27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6882 í B-deild Alþingistíðinda. (4821)

256. mál, almannatryggingar

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. nefnd fyrir að hafa skoðað þetta mál af velvilja þó svo að niðurstaðan yrði á annan veg en ég hefði vænst. En e.t.v. var tæpast við öðru að búast þegar höfð eru í huga orð hæstv. heilbrmrh. hér við 1. umr. þegar hann taldi þessu máli best komið með því að taka það inn í þá heildarendurskoðun tryggingalaganna sem nú stendur yfir.

Þessi endurskoðun hefur staðið fyrir dyrum æðilengi og ekki sést hilla undir nein málalok þar. Því er illt að una, að slíkum málum sem hér er um að ræða sé skotið á frest því hér er um að ræða brýnt hagsmunamál. Hér er um að ræða aðstoð til gleraugnakaupa fyrir börn og unglinga innan 18 ára aldurs annars vegar og elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar hins vegar. Rökstuðningur fyrir frv. liggur fyrir á þskj. 552.

Í stórum dráttum er frv. rökstutt með því hversu gleraugu eru orðin dýr, hversu kostnaður af notkun gleraugna íþyngir fjárhag þeirra sem á þeim þurfa að halda. Með hliðsjón af lögum um almannatryggingar um hjálpartækjakaup sýnist eðlilegt að gleraugu falli einnig undir þau ákvæði. Kjör elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar eru ekki til að hreykja sér af hér á landi. Þeir hafa fulla þörf fyrir að samfélagið rétti þeim hjálparhönd í þessum efnum og sama má segja um barnmargar fjölskyldur. Við kvennalistakonur lítum svo á að brýnt sé að koma þessu fólki til aðstoðar sem fyrst og erum því engan veginn sáttar við þessa afgreiðslu. Því hvetjum við til að endurskoðun tryggingalaga verði hraðað því að þó að ýmsar lagfæringar og breytingar til bóta hafi verið gerðar við þau næstum frá upphafi er þeim í ýmsu áfátt enn eins og í ljós kemur af því máli sem hér hefur verið fjallað um.