26.04.1988
Efri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6811 í B-deild Alþingistíðinda. (4736)

422. mál, Tónlistarháskóli Íslands

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um Tónlistarháskóla Íslands á þskj. 772. Frv. þetta er samið af nefnd sem þáv. menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, skipaði 15. okt. 1985, en í henni áttu sæti Jón Nordal, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, formaður, Baldvin Tryggvason, sparisjóðsstjóri, sem er gjaldkeri Tónlistarfélagsins, og Árni Gunnarsson, skrifstofustjóri í menntmrn.

Skipuleg tónlistarfræðsla á Íslandi á sér ekki mjög langa sögu, hefst með stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1930. Þeir sem komu honum á fót voru nokkrir áhugamenn um tónlist sem síðan stofnuðu Tónlistarfélagið, en það félag hefur rekið skólann fram á þennan dag.

Tónlistarskólinn í Reykjavík var lengi vel eini tónlistarskóli landsins og hefur jafnan gegnt forustuhlutverki á sviði tónmenntakennslu. Nær allir starfandi tónlistarmenn okkar hafa hlotið þar menntun sína að meira eða minna leyti.

Árið 1959 var með reglugerð menntmrn. komið á fót kennaradeild við skólann og var henni falið að mennta söngkennara, nú nefndir tónmenntakennarar, fyrir almenna skólakerfið. Þetta var mikilsverður áfangi í sögu Tónlistarskólans og viðurkenning á forustuhlutverki hans. Á næstu árum voru stofnaðar við skólann kennaradeildir fyrir píanó-, strengja- og blásturshljóðfærakennara sem vaxandi þörf var fyrir eftir því sem tónlistarskólum í landinu fjölgaði. Hafði skólinn engan veginn undan að fullnægja þeirri þörf því að þróunin varð örari en nokkurn óraði fyrir.

Með lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla árið 1963 var rekstrargrundvöllur þeirra bættur mjög og enn frekar með löggjöf um sama efni 1975 og 1985. Hefur tónlistarskólum fjölgað ört síðan og eru þeir nú rúmlega 60 á landinu öllu.

Á þessu má sjá að það hefur verið mikil uppbygging í tónmennt á Íslandi undanfarna áratugi og eftir því sem tónlistarfræðsla í landinu hefur komist á hærra stig og orðið markvissari hefur þörfin fyrir tónlistarháskóla orðið mönnum sífellt ljósari. Tónlistarskólinn í Reykjavík hefur gegnt hlutverki slíks æðri skóla eftir því sem hann hefur haft bolmagn til, en hann er að mestu leyti rekinn á sama fjárhagsgrundvelli og aðrir tónlistarskólar í landinu og um hann hafa aldrei verið sett sérstök lög.

Það frv. sem hér er flutt er því að miklu leyti staðfesting á því starfi sem nú er unnið í Tónlistarskólanum í Reykjavík og nauðsynleg ráðstöfun til að styrkja þetta starf og tryggja því lagalegan og fjárhagslegan grundvöll. Aðeins á þann hátt getur skólinn rækt það hlutverk sem er svo þýðingarmikið fyrir tónlistarlífið í landinu.

Háskóladeildir Tónlistarháskóla Íslands verða skv. frv. alfarið kostaðar af ríkissjóði og ekki gert ráð fyrir skólagjöldum. Gera má ráð fyrir talsverðri fjölgun nemenda frá því sem nú er á efstu stigum og í kennaradeildum Tónlistarskólans í Reykjavík, en þeir voru skráðir 107 á skólaárinu 1986–1987. Gert er ráð fyrir að kostnaður af námi í deildum neðan háskólastigs í Tónlistarháskóla Íslands verði greiddur með hliðsjón af reglum sem gilda um hliðstæðar deildir almennt og að nemendur þar greiði skólagjöld.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja einstakar greinar þessa frv., en það má ætla að nám í háskóladeildum Tónlistarháskóla Íslands taki 3-4 ár og veiti BA-gráðu. Nemendur sem ljúka því prófi ættu að vera vel búnir undir störf hér á landi, m.a. kennslu í tónlistarskólum. Eitt mikilvægasta hlutverk Tónlistarháskóla Íslands verður að sjá tónlistarskólum um allt land fyrir hæfum kennurum, en tónlistarskólarnir eru veigamikill þáttur í menningarlífi fjölmargra byggðarlaga. Einnig ætti BA-prófið að verða góður undirbúningur undir frekara nám erlendis sem æskilegt er að sem flestir nemendur geti veitt sér íslensku tónlistarlífi til eflingar.

Ég er ekki í neinum vafa um að ef Tónlistarskólinn fær viðurkenningu sem háskóli, viðurkenningu til að útskrifa menn með alþjóðlegar háskólagráður, eins og BA-gráðu, muni allmargir nemendur sem nú neyðast til að fara í nám erlendis stunda sitt nám hér við Tónlistarháskólann.

Frv. þetta er nokkuð seint á ferðinni miðað við að skammt lifir nú af þessu þingi. Ég geri mér þess vegna ekki vonir um að hægt verði að afgreiða málið á þessu þingi. Ég hefði talið eðlilegt að hv. þingnefnd, sem fær málið til meðferðar, óskaði eftir umsögnum, m.a. Félags tónlistarkennara í landinu og Félags tónlistarskólastjóra, en þeir hafa ekki fjallað gagngert um þetta mál.

Ég vek sérstaka athygli á því að það er sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem snertir Söngskólann í Reykjavík, en hann hefur nokkra sérstöðu meðal tónlistarskóla í landinu þar sem hann hefur starfað í 14 ár og eingöngu sinnt söngkennslu. Fyrstu nemendur í almennu söngnámi voru útskrifaðir úr skólanum 1977, en 1978 var stofnuð framhaldsdeild við skólann, sem skiptist í einsöngvaradeild og söngkennaradeild, og voru fyrstu nemendur í framhaldsdeild útskrifaðir 1980. Veturinn 1987–1988 stunda 18 nemendur nám í framhaldsdeildum skólans. Eðlilegt og sanngjarnt þykir að taka tillit til þeirrar staðreyndar að Söngskólinn í Reykjavík hefur þegar um nokkurra ára skeið sinnt kennslu á háskólastigi og veita þeim nemendum sem þegar stunda nám á framhaldsstigi skólans tækifæri til að ljúka námi sínum þar svo og veita skólanum tækifæri til að aðlaga sig að nýjum aðstæðum. Þess vegna er ákvæði II sett til bráðabirgða í þetta lagafrv.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.