26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6864 í B-deild Alþingistíðinda. (4782)

428. mál, söluskattur

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 778 hef ég leyft mér að flytja frv. um breytingu á lögum nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Ásamt mér eru flm. hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, Ingi Björn Albertsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Óli Þ. Guðbjartsson og Ragnar Arnalds.

Greinin er þannig: „Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna komi ný mgr. er orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal þó heimilt við útreikning söluskatts að draga frá heildarandvirði vöru þann hluta þess sem rekja má beint til flutningskostnaðar á milli staða innan lands, enda skal álagning á þann hluta innkaupsverðsins óheimil. Fjmrh. setur nánari reglur um þennan frádrátt.“

Þetta er ekki nýtt mál. Það hefur verið fjallað um hvernig sé hægt að jafna flutningskostnaði niður þannig að vöruverð verði sem líkast hvar sem er á landinu. Það var samþykkt þáltill. um þetta efni 10. apríl 1973 þess efnis að skipuð yrði nefnd til að athuga og gera tillögur um verðjöfnun vöruflutninga innan lands eða eins og segir í ályktuninni:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna milliþinganefnd til þess að

1. kanna þátt flutningskostnaðar í mismunandi vöruverði í landinu;

2. skila áliti um hvort tiltækt væri að jafna kostnað við vöruflutninga með stofnun og starfrækslu verðjöfnunarsjóðs þannig að verð á allri vöru verði hið sama á öllum stöðum á landinu sem vöruflutningaskip sigla til og flugvélar og vöruflutningabifreiðar halda uppi áætlunarferðum til;

3. kanna hver kostnaður væri af rekstri slíks sjóðs og hver ætla mætti að yrðu þjóðhagsleg áhrif af starfrækslu hans;

4. gera tillögur um bætt skipulag vöruflutninga á sjó, á landi og í lofti. Skulu þá m.a. hafðar í huga breytingar á tilhögun flutninga frá helstu viðskiptaborgum Íslendinga erlendis til hinna ýmsu hafna í landinu.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði“ eins og venjulega er með slíkar nefndir.

Ég held að það hafi verið með þessa nefnd eins og margar aðrar sem hafi verið skipaðar á undanförnum árum. Hún skilaði áliti. Lítið var gert með þetta álit. Og þegar var verið að reyna að finna þessa skýrslu þurfti töluvert að leita til að finna hana. Ég verð að játa að ég áleit að aðrir hefðu verið í nefndinni en reyndust hafa verið þar og kann að vera að ég hafi átt einhvern hlut í því máli að þetta plagg fannst ekki. En það var í októbermánuði 1976 sem nefndin skilaði áliti sínu.

Tillögurnar sem frá henni komu voru m.a. þessar, með leyfi forseta:

1. Fallið verði frá hugmynd um verðjöfnun allra vöruflutninga með stofnun sérstaks verðjöfnunarsjóðs.

2. Skattkerfinu verði breytt í því skyni að jafna aðstöðumun vegna mismunandi framfærslukostnaðar. Hagstofunni verði jafnframt falið að gera könnun á framfærslukostnaði á mismunandi stöðum í landinu.

Ég ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni flutti um þetta efni tillögu sem ekki hlaut náð fyrir augum hv. þm. án þess þó að muna þá eftir að þessi tillaga kom fram frá þessari milliþinganefnd sem ég er að fjalla um.

Síðan er hér talað um að styrkja verslunarþjónustu í dreifbýli eins og þar stendur og enn fremur að kanna möguleika á endurskipulagningu samgangna til einstakra svæða í því skyni að ná sem ódýrastri tilhögun flutninga fyrir samfélagið í heild með opinberum styrkjum ef til þarf.

Það má segja að það eina sem hafi komið út úr þessari nefnd eða hafi verið framkvæmt var það að hún lagði einnig til að það yrðu skipulagðar ferðir Skipaútgerðar ríkisins og fengið nýtt skip til þess að annast slíka flutninga og að þeir flutningar mundu verða skipulagðir þannig að þeir yrðu með viku millibili á þá staði sem þurfa á þessum flutningum fyrst og fremst að halda.

Ég vil ekki tefja tímann með því að lesa upp þær tillögur allar sem frá nefndinni komu, en verð að segja að þetta er dálítið merkilegt plagg. Þeir sem voru í nefndinni voru Vilhjálmur Hjálmarsson alþm., Gunnar Gíslason, Sverrir Hermannsson, Haukur Hafstað og Magnús Reynir Guðmundsson. En þegar Vilhjálmur tók við ráðherraembætti tók Halldór Ásgrímsson núv. sjútvrh. sæti Vilhjálms og var formaður þessarar nefndar. Fleiri breytingar urðu á nefndinni, en ég læt þetta nægja um þessa nefnd.

Það sem við erum að fara fram á, flm. þessa frv., er að það verði komið til móts við landsbyggðarfólkið með því móti að fella söluskatt niður af flutningum á milli staða innan lands. Til þess að sé hægt að fylgjast nógu vel með því að þetta verði gert sé verslunum ekki heimilt að leggja verslunarálagningu á þennan hluta kostnaðar vörunnar.

Ef ég tek það dæmi sem er í þessari skýrslu og reikna það út hvaða áhrif þetta mundi hafa á verðlag, þá er dæmið sem þeir taka vörur fyrir 1000 kr. og þeir taka ýmsar vörur, bæði sekkjavörur og aðrar vörur, til viðmiðunar. Þeir segja flutningskostnaðinn með tryggingu 110 kr., smásöluálagningu 25% og svo vitum við hver söluskatturinn er. Ef maður tekur þetta bókstaflega eins og þetta dæmi er sett upp mundi muna þarna 4–5% sem þetta mundi lækka vöruna, þ.e. það er sú kvöð sem ríkið setur á þá sem búa annars staðar vegna þess að varan fer fyrst og fremst um Reykjavík. Hér er því um mikið réttlætismál að ræða.

Ég ræddi þetta aðeins við hæstv. fjmrh. og hann nefndi enn hærri tölu en ég er að nefna, hvaða áhrif þetta mundi geta haft, og minntist á að einhver hefði slegið því fram að það gæti munað allt að 6%. Nú fer þetta auðvitað eftir því hver er viðmiðunarstaðurinn. Flutningskostnaðurinn er breytilegur. Við sjáum hve mikið ranglæti er hér á ferðinni.

Með leyfi forseta ætla ég aðeins að grípa niður í skýrsluna með nokkrum orðum vegna þess að ég hygg að þar komi fram þau rök sem ég vildi hafa fyrir mínu máli. Eins og ég sagði er þetta niðurstaða milliþinganefndar sem er skipuð af þeim þingflokkum sem áttu sæti á Alþingi á árinu 1973, með leyfi forseta:

„Eins og áður er getið hefur hækkun söluskatts á undanförnum árum tvímælalaust aukið ójöfnuð í landinu. Og að því má færa nokkur rök að rétt væri að breyta söluskattskerfinu þannig að það verkaði til jöfnunar á framfærslukostnaði. Sú leið sem kæmi fyrst og fremst til greina væru nokkuð misháar prósentur söluskatts eftir landshlutum.

Við nánari skoðun virðast vera ýmsir vankantar á þessari leið. Hin misháa prósenta þyrfti að ná til allra vörutegunda þannig að allar vörur í tilteknum landshlutum væru seldar með sömu söluskattsálagningu. Önnur leið er ekki fær, enda er alkunna að illmögulegt er að hafa eftirlit með innheimtu söluskatts ef hann er mishár eftir vörutegundum hjá sama aðila, enda þótt sama skatthlutfall yrði látið gilda á öllum söluskattsskyldum vörum á hverju svæði og veruleg hætta á misferli sem erfitt yrði að hafa virkt eftirlit með.“

Hér er sú leið aftur á móti, sem við leggjum til sem flytjum þetta frv., þ.e. að taka söluskattinn af flutningskostnaðinum alveg út og heimila ekki álagningu verslunar á þann hluta verðsins. Það er enginn vandi að hafa eftirlit með því.

Það hefði verið fróðlegt og gaman að setja inn í þingtíðindi meira upp úr þessari skýrslu, ekki síst vegna þess hverjir það voru sem sömdu hana, en hér eru fáir inni og hefur ekki mikla þýðingu að ræða mál yfirleitt hér, sannleikurinn er sá, hvort sem það eru réttlætismál eða önnur mál. Það kemst ekki nema á þrykk í þingtíðindum sem fáir lesa.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.