25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6765 í B-deild Alþingistíðinda. (4686)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Ég ætlaði að svara hv. 3. þm. Vesturl., en hann er þá kannski ekki staddur hér.

Vegna þeirra ummæla sem hann hafði hér í ræðustól áðan vil ég segja að ég var í góðri trú þegar ég fullyrti að fulltrúi Kvennalistans í útvarpsráði hefði ein haft samband við fulltrúa fréttastofu og dægurmáladeildar Rásar 2. Hins vegar er það rétt, ég hef kannað það á meðan á umræðum stóð, að hv. 3. þm. Vesturl. fékk afrit af þeim umræðum sem áttu sér stað og skiptist á nokkrum orðum við fulltrúa fréttastofu og dægurmáladeildar. Hins vegar var fulltrúi Kvennalistans sá eini í útvarpsráði sem setti sig ítarlega inn í gang mála og kynnti sér sjónarmið starfsfólksins.

Hitt stendur, sem ég sagði og skiptir kannski öllu meira máli, að útvarpsráð bað fréttastofuna aldrei um greinargerð um málið, skriflega greinargerð, né kallaði fulltrúa hennar á fund sinn, og það gerði útvarpsstjóri ekki heldur þannig að meginefni minnar ræðu áðan stendur óhaggað.

Hvað varðar ummæli hv. 14. þm. Reykv. þegar ég undraðist þá viðkvæmni sem kæmi upp í umræðum manna hér um þessi mál, þá verð ég að segja að undrun mín er enn söm. Það er rétt, sem hann sagði, eitthvað á þá leið, að við verðum að kunna söguna, taka tillit til hennar og virða hana, en við megum ekki, hv. þm., festast í sögunni. Við megum ekki festast í fangbrögðum gamallar glímu kalda stríðsins. Þetta gera menn eflaust af því að þeir hafa áður glímt og renna í sama farið á nýjan leik. En þeir sem voru börn á þeim tíma þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið og upplifðu því ekki þessa sömu glímu og þeir sem eru þaðan af yngri hafa ekki þessa reynslu og þeir líta líka e.t.v. öðrum augum til samskipta í nútímanum og ekki síst binda aðrar vonir við samskipti í framtíðinni, bæði einstaklinga og stórvelda. Við höfum ekki upplifað þetta kalda stríð á sama hátt og þess vegna lítum við fram hjá því og það er ekki hluti af okkar lífsreynslu. Ég undrast enn þessa viðkvæmni. Það kannski segir manni ekki síst að mönnum stendur enn ekki á sama. Þetta mál og lyktir þess eru enn lifandi í þjóðarvitundinni og mönnum stendur ekki á sama.