25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6744 í B-deild Alþingistíðinda. (4681)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að vera langorður um þessa skýrslu eða um tilefni hennar. Ég tel að það mál sé í raun og veru upplýst. Það liggur fyrir. Í þessari ágætu skýrslu liggja fyrir allar meginstaðreyndir þessa máls. Málið er þar af leiðandi upplýst og vonandi að allir læri af þeim mistökum sem orðið hafa í þessu máli.

Ef ég vík aðeins að þessum fréttaflutningi tel ég að ekki sé hægt að áfellast fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir að birta hina upphaflegu frétt í þessu máli. Ég tel að ekkert þurfi að vera við það að athuga að hafa beint eftir nafngreindum norskum einstaklingi, sem talinn er fræðimaður, upplýsingar eða skoðanir á íslenskum málefnum svo fremi að í þeim komi fram einhver fréttapunktur, eitthvað nýtt sem talið er að menn viti ekki um. Fréttastofur geta ekki borið ábyrgð á skoðunum manna sem koma fram undir fullu nafni. Um slíkar frásagnir á að sjálfsögðu að fara samkvæmt eðlilegum og venjulegum reglum um fréttamat.

Það sem hins vegar er óeðlilegt í þessu máli er framhaldið, viðbrögð fréttastofunnar, skýringar hennar, útleggingar og túlkanir, bæði fréttastofunnar og hinnar svokölluðu dægurmáladeildar, og síðan að sjálfsögðu að halda áfram með þetta mál með þeim hætti sem gert var eftir að ljóst var orðið að hinar upphaflegu fréttir stóðust alls ekki og reyna að hylma yfir þá staðreynd. Í útlöndum hefði þetta sjálfsagt verið kallað „cover-up“ (Gripið fram í: Hvað?) Að hylma yfir þær upplýsingar að hinar upphaflegu fréttir stóðust ekki er kallað á ensku „cover-up“ og er að sjálfsögðu algjörlega óafsakanlegt hjá hvaða fjölmiðli sem er, ekki síst hjá ríkisfjölmiðli sem allir eiga að geta treyst.

En, eins og ég segi, ég tel að þetta mál sé upplýst og að allir sem hlut eiga að máli ættu að geta lært af þeim mistökum sem þarna hafa orðið.

Mig langar hins vegar að vísa á bug þeim árásum sem dr. Þór Whitehead hefur orðið fyrir í þessum umræðum. Ég tel að það sé síst ofmælt sem um hann er sagt í inngangi þessarar skýrslu. Ég tel að rit dr. Þórs Whitehead um íslenska samtímasögu séu með því merkasta sem skrifað hefur verið um samtímasögu á Íslandi fyrr og síðar og menn hafi tekið hér mjög ómaklega upp í sig að því er varðar fræðimennskuheiður hans. Enda gat hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ekki hrakið eitt einasta orð af því sem hann segir í skýrslu sinni um skjalakönnun sína í Bandaríkjunum eða annað það er viðvíkur meðferð gagna í þessu máli. Hann hefur að vísu ekki séð skjöl sem enginn hefur fengið að sjá, ekki einu sinni Hjörleifur Guttormsson, og kemur það reyndar fram. (Gripið fram í: Hver segir að enginn hafi fengið að sjá þau?) Hérna stendur, með leyfi forseta, á bls. 13 í skýrslunni: „Við þessa rannsókn kom í ljós að engin skjöl bandarísku leyniþjónustunnar CIA um starfsemi hennar á Íslandi eru tiltæk í skjalasöfnum vestra. Skemmst er frá að segja að í heimildum frá öðrum stjórnarstofnunum og Bandaríkjaher fundust engar vísbendingar um Íslendinga sem starfað hefðu í þjónustu CIA.“

Ég vil svo aðeins bæta þessu við varðandi höfund skýrslunnar: Það hefur verið fundið að því að hann hafi verið einn í ráðum. Menn gleyma því þá auðvitað að siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hafði tekið sjálfstætt á þessu máli að frumkvæði útvarpsstjóra og komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Sú gagnrýni fellur því um sjálfa sig.

En það var býsna fróðlegt að hlýða hér á hv. 2. þm. Austurl. Hjörleif Guttormsson í dag. Hans kenning er sú, að þó svo að margumrætt skjal Dags Tangens hafi ekki komið í leitirnar og aldrei verið til, hafi samt verið um að ræða meiri háttar samsæri af hálfu innlendra ráðamanna, samsæri, ef ekki landráð, með ýmsum fulltrúum erlendra ríkja. Það skiptir m.ö.o. engu máli þó að gögnin í þessu máli hafi reynst dauð og ómerk og séu reyndar ekki til. Þá er bara farið að lesa upp úr allt öðrum skýrslum. Það má kannski segja að það sé út af fyrir sig fróðlegt að það skuli vera farið hér með eitthvert mál sem misvitrir sendimenn og sjálfsagt misfróðir um íslensk málefni, sendimenn Bandaríkjastjórnar, hafa sent til sinna yfirboðara. Þannig er það nú með sendimenn erlendra ríkja, bæði hér og annars staðar, og reyndar okkar sendimenn í útlöndum, að það er þeirra hlutverk að senda upplýsingar til heimalandsins um menn og málefni eins og reyndar hv. 2. þm. Vestf. gat réttilega um. En það er satt að segja hálfhjákátlegt ef það er orðið hlutskipti hv. 2. þm. Austurl. að gera slíkar skýrslur að sínum og gera ummæli sem þar koma fram að hinum endanlega úrskurði um Íslandssögu þessara ára. Auðvitað er það fjarstæða.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þm. nafngreindi einn mann sérstaklega sem átti að hafa komið fyrir í þessum samtölum og hefði verið vikið úr starfi á fréttastofu útvarpsins, sennilega vegna þess að hann hafi verið kommúnisti, og við hafi tekið annar maður einnig nafngreindur, Högni Torfason, sem hefði unnið sér það helst til frægðar að hafa verið starfsmaður bandaríska sendiráðsins áður en hann tók við störfum. Það vill nú þannig til að ég gluggaði í æviminningar mannsins sem var rekinn, Hendriks Ottóssonar, útvegaði mér þá bók í matarhléinu. Þar kemur einmitt fram, sem ég hygg að hv. 2. þm. Austurl. hafi verið búinn að gleyma — sjálfsagt er langt síðan hann las þessa bók — að viðkomandi fréttamaður hafði einmitt verið starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar, hvorki meira né minna, á stríðsárunum og þar áður Breta. Eitthvað er því þessi saga öll málum blandin og skal ég ekki rekja það frekar. En ef menn vilja kynna sér þetta geta þeir lesið þetta í bók Hendriks Ottóssonar, Hvíta stríðið, Vegamót og vopnagnýr. Reyndar eru þetta tvær bækur sem voru gefnar út saman að nýju árið 1980. Hér segir frá þessu á bls. 251 og aftar.

Það er óneitanlega dálítið hjákátlegt að heyra forustumenn Alþb. fara með þennan samsærissöng sem verið hefur þeirra viðkvæði í utanríkismálum árum og áratugum saman. Þetta er nefnilega engin ný bóla. Það kemur hins vegar nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar þeir brigsla öðrum mönnum um landráð, landsölu og óþjóðhollustu eins og gert hefur verið undir rós í umræðunum hér í dag og gert var þegar þessi mál voru til umræðu í nóvember sl.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði í umræðunum í dag, vitnaði að því er hann hélt í bróður núv. fjmrh., um menn sem ekki ættu sér fortíð í utanríkismálum. En þannig er því aldeilis ekki farið með Alþb. því að það er svo sannarlega flokkur með fortíð. Fortíð sem er reyndar svo skammarleg að þessu leyti að menn með slíkan arf og slíkan uppruna ættu ekki að taka sér í munn ummæli eins og óþjóðhollusta, óþegnskapur eða því um líkt gagnvart þeim aðilum sem hafa af einlægni staðið vörð um sjálfstæði þjóðarinnar. En þessi áburður hefur nú dunið á forustumönnum Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. árum og áratugum saman eins og ég gat um. Sannleikurinn er hins vegar sá — og það er gersamlega óyggjandi — að ekkert stórveldi hefur haft slíkt vald yfir íslenskum mönnum eins og Ráðstjórnin í Sovétríkjunum yfir Kommúnistaflokki Íslands og forustuliði hans. Og þessum tengslum var ekki slitið þegar Sósíalistaflokkurinn, sameiningarflokkur alþýðu, var stofnaður 1938. Þetta er arfurinn sem Alþb. þarf að drattast með.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gaf fullt tilefni til þess í dag að rifja örlítið upp eitt og annað um þessi mál. Ég vildi kannski byrja á því að benda hlustendum á ágæta ritgerð sem er einmitt eftir dr. Þór Whitehead. Hún birtist í Sögu, tímariti Sögufélagsins, árið 1981, og fjallar um þá nýútkomna bók Einars Olgeirssonar, Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar. Í þessari grein er einmitt ágætlega rakið hvernig landsölukenningar íslenskra kommúnista ná allt aftur til ársins 1918. En allt frá þeim tíma á hin svokallaða íslenska borgarastétt að hafa verið að reyna að selja landið í hendur útlendu auðvaldi, ef ekki ensku eða þýsku þá bandarísku. Það er hart til þess að vita að enn þann dag í dag skuli alið á slíkum hugmyndum.

Mig langar til þess, virðulegi forseti, að kíkja aðeins nánar í þessi mál því eins og margir hv. þm. urðu til að benda á í umræðum um þessi mál í nóvembermánuði sl., þá væri býsna fróðlegt ef jafngreiður aðgangur væri að skjölum sovétstjórnarinnar um samskipti við íslenska menn eins og er þó að skjölum Bandaríkjastjórnar. (Gripið fram í: Eða þá austur-þýskum.) Já, eða þá austur-þýskum. Ýmsir hv. þm. bentu á það í umræðunum hér í nóvember að þar væri ekki um auðugan garð að gresja varðandi upplýsingar og fróðleik.

Samt sem áður er eitt og annað vitað um þetta mál, m.a. vegna þess að menn eins og dr. Þór Whitehead hafa lagt á sig að sinna rannsóknum á þessu sviði. Raunar er allt of lítið gert af því að halda þeirri vitneskju við sem þó er fyrir hendi um þessi mál, jafnfurðuleg og hún hlýtur að virðast öllu venjulegu fólki nú á dögum.

Það mun vera svo, virðulegur forseti, að íslenskir kommúnistar munu hafa tekið þátt í Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern, sem var undir stjórn rússneska Kommúnistaflokksins, alveg frá því 1920. Um þetta má lesa í hinni ágætu bók Þórs Whitehead, Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921–1934, sem út kom 1979. En það er einnig annað ágætt rit eftir annan bróður núverandi fjmrh., dr. Arnór Hannibalsson, sem heitir „Kommúnismi og vinstri hreyfing á Íslandi“ og ég efast ekki um að hv. 2. þm. Austurl. kann einhver skil á. Þessi bók kom út 1964 og í henni segir m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögum Komintern, samþykktum á 2. þingi þess (1920), skyldu allir hinir einstöku kommúnistaflokkar í hverju landi aðeins vera deildir úr alheimsflokk kommúnista og lúta miðstjórn flokksins (alþjóðasambandsins) í Moskvu. Allar samþykktir þinga Komintern og miðstjórnar þess voru bindandi fyrir kommúnistaflokkana, og verkefni þeirra var í því fólgið að framkvæma þær í samræmi við aðstæður í hverju landi.“

En það mun einmitt vera þetta þing, 1920, sem fyrstu fulltrúarnir héðan að heiman sátu.

Síðan langar mig að vitna til bls. 32 í sömu bók eftir Arnór Hannibalsson ef einhver skyldi vera farinn að ryðga í þessum fræðum. Þar stendur:

„Það er ótrúlegt en samt satt, að á því herrans ári 1934 voru uppi menn á Íslandi, sem trúðu því statt og stöðugt, að stefna Komintern og hinnar fámennu kommúnistaklíku væri svo nákvæmlega í samræmi við lögmál þróunarinnar, að einhvern næsta dag risi þjóðin upp, stofnaði Sovét-Ísland og afhenti kommúnistaforingjunum völdin, geislandi af hamingju yfir því nýja lífi sem við blasti.“ Síðan segir hér: „En hvað hugðust þá kommúnistar gera við hinn ástkæra verkalýð eftir byltinguna? Um það þurfti ekki að hugsa. Þá hefðu hinir réttu menn völdin, Ísland yrði sovétlýðveldi, Stalín og Komintern tryggðu hina réttu stjórn. Það er því enginn vegur að skýra frá hugmyndum kommúnista um framtíðina án tilvísunar til Sovétríkjanna. Framtíð íslenskra verkamanna og bænda var í Sovétríkjunum. Þar var framtíðarmarkmið þeirra komið í framkvæmd. Við inngöngu Íslands í Sovétbandalagið var verkið fullkomnað. Áætlunin þurfti ekki að ná lengra. Lýsing á ástandinu í Sovét var því hin raunverulega stefnuskrá Kommúnistaflokks Íslands.“

En það er ýmislegt fleira um þetta að segja því í þessari bók dr. Þórs Whitehead sem ég nefndi áðan segir m.a. á bls. 52:

„Eftir að Kommúnistaflokkurinn var stofnaður, voru sendar skýrslur frá Íslandi til aðalstöðvanna í Moskvu. Í þeim sagði frá starfi flokksins og árangri, stjórnmálaviðhorfi og verkalýðsmálum. Einnig var skýrt frá starfinu í hliðarsamtökum flokksins. Kommúnistar á farskipunum komu skýrslunum til danska Kommúnistaflokksins, sem sendi þær til Moskvu.“

Örlítið neðar segir: „Í Moskvu gengu skýrslur frá kommúnistaflokkunum til deildar „alþjóðatengsla“ (OMS) í Komintern. Deildarstjóri OMS var Osip A. Pyatnitski (líflátinn 1939), en í verkahring hans var að halda uppi sambandi við kommúnistaflokkana, sjá þeim fyrir peningum og afla upplýsinga um erlend ríki. Deildin starfaði í nánum tengslum við leyniþjónustu Rauða hersins („fjórðu deildina“ eða Razvedupr) og leynilögregluna (G.P.U.). Þau bönd, sem tengdu OMS við kommúnista í öllum löndum, gerðu deildina að einni mikilvægustu stofnun Kominterns og sovéska njósnakerfisins.

Heimildarmaður úr forystusveit Kommúnistaflokks Íslands skýrir svo frá, að flokkurinn hafi fengið fjárstyrk sinn frá Moskvu fyrir milligöngu Signe Silléns, eiginkonu sænska kommúnistaleiðtogans Hugo Silléns. Vitað er, að Signe starfaði jöfnum höndum fyrir Komintern og leyniþjónustu Rauða hersins í Stokkhólmi. Ekkert verður þó um það sagt, hvort peningarnir komu úr sjóðum Kominterns eða leyniþjónustunnar, enda voru þessar stofnanir í reynd greinar á sama meiði, ráðstjórninni.“

Þarna er nú komið þetta blessað rússagull sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að lýsa eftir í umræðunum hér í dag. Hann hefur kannski verið búinn að gleyma þessari tilvitnun. Þarna er hvorki meira né minna en Gullna flugan Kommúnistaflokks Íslands, Gullflugan, Rússagullsflugan. En hann var að veifa bók í dag sem ber heitið Gullna flugan og á að vera um samskipti Alþýðuflokksins við einhverja örláta aðila.

Þannig mætti lengi telja, herra forseti, og vitna ég til þessarar sögu sem er í og með undanfari þeirra ákvarðana sem teknar voru hér í utanríkis- og öryggismálum á þeim tíma sem fréttirnar, sem eru upphaf þessa máls, fjölluðu um.

A bls. 55 í bók Þórs Whitehead segir m.a.: „Eftir flokksstofnunina 1930 voru íslenskir kommúnistar í óslitnu sambandi við Komintern. Skýrslur voru sendar reglulega, fulltrúar flokksins sátu þing Kominterns og fundi. Fyrstu fulltrúar íslensku deildarinnar á miðstjórnarfundi Alþjóðasambandsins voru Brynjólfur Bjarnason og Ísleifur Högnason. Fundur þessi var haldinn sumarið 1932, nokkrum mánuðum áður en deilurnar miklu um stefnu Kommúnistaflokksins hófust. Verklýðsblaðið sagði í frétt um för fulltrúanna til Moskvu.

„En félagar. Það er ekki nóg að tilheyra heimsflokki kommúnismans. Við verðum einnig allir að vera viðbúnir til að framkvæma fyllilega í verkinu fyrirskipanir hans. ... "

Örlítið neðar segir: „Komintern lét sér umhugað að skóla unga menn, sem taldir voru vel til forystu fallnir. Kommúnistaflokkur Íslands sendi nokkra félaga sína til náms í hinum leynilega flokksskóla fyrir Vesturlönd (Lenínskólanum). Hefur höfundur haft spurnir af 15 Íslendingum, sem þar námu bókleg og hagnýt byltingarfræði. Þrír þeirra áttu við heimkomu drjúgan þátt í flokksdellunum hatrömmu. Þess voru dæmi, að menn dveldust svo árum skipti í Moskvu á vegum Kommúnistaflokksins, og foringjar hans voru tíðir gestir þar í borg.“

Hefur nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur, nokkurt annað íslenskt stjórnmálaafl, nokkurn tímann átt jafnnáin tengsl við erlenda aðila, við erlent stórveldi, eins og hér er verið að lýsa? Ég er ekki í nokkrum vafa um að svarið við þeirri spurningu er nei. Það var hins vegar ýjað að framhaldi þeirrar sögu áðan í tilvitnun hv. þm. Eiðs Guðnasonar í þessa bók hér, Rauðu bókina, leyniskýrslur SÍA sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er nú víst einn af aðalhöfundum að. Það kemur hér fram. Hv. þm. Eiður Guðnason gleymdi hins vegar að geta þess að eftir að þessi bók kom út fóru þeir höfundarnir í málaferli. Þeir voru ekki að fara fram á það að ummælin hér yrðu dæmd dauð og ómerk, öðru nær. Þeir fóru fram á höfundarlaun. Eftir því sem ég best man voru þeim dæmd þau. (Gripið fram í.) Þau skyldu greiðast en voru ekki fram reidd. (Gripið fram í.) Voru þau fram reidd? Ekki efast ég um að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson man þetta betur en ég.

En varðandi ferðir íslenskra námsmanna austan tjalds er óþarft að rifja það upp sem hv. þm. Eiður Guðnason nefndi. Ég vil bara bæta hér við. Á bls. 177 í þessari góðu bók segir, með leyfi forseta: „Í flokki okkar og æskulýðssamtökum er mikill skortur á traustum, velmenntuðum kader til hinna margvíslegustu starfa, félögum, sem eru reiðubúnir til að leggja fram óeigingjarnt starf í þágu hreyfingarinnar og þeirrar hugsjónar, sem hún berst fyrir“ o.s.frv. o.s.frv.

Auðvitað má hafa langt mál um þetta. Það kemur fram t.d. á bls. 126 að Sovétvinafélagið MÍR var eins og hver önnur flokksdeild í Sósíalistaflokknum en var jafnframt rekin fyrir sovéskt fé og hélt uppi nánum tengslum við Sovétríkin og sovéska sendiráðið. Hvaða flokkur hefur starfað í slíkum tengslum við félög sem starfa á þessum grundvelli? Það hefur verið nefnt að Sósíalistaflokkurinn sjálfur skipulagði námsmannasendingar austur yfir tjald og það sem meira er, það kemur fram í þessari bók líka að þeir félagarnir reyndu að útiloka það að aðrir íslenskir námsmenn fengju að komast þarna austur yfir eftir eðlilegum leiðum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessa bók en mig langar til þess að lesa eina tilvitnun enn úr bók Þórs Whitehead þar sem kemur mjög glöggt fram að ásakanir manna, sem tilheyra þessum félagsskap, um annarra manna landráð og landsölu hljóma sem hjóm eitt og auðvitað hið argasta öfugmæli miðað við það sem hér kemur fram um þá sjálfa.

Þetta byrjar á tilvitnun í Einar Olgeirsson en hann skrifaði, með leyfi forseta: „Með gagnrýni og árás á auðvaldsskipulagið í anda Marx og Engels, með myndun Kommúnistaflokks og sigri verkalýðsbyltingar að fordæmi Leníns og bolshevikkanna, með framkvæmd sósíalismans eins og Stalín hefur stjórnað henni í Rússlandi, — mundi íslenskur verkalýður með markvissri baráttu gera að veruleika þann draum, sem íslenska alþýðan og hennar bestu menn hafa þráð og óskað eftir meir eða minna óljóst en innilega og heitt allan þann tíma, sem stéttaþjóðfélagið hefir staðið á Íslandi: að afnema alla kúgun og alla fátækt af þessu landi og þessari jörð.“

Síðan segir höfundur: „Í þessu alþjóðlega ljósi verður að skoða drauminn um Sovét-Ísland. Ráðstjórnarríkin voru upphafið að allsherjarsambandi sósíalistaríkja. Þegar alþýða auðvaldsríkis steypti kúgurum sínum af stóli, var henni opin leið í ráðstjórnarsambandið. Í samþykkt Kominterns frá 1928 var að finna drögin að þessu sambandi.“

Síðan segir: „Í þetta samband [samband sósíalistískra ráðstjórnarríkja] bar Sovét-Íslandi að ganga. Stjórnskipan landsins yrði þá hin sama og með þegnum Stalíns.

Þessi afstaða til umheimsins verður ekki skilin og skýrð nema í ljósi alþjóðahyggjunnar. Í samskiptum sínum við Komintern og ráðstjórnina voru kommúnistar óbundnir af þeim reglum og siðvenjum, sem þegnum íslenska ríkisins var ætlað að fylgja í skiptum við erlend stjórnvöld. Í Kommúnistaávarpinu sagði: „Öreigalýðurinn á ekkert ættland. Það, sem hann ekki á, verður ekki af honum tekið“.“

Og síðan: „En nú var öldin önnur. Rússnesku öreigarnir höfðu tekið ríkisvaldið úr höndum borgaranna, og með því höfðu öreigar allra landa eignast sitt „sanna föðurland“. Í blöðum kommúnista var börnum innrætt alþjóðahyggja og þeim kennt að varast borgaralega þjóðernishyggju.“ Síðan er tilvitnun í eitt af þessum blöðum. Þar segir: „Skátarnir elska íslenska fánann, fána auðmanna. En öll verklýðsbörn elska rauða fánann, fána verkalýðsins.“

Og áfram: „Framvarðarsveit öreiganna hafði engrar þegnskyldu að gæta við ríki borgaranna, íslenska ríkið, því að „þjóðlegur í borgaralegum skilningi verður hann [öreigalýðurinn] aldrei“.“

Neðar segir: „Kommúnistar óskuðu þess að vera hollir sinni stétt, alþjóðlegu öreigastéttinni, og ríki hennar, Ráðstjórnarríkjunum, sem þeir ætluðu Íslandi að sameinast. Foringi ráðstjórnarinnar, Jósef Stalín, var foringi íslenskra kommúnista, og þeir tignuðu hann sem „einhvern göfugasta hugsjónamann og mannvin nútímans . . .“ .“ — En þetta mun vera úr Þjóðviljanum frá árinu 1936 eða 1937.

„Með því að vera hollir sinni stétt töldu kommúnistar sig vera holla sínu landi: hagsmunir Íslands (þ.e. íslensku öreigastéttarinnar) og Ráðstjórnarríkjanna fóru saman í einu og öllu. Kommúnistar voru hinir sönnu ættjarðarvinir, borgararnir voru „óþjóðhollir“ í þeim skilningi, að þeir vildu selja landið í hendur útlenda auðvaldinu (danska, enska, þýska o.s.frv.)" Hér lýkur tilvitnun í bók Þórs Whitehead.

Þannig er nú þessi arfur þeirra aðila sem hafa haft hæst um það að aðrir menn gengju fram í því að hafa uppi samsæri gegn almenningi hér í landinu og ofurselja landið erlendum aðilum. Þetta er ljót lesning. En þetta var nú samt það sem við blasti í stefnuskrá Sósíalistaflokksins frá 1952 sem ég hef hér í höndunum. Ég geri ekki ráð fyrir að þar hafi orðið miklar breytingar frá árunum 1938–1952. Þar er beinlínis tekið fram að langlíklegasta leiðin fyrir íslenskan verkalýð til að ná völdum sé leið átaka. Jafnframt er tekið fram í þessari stefnuskrá að það sé stefna flokksins að innlima Ísland, að Ísland verði aðili að alþjóðabandalagi sósíalistískra lýðfrjálsra þjóðfélaga, eins og það er kallað, alveg eins og segir í upphaflegri stefnu Kominterns frá 1928 sem ég vitnaði til áðan. M.ö.o. þetta var alveg óbreytt á árunum í kringum 1950 og spurningin sem menn stóðu frammi fyrir þá var þessi: Áttu menn að taka eitthvert mark á þessu eða ekki? Var þetta bara eitthvert hjal og blaður sem menn í öðrum flokkum áttu ekki að taka neitt mark á?

Eins og hv. þm. Eiður Guðnason vék að eiga menn auðvitað leiðréttingu orða sinna og menn eiga rétt á því að skipta um skoðun og hverfa frá villu síns vegar. Það held ég reyndar að sé raunin með flesta þá sem tilheyra því Alþýðubandalagi sem við þekkjum í dag. Ég ætla ekki í alvöru að fara að gera Hjörleifi Guttormssyni upp þær skoðanir sem ég var að vitna hér til þó að hann hafi kannski einhvern tímann á árum áður aðhyllst þetta fagnaðarerindi. Það er fagnaðarefni að þeir skuli flestir hverjir hafa horfið frá trúnni á sovétskipulagið og vilji nú væntanlega flestir, ef ekki allir, standa vörð um íslenskt lýðræði í núverandi mynd.

Mér dettur ekki í hug að herma upp á hann 30 ára gömul ummæli sem skoðanir hans í dag. Það fer hins vegar ekki hjá því, og það er það sem ég vil leggja áherslu á, að það hljómar býsna hjárænulega þegar flokkur með þessa fortíð og menn með þennan pólitíska arf eru sí og æ að brigsla öðrum um landráð, svik við sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og annað það athæfi sem ekki samrýmist þegnskap góðra Íslendinga. Það er gersamlega ósæmandi og fyrir neðan virðingu hv. þm.

Einhvern tíma var ort: Þú þjóð með eymd í arf. — Flokkur með þessa pólitísku eymd í arf á satt að segja ekki að brigsla öðrum um hluti af þessu tagi. Það er komið nóg af því í gegnum árin og mál að linni.