26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6844 í B-deild Alþingistíðinda. (4771)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. félmn. um frv. til laga um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, með síðari breytingum, sem er á þskj. 887.

Núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins miða nær eingöngu við að fólk eignist það húsnæði sem það býr í. Aðrir valkostir bjóðast varla. Alls staðar vantar leiguíbúðir og víða um landið hefur skortur á leiguhúsnæði m.a. verið talinn standa í vegi fyrir eðlilegri þróun byggðar og atvinnulífs.

Í könnun, sem gerð var á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins í kjölfar samninga aðila vinnumarkaðarins, kemur þetta m.a. fram. Í bæklingi, sem gefinn var út í sambandi við leiguíbúðakönnunina í nóvember 1986, kemur m.a. fram að frá árinu 1986 fram til ársins 1990 vanti 2500–3000 leiguíbúðir. Það er því fyllilega tímabært að opna nýjar leiðir í húsnæðismálum landsmanna, m.a. með því að auka framboð á leiguhúsnæði. Kvennalistinn hefur einnig ítrekað bent á þetta og hafa þingkonur Kvennalistans flutt tillögur á síðasta kjörtímabili um sérstakt átak til byggingar leiguhúsnæðis.

Fjöldi fólks á nú í miklum erfiðleikum vegna íbúðakaupa og má segja að launafólk eigi vart möguleika á að koma sér upp þaki yfir höfuðið á þeim kjörum sem bjóðast. Sífelldar breytingar á húsnæðislánakerfinu á undanförnum árum hafa valdið miklu óöryggi þannig að fólk veit varla við hverju það má búast frá ári til árs af hálfu hins opinbera.

Í kjölfar samninga aðila vinnumarkaðarins vorið 1986 voru samþykktar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Aðalbreytingin á lögunum þá var að réttur fólks til lána var tengdur kaupum lífeyrissjóðs umsækjenda á skuldabréfum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Einnig var gert ráð fyrir að hægt væri að fá lán fyrir allt að 70% af verði íbúðar af hóflegri stærð.

Margt fólk batt miklar vonir við þetta nýja kerfi og margir bjuggust við að nú væri húsnæðisvandinn leystur. Það gleymdist bara eitt: Það þarf peninga til að hægt sé að veita lán.

Annar stór galli og mjög alvarlegur var að ekki var á neinn hátt tekið á félagslega þætti íbúðarlánakerfisins né öðrum þáttum, svo sem leiguíbúðum, íbúðum með búseturétti og kaupleigukerfi.

Í kjölfar þessa var skipuð milliþinganefnd sem að vísu starfaði miklu lengur en til næsta þings og átti að endurskoða þennan þátt húsnæðislánakerfisins, þ.e. fyrst og fremst félagslega þáttinn. En það gekk ekki eins og öllum er kunnugt og var þar fyrst og fremst um að kenna áhugaleysi og viljaleysi sumra þeirra þingmanna sem studdu þáv. ríkisstjórn.

Nú er ekki heldur tekið á öllum þáttum félagslega íbúðalánakerfisins, það er verulegur hluti skilinn eftir. En strax eftir að lögin tóku gildi þann 1. sept. 1986 streymdu inn umsóknir til Húsnæðisstofnunar. Stór hópur fólks, sérstaklega ungt fólk sem hafði beðið átekta eftir að rofaði til í húsnæðismálum, eygði nú möguleika á að kljúfa kaup á húsnæði. Einnig voru þeir, og eru þeir eflaust margir enn, sem vildu nota tækifærið til að stækka við sig og sækja um lán og einnig voru einhverjir sem sóttu um lán kannski án þess að þeir þyrftu mikið á því að halda vegna þess að lánin voru bæði há og hagstæð og stóðu öllum til boða. Margir urðu til að vara við því sem við blasti þá strax, að Byggingarsjóður ríkisins yrði fljótlega gjaldþrota ef ekkert yrði að gert.

Nú er svo komið að ekki er hægt að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er eftir lánum til íbúðakaupa. Þetta hefur leitt til þess að bið eftir lánum er orðin mjög löng. Nú þurfa þeir sem eru í forgangshópi að bíða a.m.k. tvö ár frá því sótt er um þangað til að þeir fá fyrri hluta lánsins og þeir sem eru í víkjandi hópi þurfa að bíða a.m.k. þrjú ár. Ef ekkert verður að gert stefnir í enn þá lengri biðtíma eftir þessum lánum eða þá að það verður að lækka lánsupphæðir eða þá beinlínis að synja fleirum.

Fyrr í vetur voru samþykktar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins til að reyna að fækka í þeim hópi sem rétt áttu á láni skv. þágildandi lögum en ekki er réttlætanlegt að njóti þeirrar fyrirgreiðslu sem lán frá Húsnæðisstofnun eru.

Því miður hefur ekki orðið nein merkjanleg breyting á ástandinu eftir samþykkt breytinganna á lögunum í vetur þótt margir teldu að þær mundu hafa veruleg áhrif. Yfirlýsingar og taugastrekkingur í tengslum við þær lagabreytingar gáfu mörgum tilefni til að ætla að eitthvað mikið mundi fylgja í kjölfar samþykktar þeirra.

Á þessu ári er ætlað að verja 263 millj. kr. í félagslegar kaupleiguíbúðir hjá Byggingarsjóði verkamanna, en skv. fjárlögum eða lánsfjárlögum hefur ekki verið gert ráð fyrir að verja neinu fé í almennar kaupleiguíbúðir. Þá er athyglisvert að ekki liggur fyrir neitt um það hve mikið af því fé, sem ætlað er að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi til ráðstöfunar á næstu árum, fari í kaupleiguíbúðir. Fjármögnun þessara nýju lánaflokka er því í mikilli óvissu. Látið er að því liggja að fjármagn verði tekið af fé til annarra lánaflokka Húsnæðisstofnunar og sett í kaupleiguíbúðir. Þetta getur leitt til enn meira öngþveitis og óvissu í húsnæðismálum.

Eins og ég sagði við 1. umr. málsins er meginhugmyndin jákvæð að baki frv. sem hér er til umræðu. Kaupleiguíbúðir ættu að henta flestu fólki mjög vei. Fastar hóflegar mánaðargreiðslur hljóta að vera það sem við öll viljum að fólki standi til boða, hvort sem það heitir að leigja eða kaupa smám saman. Einnig er mikilvægt að fólki sé tryggður búseturéttur í íbúð en þurfi ekki sífellt að flytja með stuttum fyrirvara eins og nú gildir á leigumarkaðnum. En margir óvissuþættir eru enn varðandi frv. og tengsl þess við aðra þætti húsnæðismála, sérstaklega félagslega þáttinn.

Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, Landssamtökin Þroskahjálp, Samtök aldraðra, stúdentaráð Háskóla Íslands, Bandalag ísl. sérskólanema, Leigjendasamtökin og Búseti hafa myndað með sér samstarf um húsnæðismál. Samtökin sendu sameiginlega athugasemd við frv. og er sú umsögn birt sem fylgiskjal við álit meiri hl. félmn. og geta þingmenn kynnt sér hana betur í því nál. En ég vil, með leyfi forseta, lesa örlítið úr þessu áliti. Þar segir:

„Samtökin átta komu ábendingum um væntanlegt frv. um kaupleiguíbúðir á framfæri til félmrn. dags. 26. ágúst 1987. Í framhaldi af kynningarfundi með samtökunum 26. nóv. sl. voru gerðar ákveðnar athugasemdir, sjá bréf dags. 4. des. sl. Ljóst er af framlögðu frv. að mjög lítið tillit hefur verið tekið til ábendinga og athugasemda frá þessum samtökum sem eru í forsvari fyrir leigjendur, öryrkja, námsmenn og aldraða.

Þó ber að fagna þessu frv., en samþykkt þess mun væntanlega auka framboð á leiguhúsnæði með hlutareign og kaupum sem valkostum. Í stað skiptingar í félagslega og almenna kaupleigu virðist þó eðlilegra að hafa eitt kaupleigukerfi þar sem tekið væri mið af mismunandi greiðslugetu íbúa með mismunandi vöxtum og mismunandi afborgunartíma lána.“

Ég vil einnig, með leyfi forseta, lesa úr séráliti sem Öryrkjabandalag Íslands sendi, en þar segir: „Hins vegar skal það nokkuð dregið í efa að frv. nái þeim tilgangi“ — Þá er verið að ræða um bæði þetta frv. og frv. sem er 329. mál. — „er þau eru sögð stefna að eða leiði til réttrar lausnar, heildarlausnar, svo sem vera þyrfti.“

Þarna bendir Öryrkjabandalagið á að það telji ekki að þetta frv. geti komið skjólstæðingum þess til góða.

Síðan langar mig að vitna í umsögn Bandalags ísl. sérskólanema, en þar segir, með leyfi forseta: „Kaupleigukerfið, eins og það er útfært í þessu frv., kemur ekki til með að koma að neinu gagni fyrir Bandalag ísl. sérskólanema við að koma upp leiguhúsnæði fyrir námsmenn meðan á námstíma stendur.“

Og í umsögn húsnæðissamvinnufélagsins Búseta segir, með leyfi forseta: „Búseta voru svo kynnt drög að frv. um kaupleiguíbúðir 26. nóv. sl. Kom þá í ljós að lítið tillit hafði verið tekið til Búseta. Félagið gerði ítarlegar athugasemdir með bréfi dags. 1. des. sl. með það í huga að vinnsla við frv. væri á lokastigi, en þegar það sá dagsins ljós var það orðið enn óaðgengilegra fyrir Búseta og ekkert tillit hafði verið tekið til athugasemda félagsins.

Um frv. í heild er þetta að segja: Það ber að fagna markmiði frv. að auka framboð á leiguhúsnæði. Hins vegar vill Búseti draga í efa gildi þess valkosts að gera leiguíbúðir að eignaríbúðum og gera þetta kerfi þar með mjög áþekkt verkamannabústaðakerfinu sem með miklum rétti getur kallast kaupleigukerfi.“

Það er því ljóst að þessir hópar telja þetta kerfi ekki lausn fyrir sig. Vel má vera að hægt hefði verið með breytingum og aðlögunum að samræma ólík sjónarmið og hugmyndir ef tími hefði unnist til þess.

Aðrar umsagnir eru einnig jákvæðar. Ég lít á þessar umsagnir sem jákvæðar þó að þær mæli ekki endilega með því fyrir sinn hóp. Aðrar umsagnir eru einnig jákvæðar gagnvart hugmyndinni eins og þingmenn geta kynnt sér í nál. meiri hl. Sumir telja að samþykkja eigi frv. nú, en aðrir telja að ekki sé rétt að taka þennan eina þátt húsnæðismála til afgreiðslu meðan yfir stendur starf að heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni.

Engin umsögn um frv. barst nefndinni frá Húsnæðisstofnun ríkisins né heldur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þ.e. ekki áður en frv. var afgreitt frá nefndinni.

Eftir hádegi í gær barst umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um frv. Í þeirri umsögn er mælt með samþykkt frv., tekið jákvætt undir það, þó með ýmsum breytingum. Þær brtt. hefur því félmn. ekki haft tækifæri til að kynna sér nánar. En mér sýnist að þær séu flestar til bóta þó að margar þeirra séu þó þess eðlis að það verði að skoða þær mjög náið því að sumar hverjar ganga á rétt leigutaka að því er mér sýnist þannig að það verður að skoða vel allar breytingar. Það verður að hugsa bæði um þá sem búa í húsnæðinu svo og þá sem taka að sér að byggja, svo sem sveitarfélögin. En þeir benda á það atriði í sinni umsögn, sem ég hef haft áhyggjur af, að þessi kostur sé ekki fýsilegur fyrir sveitarfélögin. Ég er ekki heldur alveg viss um að það verði til að auka mjög á íbúðabyggingar á landsbyggðinni sem ég tel þó mjög nauðsynlegt að verði gert. Eins og ég sagði áðan hefur verið mjög mikill skortur á leiguíbúðum og íbúðarhúsnæði yfirleitt úti á landsbyggðinni og víða hefur það jafnvel staðið atvinnuástandi fyrir þrifum.

Það er mjög slæmt að félmn. þurfi að afgreiða frv. með svo miklum flýti sem raun ber vitni og geti ekki einu sinni kallað fyrir sig þá sem sömdu frv. né heldur þá sem eiga að sjá um framkvæmd laganna, hvað þá heldur aðra sem æskilegt hefði verið að ráðfæra sig við.

Í janúar sl. var skipaður vinnuhópur til að gera tillögur um framtíðarskipan húsnæðislánakerfisins og til að leggja mat á stöðu núverandi kerfis. Í álitsgerð hópsins til félmrh. frá 23. mars 1988 kemur m.a. fram að núverandi lánakerfi valdi ekki hlutverki sínu. Í framhaldi af þessu hefur verið boðað að endurskoðun eigi að fara fram á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins strax á þessu ári. Það verður því að teljast mjög eðlilegt að þetta frv. ásamt athugasemdum og tillögum til breytinga verði tekið inn í heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni sem boðuð hefur verið.

Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir hvernig kaupleigukerfið muni virka við hlið þess sem nú er í gildi. Hve miklu á t.d. að verja á næsta ári í kaupleiguíbúðir? Eru það 500 millj. kr. eða 1000 millj. kr.? Ef það væru 1000 millj. kr. væri það um það bil 1/5 af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins. Eða eru einhver önnur áform uppi? Eða er ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja aukafjármagn í þetta kerfi? Ef ætlunin er að taka fé af almenna kerfinu, hve mikil áhrif mun það hafa á biðtíma þeirra sem nú bíða eftir að fá lán frá Húsnæðisstofnun? Ég tel mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir fjármögnunarþættinum þegar nýtt húsnæðislánaform er tekið upp eins og hér er gert ráð fyrir. Þetta verður að telja enn mikilvægara í ljósi þeirrar óvissu sem þessi mál eru í núna.

Ég held að margir bindi miklar vonir við kaupleiguformið og haldi að það sé lausn á öllum vanda í húsnæðismálum. En það er alveg sama hve gott kerfi við búum við eða viljum koma á. Ef ekki fæst til þess fjármagn getur það ekki valdið hlutverki sínu.

Kvennalistinn leggur áherslu á nauðsyn þess að endurskoða húsnæðislánakerfið í heild, m.a. með það að markmiði að auka framboð á leiguhúsnæði, félagslegum íbúðum og íbúðum með búseturéttarfyrirkomulagi. Ég ítreka að meginhugmyndin að baki frv. er jákvæð, en ég tel ekki tímabært að koma á nýju kerfi við hlið þess sem fyrir er án þess að heildarstefna sé mótuð og án þess að fjármagn til þess sé tryggt. Það getur ekki skipt sköpum þó þetta frv. sé sett inn í heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni og taki gildi með haustinu ásamt öðrum breytingum. Varla þarf ríkisstjórnin að óttast að ekki verði vilji til að vinna hratt og örugglega að þessum málum. Alla vega erum við kvennalistakonur boðnar og búnar til að vinna að þessum málum í sumar með það að markmiði að leggja fram heilsteypta löggjöf þar sem framtíðarstefna um kaupleiguíbúðir verði einnig mörkuð.

Miðað við þær jákvæðu undirtektir sem hugmyndin um kaupleiguíbúðir fær innan þingsins held ég að félmrh. þurfi ekki að óttast að hugmyndin verði drepin. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. félmn. hafa formenn stjórnarflokkanna ákveðið hvernig þingmenn stjórnarflokkanna eiga að greiða atkvæði. Þó ég skilji ekki alveg hvers konar vinnubrögð eru viðhöfð í stjórnarflokkunum getur varla skipt máli fyrir formenn eða þingmenn þeirra hvenær þeir greiða þessu atkvæði, nú í vor eða í haust. Ef málinu væri frestað til haustsins yrðu meiri líkur á að tengja kaupleiguformið öðrum þáttum húsnæðismála og þar með ættu að vera meiri líkur á að hægt væri að taka meira tillit til sjónarmiða þeirra sem hafa gert athugasemdir við frv.

Með vísun til þess sem hér hefur verið sagt leggur 1. minni hl. til að þeir aðilar sem til þess verða kvaddir að endurskoða húsnæðislöggjöfina marki einnig framtíðarstefnu um kaupleiguíbúðir og málinu verði með það í huga vísað til ríkisstjórnarinnar.