05.11.1987
Neðri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

42. mál, áfengislög

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég efa ekki að hv. 4. þm. Austurl. talar af býsna mikilli reynslu í þessum efnum og sjálfsagt af meiri þekkingu en ýmsir aðrir innan þings og utan sem aðeins þekkja til bjórsins af lestri bóka. Ég efa ekki að það hefur verið líf í tuskunum í kjallaranum hjá „tillidsmand“ Jensen þegar hann og verkalýðsforingi Hermannsson voru þar báðir saman komnir árið 1957. En það kemur þessu máli harla lítið við.

Ég tel að það sé tvennt öðru fremur sem skiptir máli varðandi þetta frv. Í fyrsta lagi sú rökleysa, sem ég vil kalla, að leyfa landsmönnum tiltölulega greiðan aðgang að sterkum áfengum drykkjum en meina þeim um aðgang að hinum veikustu. Heimila aðgang að hinum hættulegustu, en meina um aðgang að hinum hættuminnstu. Og í öðru lagi skiptir miklu máli að mínum dómi það misrétti sem viðgengst í þessum málum í dag og orsakast af því að hið svokallaða bjórbann núgildandi áfengislaga er dauður bókstafur gagnvart þeim fjölda Íslendinga sem getur orðið sér úti um áfengt öl eftir leiðum sem yfirvöld heimila, annaðhvort með því að kaupa hann í Fríhöfninni í Keflavík, ef um ferðamenn eða flugliða er að ræða, eða koma með hann til landsins sem hluta af tollfrjálsum varningi ef um skipverja er að ræða. En aðrir geta ekki orðið sér úti um þessa tegund áfengis nema eftir leiðum sem ólögmætar eru.

Víkjum aðeins að fyrra atriðinu. Þannig háttar nú til að veikasta áfengistegundin sem á boðstólum er í verslunum ÁTVR er 7% að alkóhólstyrkleika, en áfengi bjórinn, sem hægt er að fá keyptan í Fríhöfninni í Keflavík, er 7,2%, eða a.m.k. ein tegund sem þar er á boðstólum, og sterkasti innlendi bjórinn sem þar er seldur er 6,5%. M.ö.o.: allir sem vilja drekka 7% áfengi geta gengið inn í áfengisverslanir ríkisins og fengið það keypt. Ef menn hins vegar vilja drekka 7,2% áfengan bjór verða þeir fyrst að fara til útlanda áður en þeir geta fest kaup á honum. Ég tel að það standist ekki og sé órökrétt að gefa fólki kost á að belgja sig út af sterkum drykkjum þegar hverjum og einum býður svo við að horfa en banna jafnframt með lögum — þó að sá lagabókstafur sé nú eins og hann er — almenningi að komast yfir veikustu tegundina eftir eðlilegum leiðum.

Ég vil benda á varðandi síðara atriðið, sem ég nefndi, að nú eru fluttir inn í landið árlega um 750 000–1 000 000 lítrar af áfengu öli í gegnum Fríhöfnina í Keflavík og ég efast ekkert um að hv. 4. þm. Austurl. á sinn skerf í þeim lítrum eins og við margir aðrir hér inni. Það sem síðan bætist við með innflutningi farmanna er vafalaust drjúgur skammtur til viðbótar, að ekki sé talað um það sem gera má ráð fyrir að komi inn í landið með ólögmætum hætti þrátt fyrir góða og trausta viðleitni tollgæslunnar.

Kunnur útvarpsmaður í Reykjavík setti nýlega smáauglýsingu í dagblað og óskaði eftir því að fá keyptan bjór. Hann gaf upp símanúmer sem seljendur gætu hringt í. Útvarpsmaðurinn skýrði síðan frá því í þætti sínum hverjar viðtökur hefðu verið. Í sem stystu máli linnti ekki látum í símanum hjá honum þar sem verið var að bjóða til kaups ýmsar tegundir af áfengum bjór af ýmsum styrkleika og við ýmsu verði, mjög fjölbreytilegu. Þetta framtak útvarpsmannsins sýnir kannski þetta ástand í hnotskurn þó svo að hv. 4. þm. Austurl. kannist ekkert við að hér sé bjór fáanlegur hverjum þeim sem hafa vill.

Lögin um bjórbann eru nefnilega orðin tóm gagnvart fjölda Íslendinga, dauður bókstafur fyrir hvern þann sem á annað borð er reiðubúinn að bera sig eftir því að verða sér úti um bjór og er tilbúinn að borga fyrir hann það verð sem upp er sett.

En hvaða tilgang skyldi það hafa að hafa slíkan bókstaf á lögbókum landsins? spyr sá sem ekki er sérlega kunnugur í lögum og hefur ekki staðið í því að setja lög jafnlengi og hv. 4. þm. Austurl. Auðvitað engan annan tilgang en þann að grafa undan virðingu manna fyrir öðrum lögum og reglum samfélagsins, ýta undir smygl, svartamarkaðsbrask og aðra ólöglega starfsemi sem að sínu leyti kemur í veg fyrir að hið opinbera hafi eðlilegar tekjur af þessari sölu og geti haft með henni eðlilegt og sjálfsagt eftirlit. Þetta ástand hvetur menn til afbrota, kemur í veg fyrir að innlend framleiðsla og útflutningur á þessu sviði nái að þróast svo að nokkru nemi og leggur óþarfa tálmanir í veg þeirra sem hér hafa af veikum mætti reynt á undanförnum árum að byggja upp ferðamannaiðnað og alþjóðlegt ráðstefnuhald sem uppfyllir ýtrustu kröfur.

En skyldi það ástand sem nú ríkir hafa orðið til þess að það sé minna drukkið á Íslandi en ella? Skyldi ástandið vera betra, skyldi vera minna áfengisvandamál en ella? Ætli það sé til bóta fyrir unglingana í landinu að verða sér úti um áfengt öl sem komið er í umferð með þessum hætti? Mér er það mjög til efs. Þeir sem eru andvígir bjórnum eru það einmitt vegna þess að þeir óttast að drykkja í landinu muni aukast með tilkomu hans og áfengisvandamálið versna. Og vissulega eru það eðlilegar áhyggjur. Það er fullkomlega eðlilegt að menn velti því fyrir sér. En veit nokkur svarið við því í raun og veru? Ég tel ekki að nokkur maður geti fullyrt það með neinni vissu að áfengisneysla muni stóraukast og versna við þessa breytingu.

Það er eflaust rétt að heildarneysla muni eitthvað aukast. En er ekki jafnframt líklegt að innbyrðis samsetning muni breytast og neysla sterkustu drykkjanna dragast saman um leið og bjórneyslan eykst? Ég er hér í höndunum með upplýsingar frá Noregi frá því á árunum 1949–1954 eftir að farið var að selja þar svokallað export-öl, sterkan bjór. Á þessu árabili jókst ölneyslan, en að sama skapi minnkaði neysla sterkra drykkja.

Ég veit ekki svarið við þessari spurningu þó svo ég hafi nefnt þetta dæmi og þeir sem hér hafa talað gegn bjórnum vita það auðvitað ekki heldur. Svarið fæst ekki nema menn séu tilbúnir að gera þessa tilraun. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að henni fylgi ákveðin stefna varðandi sterku drykkina og ég tel að Alþingi geti ekki skotið sér undan því að takast á við það áfengisvandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag og hefur ekki skapast af ofneyslu öls heldur af ofneyslu hinna sterkari drykkja.

Menn gera því skóna að á Íslandi sé mestur alkóhólismi þó svo að minnst sé drukkið af áfengi. Og ef það er svo, eins og margir halda fram, skyldi þá ekki eitthvað vera bogið við þá áfengisstefnu, sem hér hefur verið fylgt, sem gerir mönnum kleift að belgja sig út af sterkum drykkjum en meinar þeim að neyta þeirra veikustu? Skyldi þá ekki vera eitthvað athugavert við það ástand sem hér hefur ríkt?

Mig langar, herra forseti, að gera að umtalsefni hvernig ýmsir menn taka afstöðu til þessa máls. Sumir líta eingöngu í eigin barm þegar mál þetta ber á góma og spyrja sig hvort þeir mundu sjálfir drekka áfengan bjór eða ekki væri hann fáanlegur með eðlilegum hætti. Og ef menn svara þeirri spurningu játandi eru menn gjarnan fylgjandi því að leyfa áfengt öl. Þeir sem á hinn bóginn svara þessari spurningu neitandi eru oftast á móti því að leyfa bjórinn, móti því bæði fyrir sjálfa sig og aðra. En þeir eru einnig til sem sjálfir hafa mikla ánægju af því að neyta áfengs öls, drekka það jafnvel ótæpilega þegar þeir hafa aðstöðu til innanlands eða utan, en eru samt andvígir breytingum á núgildandi lögum vegna þess að þeir telja að það sé gott fyrir aðra. Slíkir menn, sem margir hverjir hafa aðstöðu til þess að kaupa sér oft áfengan bjór, hafa aðstöðu til að versla í Fríhöfninni og sjást þar iðulega rogast með bjórkassana sína í gegnum tollinn, eru kannski uppfullir af umhyggju gagnvart náunganum og vilja koma í veg fyrir að hann geti keypt sér bjór þótt það sé allt í lagi að þeir kaupi hann sjálfir. Þetta viðhorf er ekkert annað en tómur tvískinnungur og hræsni.

En málið snýst einfaldlega ekki um hvað hverjum og einum finnst. Það snýst ekki um drykkjusiði eða bindindisvenjur einstakra manna. Það snýst um hvort menn eru þess umkomnir að ákveða fyrir aðra menn hvernig þeir haga sinni áfengisneyslu ef þeir á annað borð kjósa að neyta áfengis. Það snýst um hvort menn geta bannað fólki að drekka veikustu og skaðminnstu drykkina og beina þeim þar með í hina sterkari og hættulegri. Það snýst um að hafa hér í landinu rökrétta áfengislöggjöf sem ekki mismunar þegnunum og gerir sumum kleift að neyta áfengistegunda sem öðrum er bannað að neyta. Það er kjarni málsins, en ekki það hvort einhver einn einstaklingur hyggist sjálfur drekka bjórinn eða ekki. Það kemur málinu ekkert við.

Ég vil taka fram að gefnu tilefni og vegna þess að margir gera því skóna að hér sé verið að stefna í sama horf og þekkist t.d. í Danmörku, þar sem hver og einn getur gengið í matvöruverslanir og keypt sér þar allt það áfenga öl sem hann kærir sig um og raunar einnig annað áfengi, að það er ekki hugmynd flm. frv. Það er ekki gert ráð fyrir öðru í frv. en að með áfengt öl verði farið eins og annað áfengi og það selt í verslunum ÁTVR og á vínveitingahúsum þar sem áfengir drykkir eru á boðstólum í dag. Ég tel rétt að leggja sérstaka áherslu á þetta þar sem reynt er að villa um fyrir mönnum með því sí og æ að nefna Danmörku sem eitthvert dæmi og fyrirmyndarland í þessum efnum. Ég tel að Danmörk sé síður en svo neitt fyrirmyndarríki í þessum efnum.

Mig langar einnig, herra forseti, að víkja nokkrum orðum að hugmyndum manna að vísa þessu máli til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og sumir telja rétt. Í því sambandi vil ég, með leyfi forseta, vitna í grein frá áfengisvarnaráði sem birtist í Morgunblaðinu 8. október sl., en þar segir m.a.:

„Banni því sem nú er í gildi við innflutningi og sölu áfengs öls á Íslandi var ekki komið á eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort afnema skyldi bannlögin fór fram haustið 1933. Þátttaka var mjög lítil en meiri hluti þeirra sem kusu eða fjórðungur kosningabærra manna greiddi atkvæði með afnámi bannsins. Alþingi samþykkti áfengislög rúmu ári síðar. Í umræðum um það kom fram tillaga fjögurra þm., Péturs Ottesens, Garðars Þorsteinssonar, Bjarna Bjarnasonar og Þorbergs Þorleifssonar, um að banna innflutning, sölu og framleiðslu áfengs öls. Rök flm. voru einkum þau að öl yrði drukkið á vinnustöðum og börn ættu greiðari leið að því en öðru áfengi. Tillagan var samþykkt með miklum atkvæðamun. Það er því Alþingi sem hefur ákveðið þá skipan mála að banna áfengt öl.“

Enn fremur segir, með leyfi forseta: „Aðeins þrisvar hefur verið gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi. Árið 1916 voru greidd atkvæði um hvort þegnskylduvinna yrði í lög tekin. Í hin tvö skiptin voru greidd atkvæði um áfengisbann, 1908 um hvort koma skyldi á banni við innflutningi og sölu áfengis og 1933 um hvort afnema skyldi bannið. Aðrar ákvarðanir um áfengismál hefur Alþingi tekið án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Síðan segir: „Mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á þann veg, svo sem undanþága frá bannlögunum 1922, en hún fól í sér heimild til innflutnings veikra vína, samþykkt nýrra áfengislaga 1954, en þá var rekstur vínveitingahúsa heimilaður og breytingar á áfengislögum 1986 um heimildir fjmrh. til að veita öðrum aðilum en ÁTVR leyfi til að framleiða áfenga drykki. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur því einungis farið fram um grundvallaratriðin, bann eða ekki bann, en aldrei um einstaka þætti áfengislaga.“

Ég er sammála áfengisvarnaráði í þessu efni. Það er reyndar stofnun sem ég tel ástæðu til að bera mikla virðingu fyrir þó svo að ég sé ekki sammála afstöðu ráðsins í því máli sem hér er til umræðu. Hér er um að ræða breytingu á tilteknum lögum sem Alþingi hefur sett. Alþingi getur ekki vikið sér undan ábyrgðinni á lagasetningu ílandinu hvað þá þegar um er að ræða tiltölulega litla breytingu á núgildandi lögum. Alþingi er því bæði rétt og skylt að takast á við þetta mál, eins og reyndar varð niðurstaða hv. allshn. síðast þegar um þetta mál var fjallað hér í þinginu, enda verður ekki með sanni sagt að hér sé á ferðinni slíkt stórmál að þinginu beri að vísa því til þjóðarinnar, hvað þá þegar ekki er fyrir hendi hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum þegar um er að ræða hin stærri mál þjóðarinnar.

Ég vil benda á þessu til viðbótar og biðja menn að hugleiða hvort það sé siðferðilega rétt að skjóta máli sem þessu til þjóðaratkvæðis. Þetta mál er að miklu leyti þess eðlis að það snertir einkahagi manna og einkaneyslu. Ég fæ ekki séð að það sé eðlilegt að meiri hlutinn, ef hann væri andvígur bjórneyslu, átti að geta bannað minni hlutanum hana. Ég tel að mál sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ættu helst að vera þess eðlis að þau snúist um málefni sem óhjákvæmilega nái til allra, málefni sem ekki sé hægt að skipta, stjórnarskrá sem allir eða enginn verða að búa við o.s.frv. En ég tel að mál sem varðar í raun og veru einkaneyslu en ekki allsherjarreglu eigi ekki erindi til þjóðarinnar eins og sumir þm. halda. (ÓÞÞ: Gildir þetta bæði um hass og heróín?)

Herra forseti. Aðalatriðin í þessu máli eru skýr. Ef menn fallast ekki á þær röksemdir sem fluttar eru fram máli þessu til stuðnings eiga þeir hinir sömu ekki annars úrkosti en að beita sér fyrir því að núverandi ástandi verði aflétt og allir landsmenn sitji við sama borð. Og ég skora hér með á hv. þm., þá sem kunna að vera andvígir þessu máli, að þeir séu þá sjálfum sér samkvæmir og beiti sér fyrir breytingum á því ástandi sem nú er. Annaðhvort eru menn á móti bjórnum eða ekki. Og ef menn eru á móti honum eiga þeir að beita sér fyrir breytingum á núverandi ástandi þannig að allir sitji við sama borð og að sá vottur af stéttaskiptingu sem fyrirfinnst í dag með því ástandi sem nú er fyrir hendi hverfi. Þá eiga menn að beita sér fyrir því að afnumin verði þau hlunnindi sem farmenn, flugliðar og ferðamenn njóta í þessu efni. Annað undirstrikar eingöngu þann tvískinnung sem er ríkjandi í þessu máli.

Varðandi innskot hv. 2. þm. Vestf. eiga rök mín varðandi þjóðaratkvæði að sjálfsögðu ekki við eiturefni eins og þau sem hann nefndi, enda eru þau ekki leyfð í landinu. Það gegnir auðvitað allt öðru máli um þau en áfenga drykki sem heimilað er að nota í landinu.

Ég vil að lokum, herra forseti, mælast til þess með 1. flm. málsins að þessu máli verði hraðað í þingnefnd þeirri sem fær málið til meðferðar, væntanlega hv. allshn. Það er skammt um liðið síðan þetta mál var til umfjöllunar síðast á Alþingi. Allar upplýsingar sem máli skipta liggja fyrir. Það liggur allt fyrir um þetta mál í umsögnum og erindum, sem borist hafa, sem máli skiptir. Þingnefndinni og þingheimi öllum raunar á því ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka fljótt afstöðu til málsins.