26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6835 í B-deild Alþingistíðinda. (4765)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Eitt af því sem eykur virðingu Alþingis og þm. á erlendum vettvangi er hollusta þeirra hvers gagnvart öðrum. Ég fagna því að hv. 3. þm. Reykv. vinnur nú að þessari margfrægu norður-suður-aðstoð. Mér finnst hins vegar að það hefði mátt koma fram í máli hennar að þetta mikla verk er tilkomið vegna tillögu Ólafs Ragnars Grímssonar, núverandi formanns Alþb., á fundi Evrópuráðsins að ég held í Lissabon í Portúgal fyrir nokkrum árum. Þetta vil ég að þingheimur viti, hafi hann gleymt því. Einhverjum kann að finnast þetta lítilvægt atriði en ég tel það mjög skemmtileg vinnubrögð að við íslenskir þm. sem vinnum saman á erlendum vettvangi sýnum hverjir öðrum þá virðingu að geta þess sem vel er gert. Ég er ekki að bera hv. 3. þm. Reykv. það á brýn að hún hafi vísvitandi leynt þessu heldur kannski gleymt að geta þess sem rétt er.

Herra forseti. Ég verð hins vegar að lýsa undrun minni. Hér eru tvö stór mál á ferðinni í hv. Nd., annars vegar frv. til l. um viðskiptabanka og síðan frv. til l. um breytingu á lögum um hvorki meira né minna en Alþjóðabankann. Hæstv. ráðherra má ekki vera að því að hlýða á hvað þm. hafa að segja um þessi mál. Það er ekki að undra þó að ríkisstjórninni sé mikið mál að losna við okkur héðan. Ég held að við forsetar þingsins hljótum að ræða um það hvort þm. eiga orðið rétt á að tala við þá menn sem við höfum sjálf sett í að framkvæma það sem þingið ákveður eða hvort þetta er leikur einn.

Það hlýtur að vera hægt að komast að því með einhverjum fyrirvara hvenær hæstv. ráðherra þarf að undirrita reikninga — ef ég heyrði rétt hjá hv. 5. þm. Reykv.— úti í Seðlabanka eða hvenær hann má vera að því að vera hér. Það er gjörsamlega óþolandi að við fáum ekki tækifæri til að lýsa skoðunum okkar varðandi mál af þessari stærðargráðu.

Ég vildi fara þess á leit við virðulegan forseta að frá því sé gengið að þeir hæstv. ráðherrar, sem eins og hér má sjá eru nú ósýnilegir með öllu, geti verið hér þegar mál þeirra eru hér á dagskrá. Það er alveg ljóst að framhald umræðu um viðskiptabanka er eins vís til að fara fram án nærveru hæstv. viðskrh. og það er ákaflega takmarkað gagn að slíkri umræðu.

Auðvitað þurfum við hér að skiptast á skoðunum og hlýða hvert á annað ef eitthvað á að fara hér fram í líkingu við lýðræði og þingræði sem að vísu hv. 14. þm. Reykv. fullyrti í gær að ég væri hér til þess að rífa niður. Það er nú eitthvað annað. Ég vil biðja forseta þingsins að fylgjast grannt með því það sem eftir lifir þings hvort hæstv. ráðherrar mega ekki vera að því að vera hér á meðan helstu mál sem þeir eiga að fjalla um eru hér til umræðu.