26.04.1988
Efri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6807 í B-deild Alþingistíðinda. (4734)

271. mál, framhaldsskólar

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, þakka viðtökurnar sem frv. hefur fengið og þær málefnalegu umræður sem hafa farið hér fram. Eins og ég gat um í minni upphaflegu ræðu eru vissulega mörg álitamál þegar verið er að semja frv. eins og þetta sem á að ná yfir heilt skólastig, þ.e. allt framhaldsskólastigið, jafnfjölbreytt og það er í reynd. Þess vegna kemur ekkert á óvart þó að menn velti upp ákveðnum hugmyndum og telji að sumir hlutir mættu kannski vera öðruvísi í þessu frv.

Ég ætla aðeins að ræða nokkur atriði sem hv. 6. þm. Vesturl. Danfríður Skarphéðinsdóttir minnti á. Ég vek athygli á því varðandi skólanefndirnar að það hefur orðið allmikil breyting á þeim ákvæðum um skólanefndir sem voru upphaflega í frv. í meðferð Nd. Verkefni skólanefndanna, eins og ég gat um í minni frumræðu, eru orðin mun skýrari og skólanefndirnar hafa ekki verkefni á sviði innra starfs skólans eins og frv. lítur núna út. Skólanefndirnar hafa að vísu verkefni að því er snertir ákvörðun námsframboðs, þ;e. hvaða nám er í boði við viðkomandi skóla. Ástæðan er sú, eins og ég rakti í minni frumræðu, að ég tel að það verkefni sé eitt æskilegasta verkefni heimamanna, þ.e. íbúanna í viðkomandi byggðarlögum, fulltrúa íbúanna í viðkomandi byggðarlögum, að fjalla um hvaða nám er í boði. Það skiptir miklu máli hvert unglingarnir í viðkomandi byggðarlögum þurfa að sækja nám, hvort þeir geti fengið það nálægt sínum heimilum eða hvort þeir þurfi að sækja það allt til Reykjavíkur eins og allt of mikil tilhneiging hefur verið til á undanförnum árum. Ýmsir sérskólar á mörgum sviðum hafa fyrst og fremst verið í Reykjavík og þess vegna æskilegt að losa þar um og breyta til. Þetta hlýtur að vera mjög mikið áhugaefni fólksins í byggðarlögunum og þess vegna tel ég að ákvörðun um námsframboð eigi að vera verkefni skólanefndanna sem eru fyrst og fremst fulltrúar fólksins. Hin faglegu sjónarmið, þ.e. málefni innra starfs skólans, eru eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst í höndum þeirra sem starfa við skólann, kennara, reyndar nemenda og svo umfram allt skólameistara sem bera höfuðábyrgð á stjórn skólans.

Varðandi fatlaða nemendur spurði hv. þm. hvernig bæri að skilja ákvæði 16. gr. varðandi inntökuskilyrði í tengslum við þau sérákvæði sem gilda um fatlaða í frv., þ.e. í 30. gr. Ég vek athygli á að inntökuskilyrðin eru mismunandi eftir aldri nemenda þannig að allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun eiga rétt á að hefja framhaldsnám að fullnægðum kröfum um starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. Síðan er rætt um fornám í einstökum námsgreinum. Hins vegar getur nemandi sem orðinn er 18 ára gamall hafið nám við framhaldsskóla án þess að fullnægja inntökuskilyrðum samkvæmt þessari grein nema að því er varðar starfsþjálfun.

Þessi grein á fyrst og fremst við um almenna nemendur og ber að skilja hana sem slíka. 30. gr. er hins vegar sérákvæði í þessum lögum sem fjallar um fatlaða nemendur og sú grein er eins og annað í þessum lögum fyrst og fremst rammi sem fylla þarf út í, allrúmur rammi að því er ég tel, en þar segir nú í greininni eins og hún er orðuð, þ.e. 30. gr.:

„Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, kennslu og þjálfun við hæfi og sérstakan stuðning í námi. Í því skyni skal látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntmrn. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

Heimilt er að stofna sérskóla fyrir þroskahefta nemendur. Menntmrn. setur nánari ákvæði um framkvæmd kennslu og nám fatlaðra nemenda.“

Ég tel að þetta ákvæði í 30. gr. sé sérákvæði í lögunum og að svo miklu leyti sem undanþágu er þörf varðandi inntökuskilyrði frá 16. gr. og að svo miklu leyti sem það gildir um nemendur, þá fyrst og fremst sem eru 16–18 ára, þá sé heimilt í reglugerð að setja um það sérákvæði þannig að hægt sé að veita fötluðum nemendum aðgang að skólanum þó að þeir uppfylli ekki ströngustu inntökuskilyrði að öðru leyti.

Varðandi kennslustundafjöldann, sem hv. ræðumaður gat um einnig, og hvernig hann kæmi heim og saman við hugmyndir um kennslu fyrir fatlaða, þá vek ég athygli á að 34. gr. er fyrst og fremst viðmiðunargrein. Þar segir: „Við ákvörðun fjárveitinga við kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7–2 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla.“ Síðan kemur: „Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa.“ Og enn segir: „Þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.“ Þessar sérstöku aðstæður geta auðvitað verið með ýmsu móti, en þetta á ekki síst við um sérstakar aðstæður úti á landsbyggðinni þar sem um smærri skóla er að ræða í ýmsum dreifðu byggðum, en „sérstakar aðstæður“ eiga líka við í skólum þar sem fatlaðir nemendur eru sem þurfa meiri umönnun, meiri kennslu og meiri kennslustundafjölda en aðrir nemendur. Ég lít því svo á að fyrir þessu sé allvel séð í þessu frv., en auðvitað þarf að fylla nánar út í þetta með reglugerð.

Varðandi ákvæði um námsráðgjöf er gert ráð fyrir að heimilt sé að fela ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla að annast hliðstæða starfsemi fyrir framhaldsskóla. Auðvitað á ákvæðið um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa eftir stærð og gerð skóla og fjárveitingu hverju sinni einnig við um námsráðgjafa. Okkur hefur hins vegar ekki fundist nauðsynlegt að festa ákveðna tölu starfsmanna á nemendur í þessu ákveðna starfi í skólunum. Er þá ekki rétt að festa fjölda ýmissa starfsmanna af öðru tagi í hlutfalli við nemendafjölda? Ég nefni t.d. bókaverði eða starfsfólk á bókasöfnum skóla eða jafnvel kennarana sjálfa. Þetta eru atriði sem fyrst og fremst verða að ráðast eftir þörfum skólanna sem eru mjög margvíslegar. Þess vegna hefur verið stefnan að negla ekki of mikið niður ákvæði af þessu tagi í frv. Ég geri mér grein fyrir því að þó að menn í orði kveðnu tali um að slík löggjöf eigi að verða rammalöggjöf hefur mér fundist bera á því hjá ákveðnum hópum sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta að þeim finnist að það sem að þeim snúi sé ekki nægilega neglt niður í frv. og þess vegna eigi að setja um það nánari ákvæði. Við höfum viljað standast þær freistingar, standast þann þrýsting, sem auðvitað er kominn frá ýmsum öðrum hópum, og viljað að rammalöggjöfin geti átt nokkurn aldur fyrir sér. Þess vegna geti margvíslegar aðstæður, bæði mismunandi tegundir skóla, aðstæður á hverjum stað og aðstæður sem við sjáum ekki fyrir okkur í tíma, fallið undir framhaldsskólafrv.

Varðandi faggreinafélögin er það einlægur ásetningur minn að hafa náið samstarf við kennarasamtökin, fyrst og fremst aðalsamtök kennaranna, Kennarasamband Íslands og Hið íslenska kennarafélag. Það á auðvitað við um námsskrárgerð, um reglugerðarsetningu í samræmi við þessi lög og annað það sem snýr að starfi skólanna. Ég nefni t.d. námsskrárgerð. Hún hefur verið unnin í mjög náinni samvinnu við kennarasamtökin og verður það auðvitað áfram.

Hv. 7. þm. Reykn. ræddi um tengsl skólastiganna og sagði, að mínu mati réttilega, að tengslin milli skólastiganna væru ekki nægileg. Mér finnst þetta eiga bæði við um tengslin milli grunnskóla og framhaldsskóla og tengslin milli framhaldsskóla og háskóla. Ég held hins vegar að það væri mjög erfitt að ætla sér að breyta því í þessum ákveðnu lögum varðandi framhaldsskólann. Ég held að það þurfi nánari athugunar við.

Hv. þm. sagði að undirbúningi nemenda sem hygðu á háskólanám væri að mörgu leyti mjög ábótavant. Undan þessu er kvartað. Ég held hins vegar að hugmynd um samræmd próf úr framhaldsskóla fyrir nemendur sem ætla í háskólanám þurfi nánari athugunar við. Þá spyr maður: Hvað er háskólanám? Við höfum Háskóla Íslands og við höfum orðið allmarga skóla á háskólastigi eins og fram hefur komið í umræðum fyrr á þessum vetri. Við höfum Kennaraháskóla Íslands, við höfum Háskólann á Akureyri, við höfum Tækniskóla Íslands, við höfum Tölvuháskóla Verslunarskólans, við höfum kennslu á háskólastigi í Samvinnuskólanum á næsta leiti, við höfum kennslu á háskólastigi í listaskólunum, þ.e. Tónlistarskólanum, Myndlista- og handíðaskólanum og Leiklistarskólanum, við höfum háskólakennslu í búnaðarskólunum, bæði á Hvanneyri og á Hólum, og reyndar má skilgreina Garðyrkjuskóla ríkisins sem háskólastig að vissu leyti. Þetta þarf allt að skilgreina betur og ég hygg að almenn ákvæði um samræmd próf úr framhaldsskólum fyrir nemendur á háskólastigi mundu ekki uppfylla þær kröfur sem til slíks þarf að gera nema að undangenginni nákvæmri athugun.

Hv. þm. ræddi um nauðsyn þess að sett yrði samræmd löggjöf um háskólastigið og ég er alveg sammála honum um að það sé mjög tímabært að gera það. Ég vil geta þess í því sambandi að ég setti á laggirnar á þessum vetri sérstaka samstarfsnefnd háskólastigsins. Í henni eiga sæti fulltrúar allra þeirra skóla sem nú eru við kennslu á háskólastigi og háskólarektor er formaður þeirrar nefndar. Hún á að fjalla um ýmis sameiginleg mál þessara skóla, en fyrsta verkefnið sem ég fól henni var að semja löggjöf um háskólastigið. Ég veit að nefndin er byrjuð á því starfi, m.a. með því að safna gögnum um hvernig slík löggjöf er erlendis, en ég vonast sannarlega til að á næsta vetri verði hægt að leggja fram frv. um háskólastigið.

Það er hins vegar ekki víst að það sé alveg nákvæmlega rétt skilgreining sem við höfum fylgt hingað til í lögunum um skólastig eða um skólakerfi þar sem við fjöllum um þrjú skólastig. Í lögum nr. 55 frá 1974, um skólakerfi, skiptum við skólakerfinu í þrjú stig, þ.e. grunnskólastig, framhaldsskólastig og háskólastig. Mér finnst þessi skipting að sumu leyti orðin óheppileg því hún ýtir undir að það sé reynt að skilgreina nám undir eitthvert þessara stiga. Þetta er sérstaklega óheppilegt að því er snertir framhaldsskólastig eða háskólastig. Það er ljóst að ýmsar námsbrautir tilheyra hvorugu þessara stiga og liggja miklu frekar bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Ég nefni sem dæmi t.d. Tækniskóla Íslands sem er skóli þar sem nemendur eru bæði á framhaldsskólastigi og fara yfir á háskólastig. Þetta á við um ýmsar brautir bæði á sviði iðn- og tæknináms og á sviði listnáms. Í grg. með frv. um framhaldsskólann er hugleiðing um að til greina gæti komið að skipta skólakerfinu í fjögur stig í stað þriggja, þ.e. á milli framhaldsskólastigs og háskólastigs komi fjórða skólastigið sem yrði sérskólastig sem lægi að hluta til á framhaldsskólastigi og að hluta á háskólastigi. Á sérskólastiginu yrðu þá skólar sem veittu sérhæfða menntun og þjálfun til undirbúningsstarfa í atvinnulífinu og gerðu að inntökuskilyrði eins til þriggja ára nám í framhaldsskóla. Slíkt fyrirkomulag er alþekkt víða erlendis. Hins vegar treystum við okkur ekki til að taka á þessu máli í frv. Það tilheyrir kannski frekar sérstakri athugun á skólakerfinu í heild sem nú er í gangi í menntmrn. og þessi umræða þarf að fara betur fram úti í þjóðfélaginu áður en hægt sé að festa hana í lög.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og vonast til að þetta frv. verði afgreitt sem lög frá Alþingi á þessu vori.