25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6765 í B-deild Alþingistíðinda. (4687)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Þessi umræða hefur nú dregist allmikið og einnig dreifst allmikið. Menn hafa farið nokkuð út um víðan völl í sínum ræðum hér sem e.t.v. er eðlilegt þegar maður skoðar þetta mál ofan í kjölinn og setur það í samhengi við ýmislegt annað sem hefur verið að gerast í okkar þjóðlífi á undanförnum árum eða jafnvel áratugum.

Ég ætla fyrst að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar. Viðbrögð þessa hv. þm. voru afar fróðleg í þeirri ræðu sem hann hélt, en þau komu þó ekki á óvart. Hann notaði mjög gamalkunnar aðferðir. Hann gat auðvitað ekki neitað því að fréttin var röng. Sjálfur hafði hann staðið upp á hv. Alþingi, gert þessa frétt að umtalsefni eins og heilagan sannleika og varð vafalaust þess vegna sjálfur fyrir vonbrigðum með að þessi heimild skyldi ekki hafa verið rétt. En hverjar voru aðferðir hans? Hver voru efnistök hans í þeirri ræðu sem hann hélt hér áðan?

Í fyrsta lagi: Byrjum á því að gera skýrsluhöfundinn tortryggilegan. Byrjum á því að gera dr. Þór Whitehead, sem er virtur sagnfræðingur hvort sem hv. þm. líkar betur eða verr, tortryggilegan. Reynum að sá efa í huga áheyrenda um áreiðanleika og trúverðugleika þessa manns. Þetta er regla númer eitt. Og hv. þm. gerði heiðarlegar tilraunir til þessa í sinni ræðu og skal ég ekki rekja það frekar. Það geta menn skynjað með því að lesa ræðu hans.

Regla númer tvö: Þó að þessi skjöl hafi ekki verið til, þó að þessi heimild hafi reynst röng eru þau kannski samt til. Og til að reyna að sannfæra hlustendur, hv. þm. og þjóðina alla, um að skjölin séu nú kannski samt til, las hann í heilan klukkutíma upp úr löngu birtum skjölum sem eru aðallega minnisblöð ýmissa starfsmanna bandaríska sendiráðsins sem koma þessu máli auðvitað ekkert við. Það vita allir að slíkar frásagnir erlendra sendimanna, eins og margoft hefur verið vitnað til hér í þessum umræðum, eru auðvitað ákaflega óáreiðanlegar heimildir um það sem er að gerast í viðkomandi löndum. Þetta eru ályktanir sendiráðsstarfsmanna sjálfra og ég hygg að það sé nokkuð viðurkennd sagnfræðiaðferð að taka slík skjöl með miklum fyrirvara og með mikilli varúð.

Aðferð hv. þm. var sú, og nú ætla ég að leyfa mér að sletta ensku úr ræðustól vegna þess að það er smáregla sem þeir hafa í Bretlandi einmitt undir kringumstæðum sem þessum, að þeir segja: „If you can not convince them confuse them.“ M.ö.o.: ef þú getur ekki sannfært fólk skalt þú rugla það í ríminu. Hv. 2. þm. Austurl. hefur upplifað það að geta ekki sannfært fólk að þessu sinni. Norski marx-lenínistinn Dag Tangen, sem helst var að finna í höfuðstöðvum Klassekampen í Noregi, brást og þá er að draga athygli frá því, þyrla upp einhverju öðru. Það var auðvitað tilgangurinn með þessum lestri og þessu ræðuhaldi öllu saman sem hér stóð yfir í einn og hálfan klukkutíma í dag. Ekki fleiri orð um það.

Því hefur verið haldið fram í þessum málflutningi í dag hjá ýmsum ræðumönnum að tilgangurinn með því að birta þessa skýrslu og efna til þessarar umræðu sé sá að hræða fréttamenn frá eðlilegum skyldum sínum. Hér séu uppi kröfur um ritskoðun og álíka fullyrðingar hafa komið hér fram. Auðvitað er þetta rangt. Ég skal að vísu viðurkenna að það hefði verið samhengisins vegna þægilegra fyrir alla aðila að þessi umræða hefði farið fram miklu fyrr. Og hv. skýrslubeiðandi, 4. þm. Austurl., skýrði það að hann hefði óskað eftir utandagskrárumræðu hér fyrir jól í beinu framhaldi þessara atburða og þar með hefði þetta mál væntanlega verið úr sögunni á hv. Alþingi. En því var ekki að heilsa. Sú umræða fékkst ekki og þess vegna greip hann og aðrir þingmenn til þess ráðs að biðja um sérstaka skýrslu sem er nú fyrst til umræðu þó hún hafi legið hér frammi í allnokkurn tíma.

En það er alls ekki tilgangurinn með þessari umræðu að hræða fréttamenn á neinn hátt eða „terrorisera“ þá eins og einhver orðaði það. Þetta er auðvitað ósköp eðlileg umræða. Kjarni málsins er sá að fréttastofunni urðu á mjög alvarleg mistök. Mistökin voru fólgin í því að leyna þjóðina því að heimild fréttarinnar var ekki til og þrátt fyrir það að heimildin var ekki til, var haldið áfram að klifa á því við þjóðina að fréttin væri til. Þetta var engin venjuleg frétt. Við skulum átta okkur á því að þessi frétt setti Alþingi á annan endann í heilan dag, hún setti aðra fjölmiðla og þjóðina á annan endann í nokkra daga. Þetta var frétt þar sem látinn íslenskur stjórnmálamaður var sakaður um landráð. Þess vegna er eðlilegt að menn skuli vilja ræða það mál ofan í kjölinn.

Auðvitað átti hv. 2. þm. Austurl. að biðja Alþingi afsökunar á frumhlaupi sínu í nóvember þegar hann stóð hér upp og efndi til utandagskrárumræðu sem byggð var á þessum fölsku heimildum. Hann kaus að gera það ekki heldur kaus að fara aðrar leiðir.

Með þessum umræðum er ekki verið að ráðast gegn grundvallarþáttum frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi eins og hv. þm. hélt fram. Þvert á móti. Með þessum umræðum er verið að styrkja frjálsa, heiðarlega blaðamennsku á Íslandi.

Hv. 2. þm. Austurl. hélt því fram að ég hefði skipað nefnd, „ráðherra hefur skipað nefnd“ sagði hann tvisvar sinnum í ræðu sinni. 2. þm. Austurl. sagði í tvígang: „Ráðherra hefur skipað nefnd.“ Ég hef enga nefnd skipað. Þetta er röng fullyrðing hjá hv. þm. Það er útvarpsstjóri sem hefur skipað nefnd. Ég tel það ekki hlutverk mitt að segja fyrir um innri mál útvarpsins. Það er útvarpsstjóra og yfirstjórnar útvarpsins að sjá um það. Ég skal segja þessum hv. þm. að ég sá fyrst um þessa nefnd í blöðunum, sá það þegar ég var að koma heim í gær í flugvél að þessi nefnd hafði verið skipuð. Ég hafði ekki heyrt um hana fyrr og því síður að ég vissi nokkuð um það fyrir fram hverjir yrðu í hana settir. Það er sannleikur þess máls.

Sumir ræðumenn hafa borið Ríkisútvarpið saman við aðra fjölmiðla og sagt að það sé víða pottur brotinn og það er vafalaust rétt og ræddi ég það í minni ræðu í dag. Ríkisútvarpið hefur hins vegar sérstöðu. Þetta er ótvírætt fjölmiðill allra landsmanna. Eins og hv. 4. þm. Austurl., skýrslubeiðandi, benti á í sinni ræðu hér í dag greiða menn afnotagjald Ríkisútvarpsins hvort sem þeir vilja það eða ekki. Menn verða hins vegar sjálfir að taka ákvörðun um hvort þeir kaupa sér aðgang að öðrum fjölmiðlum. Þess vegna verður að gera meiri og strangari kröfur til Ríkisútvarpsins í þessum efnum sem reyndar öðrum.

Hv. 3. þm. Vesturl. rifjaði upp í sinni fyrri ræðu í kvöld ýmis fyrri atvik þar sem Alþb. hefur reynt með aðstoð erlendra manna, oft af svipuðu pólitísku sauðahúsi, að skjóta svikafréttum á loft upp. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur ótrúlega oft verið með í þeim leik, ég vil segja látið blekkjast í þeim leik, og alltaf er atburðarásin eins. Það er einhver erlendur maður sem skýtur upp frétt, Ríkisútvarpið tekur hana upp, Þjóðviljinn breiðir sig síðan út og málið er komið inn á Alþingi oftast í formi umræðu utan dagskrár. Þau eru mýmörg dæmin um þetta á undanförnum árum og allt of oft hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins látið blekkjast til þess að vera með í slíkum leik.

Fulltrúar Kvennalistans hafa tekið þátt í þessari umræðu og þáttur þeirra í þessari umræðu hefur verið afar sérstakur. Undirtónninn hefur raunverulega verið sá að umræða af þessu tagi eigi ekkert erindi inn í íslenskt þjóðfélag í dag. Þetta séu „kaldastríðs“-umræður og tilheyri liðinni tíð. Þess vegna eigi ekki að tala um málið á þeim nótum eins og hér er gert. Ég er mjög ósammála fulltrúum Kvennalistans um þetta efni. Ég varð fyrir enn einni nýrri persónulegri reynslu fyrir tveimur dögum sem sannfærir mig um hvað sjónarmið Kvennalistans í þessu efni er rangt. Ég fór til Berlínar núna um helgina. Var boðið þangað til að vera viðstaddur hátíðahöld í tilefni þess að það var verið að opna, ef við getum orðað það þannig, Berlín sem höfuðborg evrópskrar menningar árið 1988. Við hjónin fórum á okkar eigin vegum yfir til Austur-Berlínar. Fórum í gegnum þetta eina hlið sem hægt er að fara í yfir til Austur-Berlínar. Eftir að hafa heyrt ræður kvennalistakvenna í þessari umræðu, hv. þm., held ég að það ætti að senda þær í gegnum þetta hlið yfir til Austur-Berlínar. Þar sjáum við ótrúlega mikinn mun á þjóðfélögum. Við erum stödd í sömu borginni, það er sama fólkið, en það er himinhrópandi munur á lífsgleði, á anda, lífsháttum og öllum lífsgæðum. Þegar maður upplifir slíkt skynjar maður að þessari baráttu milli lýðræðis og einræðis í heiminum er ekki lokið. Hún stendur yfir og það verða allir að taka afstöðu. Það er ekki hægt að skýla sér í einhverjum rósrauðum sakleysishjúp og segja: „Þetta kemur mér ekkert við. Okkur Íslendingum kemur þetta ekkert við. Þetta er fortíð. Þetta er liðin tíð.“ Þetta er ekki fortíð. Þetta er barátta dagsins í dag. Þess vegna er ekki hægt að hafa uppi málflutning eins og þann sem fulltrúar Kvennalistans halda fram, ekki bara í þessari umræðu heldur í öllum umræðum þar sem utanríkismál ber á góma. Það er ekki hægt að halda fram þeim málflutningi sem þær gera.

Því er haldið fram og sérstaklega af fulltrúum Kvennalistans að Sjálfstfl. hafi ráðist skipulega að Ríkisútvarpinu, að Sjálfstfl. haldi Ríkisútvarpinu í fjárhagslegu svelti og þessi skýrsla og þessi umræða sé liður í þeim ofsóknum sem Sjálfstfl. á að halda uppi gegn Ríkisútvarpinu. Þessu vil ég eindregið mótmæla. Ég hygg að Sjálfstfl., þeir menntmrh. sem hér hafa setið á vegum Sjálfstfl. undanfarin ár frá árinu 1983 og ég sjálfur meðtalinn, beri hag og vilji bera hag Ríkisútvarpsins mjög fyrir brjósti. Er Ríkisútvarpinu haldið í fjársvelti miðað við aðrar ríkisstofnanir? Það er sagt: Ríkisútvarpið var svipt tekjustofni, þ.e. afnotagjöldum af sjónvarpstækjum, og síðan er leitt frá þeirri fullyrðingu yfir í það að dagskrá Ríkisútvarpsins sé fjársvelt. Þið vitið betur. Þið vitið að þessi tekjustofn Ríkisútvarpsins, þ.e. tollarnir eða aðflutningsgjöldin af sjónvarpstækjunum, hefur ekki verið notaður til dagskrárgerðar. Það er gagngert í lögunum fram tekið að þetta sé tekjustofn til fjárfestingar. Það er fyrir þennan tekjustofn sem stóra húsið uppi á Háaleitisbraut hefur verið byggt. Það sem felst í þeirri ákvörðun að þessi aðflutningsgjöld eru ekki látin ganga til Ríkisútvarpsins nú er að hægt skuli á fjárfestingu, að það skuli hægja á að byggja og innrétta þetta stóra hús. Þetta hefur engin áhrif haft á dagskrárgerðina.

Og hvernig er með afnotagjöldin? Hefur Ríkisútvarpið verið svelt að því er afnotagjöldin snertir miðað við aðrar ríkisstofnanir eða miðað við þjóðfélagið í heild? Ég er með fyrir framan mig skrá um breytingar á afnotagjöldum hljóðvarps og sjónvarps frá ársbyrjun 1984 til dagsins í dag. Það kemur fram að hækkun á þessum tíma hefur verið 209,7% á afnotagjöldum þegar framfærsluvísitala hefur hækkað um 127,8%. Það munar auðvitað mest um þá miklu hækkun sem varð árið 1987 þegar hækkun afnotagjalda varð 85% miðað við framfærsluvísitölu 24,3%. Það er ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að Ríkisútvarpið hafi verið svelt ef við lít m á þessar tölur. Ríkisútvarpið hefur fengið meiri hækkanir í sinn hlut en nokkur önnur ríkisstofn n eða a.m.k. þær ríkisstofnanir sem ég þekki til. Það er röng fullyrðing að það sé verið að svelta Ríkisútvarpið. Hitt er annað mál að kostnaður Ríkisútvarpsins hefur vaxið mikið og miklum mun meira en vísitölur gefa tilefni til. Ég skal ekkert segja af hvaða ástæðum það er, en eitt af því sem verið er að kanna í því efni er t.d. sérstök úttekt sem Ríkisendurskoðun lætur nú fara fram á Ríkisútvarpinu og reyndar hefur útvarpsstjóri sjálfur brugðist mjög myndarlega við til að reyna að hagræða innan stofnunarinnar þannig að kostnaðarhækkunarlínan liggi ekki nánast eins og þráðbeint strik upp á við eins og hún hefur legið undanfarið ár.

Ég hef lagt áherslu á að Ríkisútvarpið bæti sinn rekstur og ég tel að Ríkisútvarpið þurfi að gera það, þurfi að bregðast rétt við til að geta haldið sínum hlut. Ríkisútvarpið er og verður útvörður íslenskrar menningar og á að vera það. En að halda því fram, eins og haldið hefur verið fram hér í umræðu hvað eftir annað í vetur, að útvarpið megi ekki gagnrýna, gagnrýni sé fjandskapur við útvarpið, er misskilningur. Það er rangt. Ég vil þvert á móti orða það svo: „Vinur er sá er til vamms segir.“