26.04.1988
Efri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6813 í B-deild Alþingistíðinda. (4737)

422. mál, Tónlistarháskóli Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna því að þetta frv. skuli nú lagt fram þó það sé að vísu, eins og hæstv. ráðherra sagði, nokkuð seint á ferð og auðvitað er það rétt mat hjá hæstv. menntmrh. að það er sjálfsagt borin von eins og nú er talað um þinglausnir að þetta frv. nái afgreiðslu á þessu þingi, enda er miklu brýnna að málið fái góða og vandaða athugun og meðferð hér í þinginu og um það sé góð samstaða. Ég tek undir þau orð hans að það er eðlilegt að senda málið til umsagnar nú og þá til þeirra félagasamtaka sem hann nefndi til sögunnar, þ.e. Félags ísl. tónlistarkennara og Félags tónlistarskólastjóra, og hugsanlega ýmissa fleiri aðila og fá þá sem gerst þekkja til málsins til viðræðna við menntmn. þessarar hv. deildar.

Ég held að þetta sé tímabært frv. Það er í samræmi við og í framhaldi af ákvæðum sem er að finna í starfssáttmála núv. ríkisstjórnar. Það er alveg ljóst og sem betur fer svo að tónlistarmenntun er yfirleitt í heldur góðu horfi hér á landi. Þar hefur þessi skóli, Tónlistarskólinn í Reykjavík, verið brautryðjandinn og er í rauninni eina menntastofnunin á þessu sviði sem veitir alhliða tónlistarfræðslu á öllum sviðum og í öllum greinum og hefur gert lengi og annast menntun tónlistarkennara.

Við eigum mikið af ungu og efnilegu tónlistarfólki í námi og það er staðreynd, eins og hæstv. menntmrh. vék raunar að áðan, hér hefur ekki verið tónlistarnám á háskólastigi og það hefur verið okkar unga tónlistarfólki á ýmsan hátt fjötur um fót. Þegar það hefur leitað til náms til útlanda hefur sú menntun sem það hefur notið hér ekki verið metin sem skyldi vegna þess að skólann skorti hið rétta nafn. Að sumu leyti hefur þetta verið svo. Áreiðanlega mun þetta líka verða til þess að það verður eitthvað minna um að fólk leitar til útlanda þannig að það margt mætti telja þessu til ágætis.

En ég skal ekki lengja þessa umræðu nú. Ég fagna því að frv. skuli komið fram. Það verður tekið til meðferðar í menntmn. og sent til umsagnar strax og það berst nefndinni, en borin von er, eins og hér hefur komið fram, að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.