26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6818 í B-deild Alþingistíðinda. (4746)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka menntmn. hv. deildar fyrir vel unnin störf að frv. og þann stuðning sem þetta mál hefur fengið hjá nefndinni.

Eins og fram kom í máli hv. 18. þm. Reykv. er þróunin nokkuð ör í háskólamálum á Íslandi. Það var til skamms tíma svo að Háskóli Íslands var eini skólinn sem var raunverulegur háskóli, þ.e. bauð upp á menntun eftir stúdentspróf. Þeim skólum hefur fjölgað allört á undanförnum árum. Nú fer fram kennsla á háskólastigi ekki aðeins í Háskóla Íslands heldur í listaskólum okkar, eins og Tónlistarskólanum í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskólanum og í Leiklistarskólanum. Þá fer fram kennsla á háskólastigi í Tækniskóla Íslands, í Verslunarskólanum þar sem er um að ræða tölvufræði. Háskólakennsla mun hefjast innan skamms í Samvinnuskólanum og háskólakennsla fer fram í bændaskólum okkar, t.d. á Hólum í Hjaltadal.

Þessi þróun hefur verið nokkuð ör. Ég get fallist á það sjónarmið að nauðsynlegt sé að huga nánar að þessu skólastigi. Við megum hins vegar gæta okkar, því að þetta orð „heilsteypt“ skólastefna er alltaf dálítið hættulegt orð. Ef við ætlum að steypa eitthvað í einhverja heild vill hættan oft verða sú að svigrúmið verði ekki nægilegt, menn séu steyptir of mikið inn t einhverja heild og þess vegna geti þróunin ekki orðið í samræmi við þarfirnar.

Ég hef hins vegar sett á stofn svokallaða samstarfsnefnd háskólastigsins, en í henni eiga sæti fulltrúar frá öllum þeim skólum sem nú eru með kennslu á háskólastigi. og ég taldi upp áðan. Ég hef óskað eftir því við þessa nefnd að fyrsta verkefni hennar verði að búa til eða gera frv. að rammalöggjöf um nám á háskólastigi. Það nám getur verið með ýmsum hætti. Það getur verið hið hefðbundna akademíska nám eða það getur verið starfsnám á háskólastigi. En ég vara dálítið við því að menn festi sig of mikið í skilgreiningar í þessu efni.

Ég vil sérstaklega vitna í álitsgerð sem Haraldur Bessason, forstöðumaður háskólakennslu á Akureyri, sendi menntmn. Ed. og birtist með nál. þeirrar nefndar á þskj. 710 þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir þessu máli og orðar á skýrari hátt en ég hef séð hjá flestum öðrum þá þróun sem er að gerast og hvernig hún getur aðlagast íslensku þjóðfélagi. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í þessa álitsgerð. Hann segir:

„Í álitsgerð Bandalags háskólamanna er látið að því liggja að Háskóli Íslands veiti almenna akademíska menntun frekar en sérmenntun. Þetta er vitaskuld ekki alls kostar rétt þar sem Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið að verulegu leyti safn sérskóla (deilda) og mjög ótítt að stúdentar stundi nám í fleiri en einum slíkum skóla (deild) samtímis. Í öðrum álitsgerðum gætir ámóta misskilnings.

Þá hillir undir þau sjónarmið í álitsgerð Bandalags háskólamanna að skarpan greinarmun beri að gera milli akademískrar menntunar annars vegar og verklegra mennta (verkmenntunar) hins vegar. Hér er því til að svara að háskólanám er ávallt með þeim hætti að höfuðáhersla er lögð á það að þjálfa stúdenta í vísindalegri hugsun og vísindalegum vinnubrögðum. Skiptir engu máli hvort um er að ræða greiningu bókmenntatexta eða athuganir á sjávarútvegi.

Sé þetta haft í huga verður markalínan milli akademískra fræða og verkmenntunar ekki einungis óglögg, heldur hverfur hún með öllu. Ber jafnan að gjalda varhug við þeirri tvískiptingu háskólafræða sem í ofangreindum álitsgerðum er talin óyggjandi. Ónákvæm orðanotkun leiðir gjarnan til óskýrrar hugsunar og ekki fjarri lagi að dæmi þessa sé að finna í álitsgerð Bandalags háskólamanna sem og í öðrum þeim álitsgerðum um frv. til laga um Háskólann á Akureyri sem menntmn. Ed. Alþingis hafa borist. Er þó síður en svo verið að varpa rýrð á það fólk sem hér hefur að unnið.

Nauðsynlegt er að fólk geri sér fulla grein fyrir því að íslenskir atvinnuvegir eru óaðskiljanlegir íslenskri menningu og að íslensk tunga á sér djúpar rætur við sjávarsíðuna og í sveitum landsins. Að þessu leyti dugir ekki að ætla að íslensk viðhorf til æðri menntastofnana þjóðarinnar séu þau hin sömu eins og tíðkast í háþróuðum iðnríkjum Evrópu og Norður-Ameríku þar sem segja má að ávallt hafi staðið skilveggur milli atvinnuvega og andlegrar menningar. Er ensk tunga e.t.v. gleggsta dæmið um þetta og má rétt nefna að enskir togarasjómenn og iðnverkamenn eiga langt í land með að öðlast þann þegnrétt í heimalandi sínu sem tungan ein veitir. Um Íslendinga gegnir öðru máli, enda ber þeim að fara með allri gát meðal þeirra staðhæfinga að háskólafræðsla um íslenska atvinnuvegi eða rannsóknir á þeim séu í eðli sínu óakademísk verkmennt. Er hér komið að þeim kjarna sem því miður er látinn óræddur í öllum álitsgerðum.

Þess gerist ekki þörf að þýða eitthvert erlent heiti sem henti æðri menntastofnun á Akureyri betur heldur en orðið háskóli. Höfuðmáli skiptir að við Háskólann á Akureyri má nú þegar greina mótun ákveðinnar stefnu, en skólinn mun leitast við að fara nýjar leiðir og nema ný lönd. Hann mun hvergi slaka á kröfum né heldur una þeim dómi að innan veggja hans sé stunduð einhvers konar óakademísk iðja. Afstöðu hans til Háskóla Íslands þarf ekki að skilgreina nánar á þessu stigi málsins. Hins vegar ber háskólanum að leita þess í hvívetna á sviði kennslu og vísinda að efla skynsamleg tengsl við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir, bæði innlendar og erlendar.“

Þetta var hluti úr álitsgerð Haralds Bessasonar og eins og ég sagði áðan finnst mér hún lýsa nokkuð vel hvernig íslenskir háskólar geta lagast og hafa lagast að íslensku atvinnulífi og jafnframt viss varnaðarorð í því að við séum ekki of stíf á meiningunni varðandi skiptingu háskólamenntunar annars vegar í akademíska menntun og hins vegar í verkmenntun.

Ég er sannfærður um að við Háskólann á Akureyri mun fara fram vísindaleg rannsóknastarfsemi þegar fram líða stundir. Þess vegna get ég fullkomlega tekið undir þau orð sem hv. 3. þm. Reykv. sagði og skil fyllilega hennar fyrirvara.

Það var hins vegar álit mitt að það væri rétt að fara varlega af stað. Rannsóknastarfsemi er dýr, hún kostar mikið fjármagn og þessi litla þjóð verður að gæta þess að dreifa ekki kröftunum um of á því sviði. En ég er sannfærður um að þetta mun gerast. Háskólinn á Akureyri mun taka upp rannsóknastarfsemi, enda er gert ráð fyrir því á öðrum stöðum í frv. að það geti gerst þó það sé ekki fólgið í skilgreiningu Háskólans á Akureyri að hann sé rannsóknastofnun.

Þetta finnst mér rétt að komi fram. Háskólinn á Akureyri er auðvitað ekki fullskapaður, hann hlýtur að skapast í tímans rás og þess vegna er einmitt gert ráð fyrir að þessi lög verði endurskoðuð. Þessi lög eru engin hrákasmíði eins og fulltrúi Kvennalistans orðaði hér. Þetta eru lög sem fela í sér varfærnislega byrjun á háskólastarfsemi á Akureyri sem mun þróast íslenskri menntastefnu til blessunar í framtíðinni.

Ég fagna því sérstaklega að það skuli vera kominn upp háskóli á Norðurlandi. Ég tel að það sé eitt mikilvægasta málið í okkar byggðamálum að færa menntunina í ríkum mæli út til fólksins í hinum dreifðu byggðum án þess þó að slaka nokkurs staðar á í gæðakröfum.