26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6850 í B-deild Alþingistíðinda. (4773)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt við frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þessar tillögur eru prentaðar á þskj. 894 og lúta að tveimur efnisatriðum sem ég mun gera nánar grein fyrir á eftir. En fyrst vil ég almennt um þetta frv. til l. um kaupleiguíbúðir, sem hér er til umræðu, rifja upp nokkuð af því sem ég sagði við 1. umr. málsins og stendur enn í fullu gildi að mínu mati. Ég tel reyndar að þeir fyrirvarar, sem ég þá lýsti, hafi í raun komið fram og hlotið rökstuðning að verulegu leyti í þeim umsögnum sem borist hafa um frv.

Fyrst og fremst dró ég í efa og geri enn að málið sem slíkt nái tilgangi sínum, verði að því framfaraspori í okkar húsnæðismálum, sem að er stefnt og flestir væntanlega gjarnan vilja sjá, að hér fari af stað öflug hreyfing og nýtt húsnæði komi til í náinni framtíð undir þessu formi. Efasemdir mínar lutu ekki síst að því að eins og frá málinu er gengið í frv. þessu er gert ráð fyrir því að framkvæmdaaðilar svonefndir leggi af mörkum umtalsverðan hlut af fjármögnun íbúðabygginganna. Nú er það svo að ekki síst sveitarfélögin í landinu hafa rennt hýru auga til þessa kaupleiguforms og gert sér vonir um að þar kæmi hagstæður viðbótarkostur við þá möguleika sem fyrir hendi eru í hinu félagslega íbúðakerfi. Er það mjög eðlilegt og skiljanlegt að sveitarfélögin, sveitarstjórnarmenn, sem finna í sínum störfum húsnæðisvandann brenna á sér, bindi vonir við það eina nýtt sem menn hafa fram að færa eða er um að ræða til lausnar þeim húsnæðisvandamálum sem víða er við að glíma. En jafneðlilegar og þessar væntingar sveitarfélaganna eru er jafnljóst að staða þeirra er mjög mismunandi til að leggja sinn hlut af mörkum og koma hér á þeirri uppbyggingu undir þessu formi eða öðru sem mikil þörf er á.

Frv. gerir ráð fyrir að svonefndir framkvæmdaaðilar sjái fyrir útvegun a.m.k. 15% af því fjármagni sem þarf til uppbyggingar íbúðanna eða kaupa þeirra hverju sinni. Ég leyfi mér að fullyrða að þó að 15% líti við fyrstu sýn ekki út fyrir að vera óyfirstíganlegur hjalli í þessum efnum verðum við samt að hafa í huga að væri um umtalsverðar framkvæmdir að ræða, t.a.m. í litlum sveitarfélögum, þarf sveitarfélagið í hverju tilfelli við byggingu á hverri nýrri íbúð að sjá fyrir útvegun verulegra peninga sem skipta hundruðum þúsunda, jafnvel allt að 1 millj. kr. ef um dýrar íbúðabyggingar er að ræða. Það er einfaldlega biti sem sveitarfélög, jafnvel með nánast ekkert framkvæmdafé, hrista ekki fram úr erminni. Því miður er staðan þannig víða úti um landið að sveitarfélögin, jafnvel býsna stór sveitarfélög, hafa nánast ekkert framkvæmdafé þegar búið er að greiða bundinn rekstur og lögbundna þjónustu sem sveitarfélögunum er skylt að inna af höndum. Þessar staðreyndir er nauðsynlegt að hafa í huga þegar menn ræða þá útfærslu kaupleigukerfisins og þau hlutföll sem hér er lagt til að binda í lögum.

Nú vil ég taka skýrt fram að þegar menn ræða um hlutina með þeim hætti sem menn gera hér má ekki misskilja það sem sérstaka andstöðu við þetta húsnæðisform, þó að maður velti upp þessum staðreyndum. Ég óttast því mjög, herra forseti, að þeim sveitarfélögum sem í mörgum tilfellum ríður mest á að leysa húsnæðisvandamálin í sínum byggðum mundi reynast erfitt um vik að nýta sér þetta kerfi í einhverjum umtalsverðum mæli og þá gæti dregið til þess að fyrst og fremst best stæðu sveitarfélögin hefðu burði eða möguleika til að ganga inn í þetta kerfi. Það eru ekki þau sem við þurfum að hafa mestar áhyggjur af í þessum tilfellum því ætli það fari ekki með tiltölulega fáum undantekningum saman að þau sveitarfélög þar sem mest hefur verið byggt undanfarin ár og er byggt nú séu jafnframt þau best stæðu af þeirri einföldu ástæðu að þar er bati í efnahagslífinu og uppgangur og þensla og það kemur fram m.a. í miklum íbúðabyggingum. Hins vegar vantar sárlega húsnæði víða um landið og ekki síst húsnæði á einhvers konar leigukjörum þó að viðkomandi sveitarfélög berjist í bökkum.

Í beinu framhaldi af þessum hluta ræðu minnar, herra forseti, vek ég athygli á því að annar hluti brtt. minna á þskj. 894 lýtur einmitt að þessu atriði og kem ég að því síðar.

Hitt sem ég tel að í frv. sé ekki nógu vel frá gengið varðar aðgengi ýmissa félagasamtaka að hinum félagslegu kaupleiguíbúðum. Niðurstaðan í frv. hefur orðið sú, eins og menn sjá ef plaggið er grannt skoðað, að sá er m.a. eðlismunur á annars vegar almennu kaupleiguíbúðunum og hins vegar þeim félagslegu, sem lána skal til úr Byggingarsjóði verkamanna, að félagslegu kaupleiguíbúðirnar er ekki heimilt að leigja samfara kaupum á tilteknum eignarhlut. Ef menn taka sér frv. í hönd, þeir sem á annað borð hafa áhuga á því að fylgjast með þessu í smáatriðum, segir á bls. 3 í d-lið 36. gr. laganna sem verða skulu:

„Sá sem fengið hefur úthlutað almennri kaupleiguíbúð getur valið um leigu með kauprétti, leigu með kaupum á eignarhluta í íbúð eða kaup á íbúðinni.“

En þegar síðan eru skoðuð sambærileg ákvæði fyrir hinar félagslegu kaupleiguíbúðir, sem ég skal reyna að finna í bálki þessum, kemur í ljós að á bls. 8, g-lið, 91. gr. laganna sem verða skal, segir með leyfi forseta:

„Sá sem fengið hefur úthlutað félagslegri kaupleiguíbúð getur valið um leigu með kauprétti eða kaup.“

Hér vantar inn í það sem er heimilt í almenna kerfinu, að leigja einstaklingum samfara kaupum á tilteknum eignarhlut í íbúðinni. Innan Byggingarsjóðs verkamanna er sem sagt eingöngu heimilt annaðhvort eða í þessum efnum. Þetta tel ég vera mjög stóran galla á frv. og í raun og veru lítt skiljanlegan vegna þess að stórir hagsmunaaðilar, sem lýst hafa miklum áhuga í sambandi við þetta kaupleigukerfi, hafa lagt megináherslu á þetta tiltekna atriði. Eigi þeim að nýtast þetta form innan hins félagslega hluta húsnæðiskerfisins er alveg nauðsynlegt að það sé heimilt þessum aðilum að leigja fólki íbúðir samfara kaupum þeirra á tilteknum eignarhlut í íbúðinni sem síðan stæði fastur þann tíma sem viðkomandi hefði afnot af íbúðinni. Hér má nefna til aðila eins og Samtök aldraðra sem nota þetta form talsvert í sinni starfsemi, í sinni viðleitni til að skapa sínum félagsmönnum húsnæði og er augljóslega hagstæður kostur fyrir slík samtök að fá með þessum hætti almenna félagsmenn til að taka þátt í að reiða fram þann hluta kostnaðarins sem framkvæmdaaðilinn á að leggja til og brúa þannig bilið á móti þeim lánum sem koma úr Byggingarsjóðnum.

Nú kunna að vera, herra forseti, pólitískar ástæður fyrir því að frumvarpsskepnan lítur svo út sem raun ber vitni. Ég ætla ekki að hafa uppi neinar getgátur um það. En ég leyfi mér að segja að mér dettur það í hug að hæstv. félmrh. hefði kosið að hafa þetta einhvern veginn öðruvísi, miðað við feril hæstv. ráðherra í þessum málum undanfarin ár og framlag hæstv. félmrh. á þeirri tíð sem ráðherra var hv. þm. og lagði oft mikið til málanna í sambandi við húsnæðismál. Ég get ekki annað, herra forseti, en vitnað í þessu sambandi í nokkrar af umsögnunum sem birtar eru með nál. meiri hi. þar sem ýmsir aðilar, ekki síst þau samtök sem ég hef hér vitnað til, láta í ljós nokkra óánægju með að athugasemdum og tillögum þeirra í þessum efnum m.a. hafi ekki verið sinnt. Ég leyfi mér að vitna í umsögn Öryrkjabandalags Íslands, Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Samtaka aldraðra, stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bandalags ísl. sérskólanema, Leigjendasamtakanna og Búseta sem sameiginlega af öllum þessum aðilum var send félmn. Nd. Alþingis 29. mars sl. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ofangreind samtök, sem myndað hafa með sér samstarf um húsnæðismál, vilja með þessu bréfi gera sameiginlegar athugasemdir við frumvörp til laga um breytingar á húsnæðislögum, annað um kaupleiguíbúðir og hitt um lengingu lána.“

Svo segir um frv. um kaupleiguíbúðir, 301. mál þessa þings:

„Samtökin átta komu ábendingum um væntanlegt frv. um kaupleiguíbúðir á framfæri til félmrn., dags. 26. ágúst 1987. Í framhaldi af kynningarfundi með samtökunum 26. nóv. sl. voru gerðar ákveðnar athugasemdir, sjá bréf dags. 4. des. sl. Ljóst er af framlögðu frv. að mjög lítið tillit hefur verið tekið til ábendinga og athugasemda frá þessum samtökum sem eru í forsvari fyrir leigjendur, öryrkja, námsmenn og aldraða.“ — Ég endurtek, herra forseti: „sem eru í forsvari fyrir leigjendur, öryrkja, námsmenn og aldraða.“

Hér tel ég, því miður, að ekki hafi tekist til sem skyldi. Það er mín skoðun að ef væri hægt að ráðast á og leysa húsnæðisvandamál þeirra hópa sem nefnd samtök standa fyrir væri mikill sigur unninn í húsnæðismálum okkar Íslendinga. Og skyldi það ekki fara svo, herra forseti, að ef við næðum utan um vandamál þessara hópa yrði það sem eftir er í húsnæðismálunum allmiklu viðráðanlegra? Mér segir svo hugur. Mér segir svo hugur t.d., og ég hef reyndar sagt þetta hér áður og leiðist að þurfa að endurtaka það en læt mig hafa það, að ef menn réðust á og leystu húsnæðisvandamál námsmanna á framhaldsskóla- og háskólastigi t.d. í Reykjavík og á Akureyri og víðar og sæju sæmilega fyrir þeim hlutum mundi ástandið á leigumarkaðnum batna að miklum mun. Halda menn ekki að það hafi talsverð áhrif, auki þensluna og valdi uppsprengingu verðlags og öðru slíku þegar svona stórir hópar þurfa að leita sér á hverju ári að húsnæði, þúsundum saman? Væri betur búið að þessum hópum, meira framboð af tryggu húsnæði tengt þeirra samtökum í formi stúdentagarða eða annars slíks, yrði þá ekki rýmra um og heilbrigðara ástand á því sem eftir væri á leigumarkaðnum? Þetta hygg ég að segi sig nokkuð sjálft.

Sömuleiðis held ég að ef menn tækju þann kost og þá helst í nánu samráði við samtök aldraðra, sem er auðvitað geysistór og vaxandi hópur í þessu þjóðfélagi sem þarf á húsnæði að halda eins og aðrir, mætti bæta mikið ástandið á hinum almenna húsnæðismarkaði, m. a. með því að greiða fyrir því að eldra fólk, sem býr í húsnæði sem er orðið óþarflega stórt fyrir þess þarfir, ætti kost á að komast í minna og hagkvæmara húsnæði og því yrði gert kleift að hreyfa sig þar á milli.

Um þetta má lengi fjasa, en ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á þetta atriði, draga hér fram að maður hlýtur að harma að þessi samtök telja að svona hafi til tekist vegna þess að samstarf þessara aðila, sem er tiltölulega nýtt af nálinni og hefur ekki í raun staðið nema um nokkurra mánaða eða missira skeið, er að mínu mati eitt af því merkilegra sem gerst hefur í húsnæðismálum á undanförnum missirum. Það að þessi stóru heildarsamtök hafa náð saman og myndað með sér samtök og reynt að samræma sín sjónarmið og koma fram sameiginlega fyrir hönd þessara hópa er mjög merkilegt og gott framtak að mínu mati. Það væri vissulega æskilegt ef hægt væri að nýta þessa stöðu og hafa sem nánast samstarf við þessa aðila rétt eins og það hefur oft í gegnum tíðina skilað stóráföngum í okkar húsnæðismálum þegar til að mynda stjórnvöld og verkalýðshreyfing hafa náð höndum saman um átök á þessu sviði.

Herra forseti. Ég gæti margt fleira sagt bæði um kaupleigufrv. og ekki síður þó um ástand húsnæðismálanna almennt. Þar er við slík vandamál að glíma þar sem er jafnvægisleysi svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið, geysilegir fyrirsjáanlegir erfiðleikar byggingarsjóðanna, biðlistinn margfrægi og í raun ófremdarástand á okkar fasteignamarkaði hvort sem litið er á þenslu eða uppsprengt verð á höfuðborgarsvæðinu og svo algert verðfall og eignaupptöku þess fólks sem á húsnæði úti á landsbyggðinni. Allt ber þetta að sama brunni, sýnir okkur fram á það upplausnarástand og það mikla jafnvægisleysi sem við er að glíma í þessum efnum hér á landi. En það er ekki sérstök ástæða til, herra forseti, að fara í alla þá umræðu hér. Tímans vegna er rétt að hlífa sér við því og reyna að halda sig við það dagskrármál sem er sérstaklega á ferðinni. Ég tel þó rétt að nefna þetta í almennum orðum, líka vegna þess að sumir kunna að hafa bundið vonir við það, sem eru auðvitað óraunsæjar, að þetta tiltekna frv. og þær framkvæmdir sem af því gætu leitt leysi allan okkar vanda í þessum efnum. Svo er auðvitað ekki. Það hefur verið og er afstaða Alþb. að þetta geti orðið einn gagnlegur liður í því að ná utan um og leysa okkar húsnæðismál, Íslendinga. Þetta geti verið eitt form af mörgum sem eigi heima einkum og sér í lagi innan hins félagslega íbúðakerfis en eingöngu sem hluti af því og komi ekki í staðinn fyrir það sem þar er fyrir né leysi allan vanda.

Það er boðað og liggur fyrir að heildarendurskoðun á löggjöf um húsnæðismál er á dagskrá og er rétt að hafa það sérstaklega í huga þegar afstaða er tekin til frv. eða rætt um það að þó svo það verði hér lögfest með tilteknum hætti og tilteknum ákvæðum hlýtur það að fara, eins og aðrir hlutar gildandi laga, inn í þá heildarendurskoðun og breytir þar engu um þó þau ákvæði verði aðeins yngri í árum talið en uppistaðan í lögunum að öðru leyti. Þar skipta fáein ár til eða frá ekki máli. Ég lít svo á að sjálfsögðu að það sé ekki endilega verið að lögfesta kaupleiguákvæði í endanlegri mynd um langa framtíð þó svo að frv. sem hér liggur fyrir eða líkindi þess fari í gegn og verði að lögum. Þetta hygg ég að sé næsta sjálfgefið og hæstv. félmrh. er ugglaust tilbúinn að staðfesta að svo sé.

Herra forseti. Það gæti út af fyrir sig verið fróðlegt að fara yfir fleiri af þessum umsögnum. Þar kemur ýmislegt fram, að vísu má segja nokkuð mismunandi frá einum aðila til annars, en það sem þó má lesa út úr öllum, hygg ég, þessum umsögnum er að það eru almennt miklar áhyggjur af því ástandi sem er í okkar húsnæðismálum. Þær áhyggjur eru hins vegar af ýmsum toga og bera þess nokkur merki hvaðan menn koma að málunum, hvort menn eru af landsbyggðinni eða úr þéttbýlinu, hvort menn hafa einkum glímt við vandamálin frá sjónarhóli sveitarfélaga eða einhverra félagasamtaka o.s.frv.

Brtt. þær sem ég flyt á sérstöku þskj. lúta fyrst og fremst að þeim tveimur meginatriðum sem ég hef nokkuð ítarlega gert grein fyrir í mínu máli. Þrír fyrstu töluliðir brtt., við fyrri málsl. 4. mgr. b-liðar, við 1. mgr. d-liðar og við e-lið 89. gr., lúta að því að, eins og segir, með leyfi forseta, á þskj.: „Heimilt er að hækka hlutfall lána til félagslegra kaupleiguibúða úr Byggingarsjóði verkamanna í allt að 95% þegar í hlut eiga sveitarfélög með svo veikan fjárhag að sýnt þykir að þeim sé ókleift að hafa forgöngu um byggingu kaupleiguíbúða án sérstakrar aðstoðar.“

Ég hygg að væri heimildarákvæði af þessu tagi fyrir hendi í lögunum mundu menn gerast talsvert bjartsýnni á það, og í þeim hópi er flm., að með skynsamlegri beitingu þess, þ.e. heimildarákvæðisins, væri unnt út frá mismunandi aðstöðu sveitarfélaganna að jafna hana og taka tillit til stöðu þeirra og tryggja að þau stæðu sæmilega jafnt að vígi að nýta sér þetta kerfi hvort sem það verður gert í meira eða minna mæli almennt séð. Ég er auðvitað, herra forseti, og skal engin dul dregin á það, ekki síst að hugsa um ýmis sveitarfélög úti á landsbyggðinni, enda stendur það ræðumanni nærri. Ég er viss um að forráðamenn margra sveitarfélaga mundu telja geypilegan mun á því annars vegar að sjá fyrir útvegun 5% af kostnaðarverði nýrra íbúða sem framkvæmdaaðilar og hins vegar 15%. Mér er vel kunnugt um hver byrði núverandi endurkaupaskylda og fleiri kvaðir í sambandi við félagslega íbúðakerfið er þegar á ýmsum sveitarfélögum. Ég spái því, án þess að ég ætli að óska frv. eða kaupleigukerfinu á nokkurn hátt ills, að verði það lögfest í núverandi mynd muni forráðamenn sveitarfélaga vítt og breitt um landið, þrátt fyrir miklar væntingar, sem mér er vel kunnugt um, hafandi skoðað þetta og borið saman t.d. við ákvæðin um byggingu verkamannabústaða, hugsa sig um um stund en sækja síðan um verkamannabústaði af þeirri einföldu ástæðu að þar þurfa sveitarfélögin ekki að gerast fjárhagslega ábyrg og leggja fram eða reiða af höndum mikið fé. Þar er hægt að koma af stað íbúðabyggingum án þess að binda eða ráðstafa miklu fjármagni úr tómum sjóðum sveitarfélaga.

Þetta eru, herra forseti, því miður blákaldar staðreyndir sem ég held að við eigum að horfast í augu við og ræða í fullri hreinskilni og einlægni. Ég skora á hv. þm. að hugleiða hvort öll staða þessara mála, staða sveitarfélaganna, ástandið í húsnæðismálunum, sé ekki þess eðlis að það sé rétt að hafa slíkt heimildarákvæði inni í lögunum. Ég vek athygli á því og undirstrika að hér er flutt tillaga um heimildarákvæði. Það er ekki skylda, það er ekki kvöð, en það opnar þann möguleika að hægt sé að koma til móts við sveitarfélög sem ekki mundu ráða við þetta verkefni að öðrum kosti. Ég bið um einhver mjög sterk rök gegn því að hafa þetta ekki inni í lögunum ef menn ætla að fella brtt. Ég spyr þá: Hvers vegna má ekki hafa inni í þessum hluta húsnæðislaganna heimildarákvæði af þessu tagi eins og úir og grúir af í lögunum að öðru leyti? Ég minni á ákvæði í köflum um verkamannabústaði þar sem heimilt er að koma til móts við þá einstaklinga sem erfiðastan hafa fjárhaginn, hækka til þeirra lánshlutfallið og jafnvel lána þeim 100%, upp í topp, ef þeir eiga ekki handbært fé til að reiða af höndum þann litla kostnaðarhlut sem einstaklingunum er ætlað að sjá fyrir í því kerfi. Þar er húsnæðismálastjórn heimilt að lána viðkomandi, til skamms tíma að vísu, alveg 100% í þeim tilfellum sem ekki verður séð að þeir ráði við dæmið öðruvísi. Ég held að heimildarákvæði af þessu tagi til handa framkvæmdaaðilunum, sem yrðu væntanlega í þessu tilfelli eingöngu sveitarfélögin, væru fullkomlega í samræmi við þessi ákvæði hins félagslega hluta húsnæðislaganna að öðru leyti. Ég get rökstutt þetta ítarlegar ef menn vilja. Það er að vísu skaði að því að hér eru ekki ýkjamargir hv. alþm. af landsbyggðinni, en ég bið þá að hugsa hvern fyrir sig heim í sinn rann og velta því augnablik fyrir sér, ef þeir þekkja eitthvað til sveitarstjórnarmála á sínum svæðum, hvort þeir telji ekki að svona ákvæði mundi breyta talsverðu um möguleika í þeirra byggðarlögum til að koma kaupleigukerfi á laggirnar og gera það barn í brók, hæstv. fjmrh., sem er auðvitað tilgangurinn með því að vera að flytja lög, að það verði eitthvað úr þeim. Vilji hv. alþýðuflokksmenn gera einhverja alvöru úr þessu kaupleigukerfi, koma því á skrið, held ég að þetta væri einhver vænlegasta leiðin til þess, einhver vænlegasta brtt. sem þeir gætu stutt og mættu þeir vera mér lengi þakklátir fyrir að hafa þó bent þeim á þessa aðferð.

Í öðru lagi, herra forseti, er svo hitt meginefni þessara brtt., 4. og 5. liður, sem lýtur að því sem ég áður hafði nefnt, að gera framkvæmdaaðilum bygginga félagslegra kaupleiguíbúða heimilt að byggja félagslegar kaupleiguíbúðir til að leigja einstaklingum samfara kaupum á tilteknum eignarhluta. G-liður (91. gr.) verðandi laga mundi þá orðast svo; með leyfi forseta: „Sá sem hefur fengið úthlutað félagslegri kaupleiguíbúð getur valið um leigu með kauprétti, sbr. 92. gr., leigu með kaupum á eignarhluta, sbr. 93. gr." — sem yrði ný grein og mundi bætast inn í frv. — „eða kaup, sbr. 94. gr."

Þá tel ég að rétt væri að breyta jafnframt ákvæðum sem lúta að framkvæmdaaðilunum í þessu tilfelli og það mundi þá orðast sem svo: „Framkvæmdaaðila er óheimilt að ákveða fyrir fram hvort íbúð verður leigð eða seld.“ Og við bætist síðan: „Þó er heimilt að takmarka sölu við tiltekinn eignarhlut ef um er að ræða byggingu íbúða til leigu samfara kaupum á eignarhlut.“

Þeim framkvæmdaaðilum sem sérstaklega hefðu það í huga að byggja kaupleiguíbúðir til að leigja út samfara kaupum á ákveðnum eignarhlut væri heimilt að ákveða svo fyrir fram því öðru vísi nær þetta naumast tilgangi sínum.

Ég hygg að ef menn yrðu sáttir á að t.d. samtök aldraðra eða samtök öryrkja eða námsmanna væru í þannig aðstöðu að það væri alveg nauðsynlegt fyrir þau að hafa þetta ákvæði opið mundu menn einfaldlega samþykkja að þau mættu gerast framkvæmdaaðilar við byggingu kaupleiguíbúða undir þessum skilmálum og þar með væri málið leyst. Að öðru leyti yrðu svo ákvæðin um leigu með kaupum á eignarhluta, sem um er fjallað í 5. lið brtt., að flestu leyti sambærileg við hliðstæð ákvæði varðandi almennar kaupleiguíbúðir. Gefur það sig nokkuð sjálft að æskilegt er að hafa þar sem mest samræmi á milli.

Herra forseti. Ég vona að ég hafi gert nægilega vel grein fyrir brtt. til þess að efni þeirra sé skýrt og eftir vandlega umhugsun verði mönnum ekkert að vanbúnaði að gera upp hug sinn til þeirra. Það kann að fara svo hér eins og stundum áður að þarfar brtt. og góðar hljóti þau dapurlegu örlög að vera felldar af því að þær eru ekki bornar fram af réttum aðilum. Þeim örlögum verðum við býsna oft að sæta í stjórnarandstöðunni eins og gengur. En maður vill samt trúa því að stundum sigri réttlætið í heiminum og menn fallist á að mælt sé fyrir sanngirnissjónarmiðum og skynsemissjónarmiðum sem séu svo sterk og rík að menn fallist á þau. Ég vil a.m.k. að það sé alveg ljóst, og til þess eru brtt. í og með fluttar, að það er afstaða okkar alþýðubandalagsmanna að til þess að þetta kaupleigukerfi nái tilgangi sínum, skili því sem því er ætlað og margir binda vonir við víða í þjóðfélaginu, þurfi að gera þessar breytingar á frv. Að þeim samþykktum styðjum við þetta frv. heils hugar.