09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

66. mál, dreifing sjónvarps og útvarps

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Í fjarveru menntmrh. og sem starfandi menntmrh. nú um nokkurra daga skeið langar mig til að taka fram nokkur atriði í þessum umræðum.

Ég vil í fyrsta lagi segja að það er ekki óeðlilegt að till. eins og þessi sjái dagsins ljós og menn velti því fyrir sér með hverjum hætti hægt sé að flýta fyrir þeirri þróun að koma útvarps- og sjónvarpsefni sem víðast um landið. Ég held að það sé ómótmælanlegt að fáum strjálbýlum löndum í heiminum hefur tekist að ná sama árangri og Íslendingum í að koma þessu efni til skila vegna tiltölulega hraðrar uppbyggingar á dreifingu sjónvarps og útvarps.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu og Póst- og símamálastofnun munu nú vera um 80 sveitabæir á landinu sem ekki ná sjónvarpi eða hafa léleg móttökuskilyrði. Þetta eru allt bæir sem liggja illa við sjónvarpsdreifingu og því kostnaðarsamt að koma sjónvarpi til þeirra. Áætlað er að kostnaður sé að meðaltali um 500 þús. kr. á bæ eða alls um 40 millj. kr. Til þess að dreifing rásar 2 verði svipuð og sjónvarps nú er talið að setja þurfi upp 25 minni og stærri stöðvar til viðbótar þeim sem nú eru í notkun. Kostnaður er áætlaður að meðaltali um 1 millj. kr. á stöð eða samtals ekki minna en 25 millj. kr.

Ríkisútvarpið hefur náð langt í uppbyggingu og þéttingu dreifikerfisins á undanförnum árum og stefnir að því að ná til allra landsmanna. Ákveðinni stefnu hefur verið fylgt um dreifingu sjónvarps. Auk styrkingar og endurbóta á kerfinu mörg undanfarin ár hefur sjónvarpsmerki árlega verið komið til nokkurra bæja í sveitum eftir því sem fjármagn og framkvæmdageta hefur leyft. Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins stendur undir allri fjárfestingu til þess. Verkefni hans á næstu árum er að ljúka innréttingu útvarpshússins og tækjavæðingu ásamt endurnýjun langbylgjustöðva á Suðurlandi og Austurlandi. Jafnframt þessu verður eftir megni reynt að ná til afskekktra sveitabýla og sjómanna á miðum umhverfis landið. Undir þau áform fellur FM-dreifing rásar 1 og rásar 2.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram við 1. umr. þessa máls í fjarveru hæstv. menntmrh.