönd. Hér stendur því staðhæfing á móti staðhæfingu. Fréttastofan harmar að heimild sem hún taldi ekki ástæðu til að vefengja skyldi reynast ótraust.“

Áður en ég vík nánar að skýrslunni langar mig að fjalla lítillega um vinnubrögð innan Ríkisútvarpsins í þessu máli sem eru að mörgu leyti athyglisverð. Ég vil byrja á því að vitna aftur í skýrsluna á bls. 28 og 29, með leyfi forseta. Þar stendur í fskj. 4 sem er samþykkt útvarpsráðs:

„2934. fundur útvarpsráðs, föstudaginn 20. nóv. 1987, hófst kl. 11.12. Útdráttur. Síðan eru taldir upp þeir sem voru á fundinum og ég vísa hv. þm. á skýrsluna. Í lið 2 í þessari samþykkt segir:

„Framkvæmd dagskrár í hljóðvarpi. Allmiklar umræður urðu um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af máli Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Eftirfarandi bókun var samþykkt, 6:1.

„Útvarpsráð átelur harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við fréttaflutning um Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrv. forsrh., dagana 9.-14. nóv. og beinir því til útvarpsstjóra að hann láti hlutlausan aðila kanna með hvaða hætti slíkt getur gerst.“

Árni Björnsson gerði eftirfarandi bókun með atkvæði sínu:

„Þótt heimildakönnun hafi í þessu tilviki verið óvönduð tel ég það almennt séð af hinu góða að fréttamenn Ríkisútvarpsins opni umræðu um mál sem áratugum saman hafa verið sveipuð slíkum leyndarhjúp að það þykja nú fréttir sem allir ættu í rauninni að vita. Fráleitt er að ekki megi fjalla um látna stjórnmálamenn og verk þeirra. Með slíku viðhorfi væri verið að hræða fréttamenn frá því að hreyfa við sögulegum vandamálum.“

María Jóhanna Lárusdóttir, sem var fulltrúi Kvennalistans í útvarpsráði á þeim tíma, greiddi atkvæði á móti og óskaði eftirfarandi bókað:

„Fréttaflutningur fréttastofu Ríkisútvarpsins um Stefán Jóhann Stefánsson er byggður á heimildarmanni sem fréttastofan taldi ekki ástæðu til að vefengja. Heimild fréttastofunnar reyndist síðar ekki traust og hefur fréttastofan nú skýrt málið fyrir almenningi og tel ég að þar með sé málinu lokið.“

Af upplýsingum frá þáverandi fulltrúa Kvennalistans í útvarpsráði hef ég eftirfarandi:

Þegar þessi fundur var haldinn í útvarpsráði þar sem fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af máli Stefáns Jóhanns Stefánssonar var ræddur allítarlega hafði þegar verið borin fram afsökunarbeiðni af hálfu fréttastofunnar til þjóðarinnar. Á þessum fundi lá ekki fyrir skrifleg greinargerð frá fréttastofu um málið og það var ekki beðið um slíka greinargerð af hálfu útvarpsráðs sem slíks, en fulltrúi Kvennalistans gerði það. Eftir að allmiklar umræður höfðu farið fram um málið af hálfu útvarpsráðsmanna, þá kynnti Elfa Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins, munnlega greinargerð frá fréttastofunni. Enginn hafði haft samband við neinn starfsmann fréttastofu af hálfu útvarpsráðs eða yfirmanna stofnunarinnar til að kynna sér sjónarmið þeirra. (EG: Þetta er rangt, hv. þm., röng frásögn af fundi útvarpsráðs.) Já, þá er betra að hv. 3. þm. Vesturl. komi upp og leiðrétti hana. (EG: Ég hafði haft samband við fréttastjóra og fleiri starfsmenn Ríkisútvarpsins vegna þessa máls sem útvarpsráðsmaður.) Fulltrúar fréttastofunnar segja að enginn hafi haft samband við þá til að kynna sér sjónarmið þeirra. (EG: Það er ósatt.) Já, þetta hef ég eftir þeim. Alla vega var enginn þeirra kallaður á fund útvarpsráðs og útvarpsstjóri hafði ekki samband við neinn af starfsmönnum sínum vegna þessa máls áður en þessi fundur fór fram. Þetta eru upplýsingar frá fréttastofunni. (Gripið fram í.) Þetta er frá fréttastofunni. Ekki hafði heldur verið kallaður til fulltrúi fréttastofu á fundinn sem tíðkast þó þegar útvarpsráð fjallar um „alvarleg mál“ einstakra deilda. Það virðist því sem yfirmanni Ríkisútvarpsins og meiri hluta útvarpsráðs hafi ekki þótt þörf á neinum útskýringum af hálfu fréttastofunnar öðrum en þeim munnlegum skýringum sem fram komu af hálfu framkvæmdastjóra. Þetta finnst mér vera mjög athyglisvert þegar um er að ræða mál sem síðan er talið svona alvarlegt.

Síðan samþykkti meiri hluti útvarpsráðs harðorða bókun í garð fréttastofunnar þar sem því er beint til útvarpsstjóra að hann láti hlutlausan aðila kanna með hvaða hætti vinnubrögð af því tagi sem fréttastofan viðhafði í máli Stefáns Jóhanns Stefánssonar geti gerst.

Það að utanaðkomandi aðila skuli fyrst af öllum falið að kanna mál fréttastofu Ríkisútvarpsins án þess að fréttastofan sjálf sé beðin um skýringar verður að teljast undarlegt. Það er ekki hægt að álykta annað en útvarpsstjóri og meiri hluti útvarpsráðs beri meira traust til aðila utan stofnunarinnar en eigin starfsmanna. Það kann að vera að hv. 3. þm. Vesturl. viti betur, en þetta eru þær upplýsingar sem ég hef bestar um þetta mál. Mér finnst það mjög alvarlegt í raun og veru og undarlegt verklag að yfirmaður stofnunar skuli ekki sjálfur og útvarpsráð, þar sem líka má segja að séu yfirmenn þessarar stofnunar, skuli ekki kynna sér málið með því að fá á sinn fund þá sem málið varðar sérstaklega, einkum þegar um svo alvarlegt mál er að ræða eins og sagt er. Þarna finnst mér að ríki trúnaðarbrestur.

Í skýrslunni segir, eins og þegar hefur verið vitnað til á 1. bls., að það hafi verið mat ráðuneytisins að enginn væri betur til þess fallinn að vinna þessa skýrslu, sem Alþingi óskaði eftir, en dr. Þór Whitehead. Nú þekki ég ekki þann mann og hef lítið sem ekkert lesið af hans verkum. Ég hef heldur ekki haft hugmynd um hvaða stjórnmálaskoðun hann hefur. En hins vegar, bara með því að lesa í gegnum þessa skýrslu, verð ég að segja að mér finnst hann falla í nákvæmlega sömu gryfju og hann ásakar fréttastofuna og starfsmenn hennar að hafa fallið í, þ.e. að gera sig sekan um mikla einsýni og dómhörku sem mér finnst byggjast á pólitískri skoðun án þess að hafa nokkuð vitað um manninn áður. Mér virðist að megi vitna til orða skáldsins Hallgríms Péturssonar: „Þetta sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann.“ Og án þess að rekja gang mála ítarlega, því ég reikna með að hv. þm. séu búnir að kynna sér skýrsluna, þá kemur ýmislegt fram þessu til stuðnings.

Hann talar um t.d. að þetta mál sé mikill álitshnekkir fyrir Ríkisútvarpið og brýnt sé að unninn verði bugur á þeim trúnaðarbresti sem óhjákvæmilega hefur orðið milli stofnunarinnar og hlustenda. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Álitsgerð dr. Þórs Whitehead mun verða send útvarpsstjóra með þeim eindregnu tilmælum að efni hennar verði vandlega kynnt starfsmönnum fréttastofu Ríkisútvarps, hljóðvarps og sjónvarps, og starfsmönnum dægurmáladeildar Rásar 2 svo að komast megi hjá því að mistök af þessu tagi endurtaki sig.“

Þetta virkar hreinlega á mig eins og dr. Þór Whitehead sé einhver utanaðkomandi hirtir fyrir Ríkisútvarpið. Hvers vegna tekur ekki stofnunin þetta sjálf upp og hvers vegna í ósköpunum er núna eftir dúk og disk verið að skipa nefnd til að kanna vinnubrögð innan stofnunarinnar? Því er þetta ekki gert innan stofnunarinnar af starfsfólki og yfirmönnum? Því er fenginn maður úr öðru landi fyrstur af öllum og notaður sem einhver hirtir eða vöndur? Mér finnast þetta sérkennileg vinnubrögð.

Það er hægt að sjá það af skýrslunni og kemur reyndar fram í greinargerð sem Stefán Jón Hafstein sendi hæstv. menntmrh. og til þingflokka einnig, sem þegar hefur verið vitnað til, og ég mun ekki endurtaka innganginn að hans greinargerð, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur þegar lesið upp, en mig langar samt að vitna í lokaorðin, með leyfi forseta, þar sem stendur:

„Með öllu er óskiljanlegt hvernig hægt er að saka opinberan starfsmann um vísvitandi blekkingar og pólitíska misnotkun í starfi án þess að ganga úr skugga um að stuðst sé við réttar forsendur.“

Skýrslugerðarmaðurinn hafði nefnilega aldrei samband við þennan ákveðna starfsmann stofnunarinnar sem hann þó ber mjög þungum sökum. Og einn stærsta sökudólginn í málinu, Dag Tangen, hefur hann einnig aldrei hitt, en það hlýtur að hafa verið mjög nauðsynlegt í þessu máli að tala einmitt við lykilpersónur í málinu. Þennan umrædda mann hefur hann aldrei hitt að máli þó hann hafi aflað sér upplýsinga um hann hjá öðrum og tekið trúanlegar.

Án þess að rekja efni skýrslunnar ítarlega, sem þó væri kannski ástæða til, þar sem skýrsluhöfundur sakar fréttamenn og dagskrárgerðarmenn um hlutdrægt fréttamat og hlutdræga afstöðu, jafnvel stjórnmálaafstöðu, í sinni umfjöllun um málið, finnst mér það sem eru lokaorð skýrslunnar vera kannski sýnu alvarlegra, en þar segir á bls. 11 í Vl. kafla: „Mál það, sem nú hefur verið reifað, er í eðli sínu svikamál.“

Þetta finnst mér vera mjög alvarleg ásökun og síðar segir á bls. 13: „Svik, sem framin eru undir yfirskini fræðimennsku, getur verið erfitt að varast ef kænlega er um hnúta búið. Svo var þó alls ekki um pretti Dags Tangens sem augsýnilega var ætlað að ófrægja látinn stjórnmálaandstæðing og koma höggi á flokk hans. Meðferð Tangens á heimildum og skipti hans við fjölmiðla minna einna helst á „aprílgabb“ sem venjulega endist aðeins í einn dag. Þannig hefði einnig farið í þessu tilviki ef útvarpsmenn hefðu ekki ákveðið að láta sem þeir hefðu sannreynt „heimild“ hans. Að svo langt skyldi gengið verður ekki skýrt með því einu að fréttastofan hafi borið óverðskuldað traust til Tangens sem fræðimanns. Röng ákvörðun fréttastofunnar 10. nóv. og meðferð málsins upp frá því vitnar einkum um tvennt: ofurkapp á að halda ásökunum Tangens að hlustendum og blinda trú á sannleiksgildi þeirra. Í þættinum Dagskrá sannaðist að útvarpsmenn litu málið aðeins frá einu pólitísku sjónarhorni. Verður það að teljast sterk vísbending um að þessi einsýni hafi ráðið mestu um að þeir komust í ógöngur með málið.

Líti menn svo á að víti eigi að verða til varnaðar virðist ýmislegt mega læra af þessu leiðindamáli: að gengið sé rækilega úr skugga um feril og málflutning manna, sem segja vilja fréttir og skírskota til fræðimennsku og háskólatitla; að munnlegur vitnisburður slíkra manna um heimildir verði ekki talin sönnun á efni þeirra, hvað þá jafngildi frumheimildar; að þeir útvarpsmenn sem hér eigi hlut að máli reyni framvegis að líta á umdeild sagnfræðileg viðfangsefni frá fleiri en einni hlið og finni stjórnmálskoðunum sínum vettvang utan fréttatíma.“

Þetta finnst mér óvarlega sagt og ófræðimannlega og bera vott um pólitíska einsýni hans sjálfs miklu fremur. Þessi málsmeðferð gerir það að maður efast um að skýrslugerðin sé í raun stjórnmálalega óháð.

Hverju hafa þau mistök valdið sem hér hafa verið gerð og hafa verið viðurkennd, því að vissulega voru gerð mistök, það er enginn vafi á því? Ég tel ekki að þau hafi spillt mannorði þess stjórnmálamanns sem fjallað var um. Hins vegar endurspegla mistökin þau vinnubrögð sem ríkja í fréttaheimi þar sem vaxandi samkeppni ríkir, þar sem öllu máli skiptir hver er fyrstur með fréttirnar. Þetta eru vinnubrögð sem við hljótum að þekkja af eigin vettvangi. Og ég verð að segja að það sem mér fannst einna ógeðfelldast í byrjun þegar ég kom inn á stjórnmálavettvanginn var ágengni fréttamanna sem kröfðust þess að stjórnmálamenn gæfu svör um viðbrögð annarra stjórnmálamanna án þess að hafa nokkrar forsendur til þess að bregðast við vegna þess að þeir höfðu mjög takmarkaðar upplýsingar. En vegna þess að fréttirnar eru bundnar við ákveðna tíma dagsins og vegna þess að það er sívaxandi kapphlaup á milli fjölmiðla, sem nú eru orðnir mun fleiri en áður, er mjög erfitt að verjast þessu. Það er mjög erfitt fyrir fréttamennina og það er erfitt fyrir stjórnmálamennina.

Við skulum líta í eigin barm þegar við hugsum um vinnubrögð þar sem hraðinn skiptir öllu máli. Við erum sjálf að ganga inn í síðustu annadaga þingsins núna og við skulum minnast þess hvernig var hérna fyrir jólin þegar æðibunugangurinn var slíkur að mörg mistök voru gerð, mistök sem menn leitast síðan við að leiðrétta. Ég bið menn að hafa þetta í huga án þess að ég sé að reyna að afsaka þau mistök sem gerð voru. Það hafa aðrir gert, þeir sem gerðu mistökin. En ég bið menn að hugsa til þess. Auðvitað hlýtur slíkt oft að verða í fréttamennsku. Kannski jafnvel margoft á dag þó það sé í minna mæli og þó að það séu ekki eins afdrifarík mistök.

Ég minni t.d. á það að nýlega keypti þýska tímaritið Spiegel leyniskjöl varðandi Kurt Waldheim. Þeir höfðu reyndar talsvert góðan tíma til að gaumgæfa þau skjöl en birtu þau síðan og þau reyndust vera fölsuð. Þau reyndust vera röng. Tímaritið bað síðan afsökunar á þessu. En þetta er dæmi um það að slík mistök geta hent jafnvel hjá þeim sem hefðu getað haft nægan tíma til að gaumgæfa.

Hvað varðar oftrú á fræðimönnum þá er það eitthvað sem við gerum okkur kannski öll sek um. Ég vil líka biðja menn að íhuga það, hér kemur t.d. talsverð sanngjörn umfjöllun af hálfu skýrsluhöfundar á bls. 4, með leyfi forseta, þar sem segir: „Ekki verður um það deilt að fræðimenn njóta almennt mikils trausts meðal blaða- og fréttamanna.“ Og ég vil skjóta hér inn: meðal ýmissa annarra líka. „Í þessu skjóli skákaði Tangen. „Heiður“ hafði hann að vísu ekki áunnið sér á sviði vísinda er hann kvaddi sér hljóðs í Klassekampen í nóvember 1987, og áróðursblærinn á málflutningi hans leyndi sér ekki. Það hlaut þó í fljótu bragði að vekja nokkurt traust norskra fjölmiðla að hann hafði styrkþegastarf við rannsóknarstofnun og háskólapróf. Því er engin furða að Ríkisútvarpið íslenska skyldi einnig telja hann verðugan tíðindamann í upphafi. Útvarpið þarf að heyja harða samkeppni við aðra fjölmiðla um fréttir og hefur sjaldnast færi á að brjóta mál til mergjar áður en þau eru afgreidd í fyrsta sinn. Miðað við aðstæður 9. nóv. sl. hafði Friðrik Páll Jónsson fréttastjóri gildar ástæður til að útvarpa tíðindunum frá Osló í von um að þau mætti staðfesta næsta dag. Í fréttayfirliti var þess einnig gætt að taka ekki neina ábyrgð á sannleiksgildi þeirra. Hlustendum gat ekki dulist að útvarpið var aðeins að greina frá þeim vitnisburði og ályktunum sem fréttaritari þess hafði eftir „sagnfræðingnum“ í Osló.“ Maðurinn reyndist síðan ekki vera sagnfræðingur heldur hafði hann lokið háskólaprófi í stjórnmálafræði. Við skulum hins vegar ekki gleyma því að fræðimennska blindar marga hvort sem hún er raunveruleg eða ekki.

Vegna þeirrar spurningar sem var borin fram í sambandi við Dag Tangen og Ingibjörgu Hafstað skal það tekið fram að Ingibjörg Hafstað er með réttu kvennalistakona og var fulltrúi okkar í útvarpsráði um tíma. Vegna starfa föður hennar hjá sendiráði Íslands erlendis ólst hún upp í Noregi og nefndur Dag Tangen var skólabróðir hennar um tíma og af því stafar sá kunningsskapur.

Mér finnst alvarleg sú samsæriskenning sem kemur fram í þessari skýrslu. Mér finnst hún reyndar fáránleg. Ég bendi hv. þm. á það sem mér barst í bréfi frá fréttastofunni, að varafréttastjóri og vaktstjóri fyrstu daga málsins eru fæddir 1945 og 1960 og elsta manneskjan á fréttastofunni þessa daga er fædd 1940. Meira að segja hef ég fyrir satt að þegar fréttin barst í fyrstu voru fréttamennirnir ekki betur að sér en svo að þeir mundu tæplega hver hafði verið forsætisráðherra á umræddu tímabili. Mér finnst þessi kenning út í hött og fáránleg. Og ef ég dæmi út frá sjálfri mér sem er fædd 1941 vissi ég ekki það mikið um þessi mál í smáatriðum að augu mín og eyru opnast æ meir eftir að ég hlusta á fleiri tala hér. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu viðkvæmt þetta tímabil í raun er í vitund þeirra sem hér sitja og hversu hörundsárir menn eru enn sem e.t.v. voru þátttakendur í stjórnmálum á þessum tíma. Það er eins og þeir beri kvíðboga gagnvart því að einhverju verði ljóstrað upp. Það liggur við að maður haldi það.

En af því að við erum að ræða um Ríkisútvarpið verð ég að segja að mér finnst hún mjög alvarleg sú staða sem komin er upp í málefnum Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps. Það virðist sem stjórnvöld reyni að veikja stoðir þessarar mikilvægu stofnunar á markvissan hátt. Er þess skemmst að minnast að hún var rúin mikilvægum tekjustofnum nú fyrir áramótin þegar felldur var niður lögboðinn tekjustofn hennar þar sem aðflutningsgjöldin eru. Þetta var gert eftir að opnað hafði verið fyrir frjálsa fjölmiðla með sérstökum lögum og þeim þannig veitt samkeppnisaðstaða við Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpinu var þó ætlað að bera áfram mikla ábyrgð og mikilvæga menningarskyldu við þjóðina eins og áður, ábyrgð og skyldu gagnvart íslenskri menningu umfram það sem öðrum fjölmiðlum er ætlað að sinna. Og ég þarf ekki að minna hv. þm. á þau lög sem þeir samþykktu á síðasta kjörtímabili sem fyrirskipa hlutverk þessara stofnana. Á sama tíma bera margir ríkar áhyggjur af vaxandi ágengni enskrar tungu á málheim barna okkar og reyndar þjóðarinnar allrar. Hlutur íslensks efnis og dagskrárgerðar er víkjandi í sjónvarpi og ræður fjármagnsskortur þar mestu. Fjárhagur Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, verður æ þrengri og stafar það ekki síst af ráðstöfunum stjórnvalda. Er þá von að sú spurning vakni hver sé hollusta stjórnvalda og í raun þeirra fulltrúa stjórnmálaflokka, t.d. Sjálfstfl., sem nú beita sér einkum gegn Ríkisútvarpinu. Hver er hollusta þeirra við þá stofnun og hollusta þeirra við hlutverk hennar gagnvart íslenskri menningu? Hvernig á nú að trúa einlægni þeirra þegar þeir reka upp ramakvein og hóa mönnum saman á fundi til varnar íslenskri tungu, altalandi og þrælfullorðnu fólki. Á meðan sitja börnin fyrir framan sjónvörpin sín og hlusta á enskuna í barnaefninu og öðru efni sem menn hafa ekki talið sig hafa ráð á að setja íslenskan talaðan texta við. Nei, við höfum rætt þetta á þinginu í vetur, bæði í umræðum um lánsfjárlög, í umræðum um fsp. um barnaefni í sjónvarpi og oftar og þeir yppta bara öxlum, hæstv. menntmrh., fyrrv. og núv., og hæstv. fjmrh. lætur ekki sjá sig. Kæra þeir sig í raun og veru kollótta? Ég bara spyr.

Ég tel að þarna þurfi önnur vinnubrögð og meiri hollustu af hálfu stjórnvalda við þá mikilvægu stofnun sem Ríkisútvarpið er og það starfsfólk sem þar starfar af áhuga, hollustu og hæfni, örugglega langflest. Því verða á mistök eins og öðrum og það er enginn vafi á því að það getur bætt vinnubrögð sín eins og aðrir. Hins vegar finnst mér skipta meginmáli hvernig yfirmenn þeirrar stofnunar, eins og allra annarra stofnana, bregðast við því þegar starfsfólki verða á mistök. Án þess að gera lítið úr þessum mistökum, eins og ég sagði áður — menn hafa þegar útskýrt þau og beðist afsökunar á þeim — vil ég lýsa því yfir að mér finnst yfirmenn stofnunarinnar hafa brugðist starfsfólki sínu og ekki sýnt því þá hollustu sem það á skilið. Svona mál þarf að vinna innan stofnunar. Það á ekki að kalla lögreglur utan úr löndum til að hirta menn. Ég tel að yfirmenn stofnunarinnar geti jafnframt lært af þessu máli nokkuð um sjálfa sig eins og þeir hvetja starfsfólk sitt til að gera. Það er einnig alvarlegt að öll hegðun stjórnvalda gagnvart Ríkisútvarpinu lýsir jafnframt skorti á hollustu við menningu þessarar þjóðar. Slíkt getur reynst afdrifaríkt fyrir sjálfstæði okkar, afdrifaríkara jafnvel en atburðirnir sem urðu á fjórða og fimmta áratugnum og menn skjálfa enn gagnvart þegar þessi mál koma til umræðu.