26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6817 í B-deild Alþingistíðinda. (4745)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gera grein fyrir fyrirvara mínum, en ég undirrita nái. með fyrirvara. Sá fyrirvari varðar 1. gr. frv., um hlutverk Háskólans á Akureyri. Þar sem nokkur munur er á 1. gr. og 1. gr. laga um Háskóla Íslands finnst mér ástæða til að undirstrika í hverju sá munur er fólginn.

Í 1. gr. frv. er tekið fram að Háskólinn á Akureyri skuli vera vísindaleg fræðslustofnun, en ekki er þess getið, sem er í 1. gr. laga um Háskóla Íslands, að hann skuli einnig vera vísindaleg rannsóknastofnun. Þess vegna hafa risið nokkrar umræður um hvort íslensk tunga búi yfir orði um þess konar háskóla sem hefur kennsluhlutverkið en ekki rannsóknahlutverkið sem þó er eða á að vera stór hluti þess hlutverks sem háskóli hefur.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé atriði sem muni koma. Þess vegna legg ég ekki til að Háskólinn á Akureyri hafi annað heiti, en mér þykir nauðsynlegt að undirstrika að ég geng út frá því að rannsóknahlutverkið muni koma til innan tíðar. Á það hefur verið bent að það kunni að vera skynsamlegt að setja á fót ýmiss konar rannsóknastarfsemi sem tengist Háskólanum á Akureyri. Því hefur ekki enn þá verið komið á fót. Það er skiljanlegt að slíkt sé ekki tilbúið allt í einu. Og segja má að ekki sé óeðlilegt að farið sé á stað með fræðsluhlutverkið eingöngu. En ég hefði gjarnan viljað sjá undirstrikað að gert væri ráð fyrir rannsóknahlutverkinu þó að menn teldu að ekki væri aðstaða til þess enn þá að öllu leyti.

Þetta var ástæðan fyrir því að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara því að ég held að rannsóknahlutverkið verði að koma til til þess að við getum gert sömu kröfur til Háskólans á Akureyri í þeim greinum sem þar eru kenndar og til sambærilegra greina sem kenndar eru í Háskóla Íslands eða háskólum erlendis ef Íslendingar sæktu slíkt nám þar eða í þeim tilvikum sem svo stendur á.

Þetta vildi ég taka fram, en fylgi hins vegar frv.