26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6862 í B-deild Alþingistíðinda. (4778)

329. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá félmn. um frv. til l. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum. Þetta er frv. á þskj. 653 um að við 5. mgr. 58. gr. laganna komi viðbót: Að lán skv. b- og c-liðum 33. gr. eru til 43 ára, afborgunarlaus fyrsta árið, en endurgreiðast síðan að fullu með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana að viðbættum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu á eftirstöðvum lánstímans. Lánin skulu bera sömu vexti og lán skv. 49. gr. og lög þessi öðlist þegar gildi.

En hér er um að ræða, eins og sjálfsagt flestum er kunnugt, Byggingarsjóð verkamanna, þ.e. b-liðinn, um leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum og ætlaðar eru til útleigu með hóflegum kjörum handa láglaunafólki eða öðrum þeim sem þarfnast af félagslegum ástæðum aðstoðar við húsnæðisöflun, og hins vegar c-lið sem er leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og eða ríkisins eða af félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja. Þessi lán eru skv. gildandi lögum til 30 ára, en þessi till. gerir ráð fyrir að þarna yrðu lánin lengd til 43 ára í samræmi við lán til verkamannabústaða.

Frv. var sent til umsagnar fjölda aðila, samtaka sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, Húsnæðisstofnunar og samtaka átta aðila um húsnæðismál o.fl. Umsagnir sem borist hafa eru flestar jákvæðar um nauðsyn þessarar lagabreytingar og gildi hennar.

Nefndin er sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu. Undir þetta rita allir nefndarmenn, auk formanns Birgir Dýrfjörð, Geir H. Haarde, Óli Þ. Guðbjartsson, Jón Kristjánsson, Kristín Einarsdóttir og Eggert Haukdal.