26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6863 í B-deild Alþingistíðinda. (4780)

299. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 886 um frv. til l. um breytingar á lögum nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. lög nr. 54/1986, lög nr. 27/1987 og lög nr. 84/1987, frá félmn.

Hér er um að ræða 299. mál Alþingis, frv. sem þeir flytja hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og Matthías Bjarnason.

Nefndin sendi frv. til umsagnar fjölda aðila, samtaka sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, Húsnæðisstofnunar ríkisins o.fl. Svör hafa borist frá Alþýðusambandi Íslands og Fjórðungssambandi Norðlendinga og raunar eftir að umsagnartími var liðinn frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sem barst hingað í Alþingi núna um síðustu helgi.

Nefndin er sammála um að hugmynd flm. um skiptingu ráðstöfunarfjár milli kjördæma geti átt fullan rétt á sér en sé vandmeðfarin og geti í sumum tilfellum orkað tvímælis. Þess vegna sé eðlilegt að undirbúa slíka breytingu með ítarlegri könnun og meiri reynslu varðandi skiptingu útlána. Það kemur raunar fram í grg. með frv. að flm. eru fyrst og fremst að vekja athygli á mjög þörfu máli en ætlast ekki til að það verði afgreitt heldur notað sem innlegg inn í þær umræður um húsnæðiskerfið sem fyrir dyrum standa.

Í umsögnum sem ég gat um áðan er jákvætt tekið undir þetta mál, en þó telur t.d. Fjórðungssamband Norðlendinga að á öllum þeim úrræðum sem frv. gerir ráð fyrir sé sá megingalli að hér sé verið að koma á eins konar kvóta sem ekki er fyrir séð að auki fjárfestingu landsbyggðarmanna heima fyrir.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að það sé ekki enn komin reynsla á skiptingu útlána eftir landshlutum þannig að einhlítur dómur verði lagður á flutning fjármagnsins milli landshluta og mjög orki tvímælis að mismuna einstaklingum eftir búsetu í húsnæðislánakerfinu.

Einnig hefur komið fram sú gagnrýni að ef slíkur tilflutningur yrði á ráðstöfunarfé gæti það jafnvel útilokað byggðarlög sem af einhverjum ástæðum fengju allt í einu möguleika á því að auka sín umsvif vegna góðæris að einhverju stigi og þá kæmi það í veg fyrir að sá kvóti sem viðkomandi hefði nægði til að sinna aukinni byggingarþörf.

Nefndin er sammála um að efni frv. sé athyglisvert innlegg í þá heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu sem áformuð er samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og leggur því til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu. Undir þetta rita auk formanns Óli Þ. Guðbjartsson, Geir H. Haarde, Birgir Dýrfjörð, Jón Kristjánsson, Kristín Einarsdóttir og Eggert Haukdal.