26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6857 í B-deild Alþingistíðinda. (4774)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða í löngu máli þetta frv. Ég gerði því nokkur skil við 1. umr. En ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs vegna þess að ef ég hef skilið rétt hv. 1. þm. Vesturl., frsm. meiri hl. nefndarinnar, hefur Húsnæðisstofnun ríkisins ekki sent umsögn um þetta mál. Ég hrökk blátt áfram í hnút. Hvernig getur staðið á því að Húsnæðisstofnun ríkisins sendir ekki umsögn um þetta mál? Ég var lengi í félmn. og oft voru þessi mál einmitt þar til umfjöllunar, en ég man aldrei til þess að það stæði á umsögn um breytingar á húsnæðisstjórnarlögunum frá stjórn Húsnæðisstofnunar. Þetta er alveg nýtt. Og ég vil í fullri vinsemd biðja hæstv. félmrh. eða þá hv. þm. Alexander Stefánsson, formann félmn., að upplýsa það hér ef það er á þeirra færi: Er það rétt skilið að þessi umsögn hafi ekki borist og hvaða ástæður geta legið til þess? Er það e.t.v. sú ástæða sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að ræða um, þ.e. umsögn þeirra aðila sem hafa haft langmestan áhuga fyrir breytingum á þessum lögum í þá átt sem frv. a.m.k. stefndi að? Ég viðurkenni að ég hef ekki fylgst með störfum nefndarinnar og veit lítið um annað en um frv. eins og það var lagt fram. Ég hef ekki séð umsagnirnar en heyrt af þeim sumum. En ég held að þetta frv. nái alls ekki þeim tilgangi sem ég skildi að hæstv. félmrh. ætlaðist til.

Í fyrsta lagi er hvernig verður leystur fjárhagsvandinn. Er það ekki rétt skilið að það sé búið að svara öllum þeim sem sóttu um fyrir maí á sl. ári ef það verður farið út í þessar íbúðir á annað borð með þeim vanköntum sem á því eru, sem, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, eru ekki á þann veg sem ég taldi að hún stefndi að í sumum atriðum?

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta meira efnislega, en ég vil samt vekja athygli á að ég verð og sjálfsagt flestir þingmenn var við það hér um bil daglega að fólk er að kikna undan fjármagnskostnaðinum vegna þess að lánskjaravísitalan hefur þau áhrif á þessi lán að þau hækka dag frá degi þó að fólk sé að stritast við að borga af þeim og sér fram á það, jafnvel þeir sem eru með sæmileg laun, að það sé að nálgast sú stund að það ráði ekki við þetta lengur, hvað þá hinir sem eru á lægstu laununum.

Ég get vel tekið undir margt af því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Ég held að það hefði átt að stefna að því að endurskoða húsnæðisstjórnarlögin öll í einu lagi. Vandkvæðin á þessu verða ekki leyst nema fyrst og fremst með fjármagni. Og það er alveg rétt að sveitarfélögin hafa ekki fjármagn til að leggja í byggingar, einmitt þau sveitarfélög sem þurfa fyrst og fremst á því að halda.