25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6752 í B-deild Alþingistíðinda. (4682)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það hefur farið svo að þessu sinni sem oft endranær að umræða af þessu tagi fer nokkuð víða, fer út um víðan völl og það er freistandi að gera að umtalsefni margt af því sem hér kemur fram eins og t.d. hjá hv. síðasta ræðumanni sem ræddi nokkuð um námsmannatengsl Sósíalistaflokksins á sínum tíma við Austur-Evrópuríkin. Ég efa ekki að það verður einhvern tíma rannsóknarefni sagnfræðinganna. Það var afar sérkennilegt fyrir menntaskólapilta á árum áður að fylgjast með því hvernig Flokkurinn valdi úr ákveðna einstaklinga sem síðar voru sendir til náms austur fyrir járntjald. Það voru engar auglýsingar um að öðrum námsmönnum gæfist kostur á að sækja um slíkt nám, efnalitlum námsmönnum sem höfðu hug til að stunda nám erlendis. Það var ekki um það að ræða heldur valdi Flokkurinn ákveðna fulltrúa út úr menntaskólunum. Ég hygg að við sem vorum í menntaskóla á árunum 1950–1960 og þar fram yfir höfum öll fylgst með þessu og séð þetta. Og þetta er mjög rækilega staðfest í bókinni sem ég vitnaði til áðan og er að miklu leyti skrifuð af formanni SÍA, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, en ég lít á það sem þar er skrifað í ljósi þess tíma sem það var þegar það var skrifað. Þetta eru mjög skemmtilegar sögulegar frásagnir og það er gaman að lesa þetta, en það er líka fróðlegt að sjá hvernig allt þetta kerfi vann við að koma fólki sem hafði velþóknun flokksins til náms erlendis sér að kostnaðarlausu og auðvitað átti þetta fólk skyldum að gegna. Þetta nám var ekki ókeypis í öllum skilningi. Það var a.m.k. sannfæring mín. En það var nú ekki þetta sem varð til þess að ég fór í ræðustól að nýju.

Það var eitt sem ég vildi vekja athygli á. Það hefur verið talað mjög mikið um það og hver ræðumaðurinn á fætur öðrum að sem eftirfari þessara mistaka hafi Ríkisútvarpið beðist afsökunar. Það er ekki rétt vegna þess að í kvöldfréttum útvarpsins 19. nóv. er einungis sagt: „Fréttastofan harmar að heimild sem hún taldi ekki ástæðu til að vefengja skyldi reynast ótraust.“ Það er engin afsökunarbeiðni. „Fréttastofan harmar að heimild sem hún taldi ekki ástæðu til að vefengja skyldi reynast ótraust.“ Niðjar þess manns sem verið var að níða eru ekkert beðnir afsökunar t.d. Það er viðurkennt að menn hafi gert glappaskot, en það er ekki gert með mjög stórmannlegum hætti að mér finnst.

En það var hins vegar annað sem varð þess valdandi að ég kvaddi mér hljóðs að nýju og það voru ummæli hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur þegar hún ræddi hvernig unnið hefði verið að þessu máli innan Ríkisútvarpsins. Hún kvaðst hafa sínar upplýsingar að mér skildist frá fulltrúa Kvennalistans. Ég verð að lýsa því yfir og leggja á það mjög þunga áherslu að hún hefur fengið rangar upplýsingar. Ég er ekki að væna hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur um að hún hafi farið hér vísvitandi með rangt mál, en hún hefur fengið mjög rangar upplýsingar og nú skal ég segja henni örlítið meira um það.

Þegar þetta mál kom upp átti ég sem hér stend sæti í útvarpsráði. Ég hafði samband við þáverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins, Friðrik Pál Jónsson. Fréttastjóri, Kári Jónasson, var erlendis. Ég átti við hann langt samtal sem útvarpsráðsmaður. Ég fékk hjá honum öll gögn um málið. Það var auðvitað fúslega látið í té allt sem hafði verið sagt í útvarpinu um þetta mál. Ég ræddi líka við forstöðumann dægurmáladeildar, Stefán Jón Hafstein. (GA: Fyrir þennan fund?) Já, fyrir þennan fund, og ég fékk hjá honum þau gögn sem ég óskaði eftir og við áttum um þetta samtal. Öll þessi gögn voru til staðar. Það var engum erfiðleikum háð eða vandkvæðum bundið að afla þeirra. En ég skal að vísu viðurkenna að ég hafði ekkert samráð við fulltrúa Kvennalistans í útvarpsráði um þetta. Ég gerði þetta að eigin frumkvæði og upp á eigin spýtur og síðan vakti ég máls á þessu í útvarpsráði og hafði þá þessi gögn öll undir höndum þannig að það var unnið að þessu máli með allt öðrum hætti en hér var gefið í skyn. Ég veit að hv. þm. fór ekki viljandi eða vísvitandi með rangfærslur heldur hafa henni verið gefnar alrangar upplýsingar um málið. Þetta vildi ég að kæmi hér fram. Það eiga sjálfsagt eftir að verða meiri umræður um þetta hér og töluvert lengri. Það er ýmislegt fleira sem hér mætti segja. Hún sagði líka, hv. þm., að hún skildi alltaf betur og betur hvað væri verið að fjalla um viðkvæman tíma og sagði síðan, að ég hygg næstum því orðrétt: Það er eins og menn beri kvíðboga fyrir því að einhverju verði ljóstrað upp. Ég verð að lýsa furðu minni á þessum ummælum.

Það sem hér er um að ræða var að það var látið liggja að því að fyrrv. forsrh. landsins hefði allt að því gerst sekur um landráð. Það var látið liggja að því. Það var ekki sagt berum orðum. Ég held að menn þurfi ekkert að vera hissa á því þó að það sé tekið óstinnt upp. Ég man það sem barn frá 7-8-9 ára aldrinum að hafa lesið á hverjum einasta degi í Þjóðviljanum brigsl um landsölu og landráð ákveðinna einstaklinga í íslensku þjóðlífi. Þetta var daglegt brauð í Þjóðviljanum á þeim árum. Þar voru nafngreindir einstaklingar og níddir. Stefán Jóhann Stefánsson var einn af þeim. Þegar slík umræða er vakin upp að nýju er eðlilegt að þeir sem muna þá tíma bregðist hart við.

En ég segi það aftur og enn að það er erfitt og það er hættulegt, getur verið kannski, að dæma með augum okkar það sem skrifað var í gær og það sem gert var í gær. Það getur allt orkað tvímælis. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veifaði úr ræðustóli í dag bók sem heitir „Gullna flugan“ eftir mann sem er sagður sagnfræðingur. Ég skoðaði þessa bók þegar hún kom út. Þetta er ekki sagnfræði. Þetta eru missagnafræði að mjög verulegu leyti. Það er áreiðanlega eitthvað rétt sem stendur í þeirri bók, en hún er hrikalega illa unnin og hún er ekki gott sagnfræðiverk. Það fullyrði ég og það er mjög auðvelt að standa við. En í skjóli sagnfræðinnar og í skjóli titilsins sagnfræðingur geta menn auðvitað gefið hlutum vigt og haldið fram ýmsu sem fær þá aukið vægi. En það er líka hættulegt.

Ég ræddi nokkuð um stöðu íslenskrar fjölmiðlunar í kvöld og ítrekaði að ég held að fjölmiðlamenn þurfi að athuga sinn gang og huga að því hvert stefni varðandi fréttaflutning. Mig langar, herra forseti, til að ljúka þessum fáu orðum með því að vitna í grein sem er í afmælisriti Blaðamannafélags Íslands, sem kom út á þessu hausti, þar sem leitað var til nokkurra alþm. sem jafnframt hafa starfað við blaðamennsku. Þar var leitað til Þorsteins Pálssonar, hæstv. forsrh., sem um skeið var ritstjóri. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér stuttan kafla úr þeirri grein sem hann skrifar hér vegna þess að ég held að hann eigi erindi inn í þessar umræður:

„Meginhlutverk blaðamanns er óvilhöll upplýsingamiðlun. Hann er farvegur milli yfirstandandi atburða og almennings, snúran sem tengir lampann við rafmagnið svo að ljósið kvikni. Það er því á ábyrgð blaðamanna að fólk sé upplýst um það sem er að gerast á hverjum tíma og geti dregið af því eigin ályktanir. Með vaxandi áhrifum og fyrirferð fjölmiðla á undanförnum árum hefur örlað á því að sumir í þessari merku stétt sætti sig illa við svo takmarkað hlutverk. Þeir vilja vera bæði lampinn og rafmagnið, þ.e. bæði fréttin sjálf og almenningsálitið. Það er nýtt í blaðamennsku að blaðamenn virðast vera ákaflega uppteknir af sjálfum sér. Á hinn bóginn er það gamalt að greina ekki á milli staðreynda og söguburðar. Að því leyti gætir um of afturhvarfs í blaðamennsku.

Þá þykja mér verslunarviðskipti í blaðamennsku hvimleið. Þannig er ekki óalgengt að blaðamenn bjóðist til að flytja eða birta rétta frásögn af máli gegn því að fá tilteknar upplýsingar, en ella megi búast við ónákvæmri frásögn. Þessi vinnubrögð bera vott um ónóga sjálfsvirðingu.

En hvað sem þessum tíðaranda í blaðamennsku líður mun hún í vaxandi mæli gegna hlutverki í hverju lýðfrjálsu ríki. Blaðamenn eru mikilvægustu milliliðir upplýsingaþjóðfélagsins. Þess vegna eru gerðar til þeirra kröfur. Íslenskir blaðamenn geta vel risið undir þeim kröfum og gera það reyndar í ríkum mæli þótt sitthvað gangi úrskeiðis hjá þeim eins og öðrum. Aukið frelsi hefur gerbreytt fjölmiðlum hér á landi, en e.t.v. urðið til þess að á stundum er villst af leið. Samkeppnin og mikið framboð af fjölmiðlum hlýtur að verða til þess að auknar kröfur verða gerðar til blaðamanna þegar fram í sækir.

Blaðamenn á Íslandi njóta almennt trausts og trúnaðar. Sá trúnaður má ekki glatast í kapphlaupinu um athygli.“

Þessi orð, herra forseti, vildi ég gera að mínum við lok máls míns í þessari umræðu.