26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6828 í B-deild Alþingistíðinda. (4756)

Frumvarp um viðskiptabanka

Forseti (Jón Kristjánsson):

Varðandi orð hv. 2. þm. Austurl. um skýringar á því í hvaða röð mál eru tekin fyrir hér, þá eru þær skýringar einfaldar. Hæstv. viðskrh. hafði beðið um með löngum fyrirvara að fá að tala fyrir þessum málum við 1. umr. í dag, en það háttar þannig til að hann þarf að víkja af fundi um stund vegna embættisskyldu og ég tók það til greina að hann fengi að tala fyrir þessu máli, en umræðunni yrði haldið áfram síðar eins og algengt er. Það er skýringin á því. Þegar þessum umræðum um þingsköp lýkur verður tekið til við mál í þeirri röð sem á dagskránni er og vona ég að það geti orðið innan tíðar.