27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6884 í B-deild Alþingistíðinda. (4829)

263. mál, almannatryggingar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. flm. þessa frv. til laga á þskj. 562, Kristínu Halldórsdóttur, á að ég átta mig ekki almennilega á því af hverju hv. þingnefnd afgreiddi ekki þetta mál. Þó að tryggingalög séu í heildarendurskoðun hjá ríkisstjórninni sem getur tekið langan tíma er þessi till. Kvennalistans þess eðlis að hún þolir enga bið. Daglega þarf fólk á þeirri aðstoð að halda sem hér um getur. Ég sé enga ástæðu til þess að Alþingi fresti afgreiðslu á þessu máli, hvorki nefndin né Alþingi sjálft. Ef nefndin treystir sér ekki til að taka afstöðu getur Alþingi, deildin hér og nú tekið afstöðu. Síðan verður sú afstaða að sjálfsögðu tekin til greina í þessari heildarendurskoðun sem ríkisstjórnin liggur á.

Ég geri það að tillögu minni að deildin afgreiði þetta frv. jákvætt og samþykki það því að við vitum öll að daglega þarf fólk aðstoðar við, fólk utan af landi sem kemur til Reykjavíkur, fólk úr fjölskyldum sjúklinga sem kemur með þeim og bíður því til aðstoðar á allan hátt. Stundum eru þetta alvarleg tilfelli. Í alvarlegum tilfellum er þetta ferðalag oft til útlanda. Oft er sjúklingurinn kannski mállaus á erlenda tungu og á erfitt með að sætta sig við ferðalagið nema hafa fylgd að heiman o.s.frv.

Ég sé enga ástæðu til þess að svona máli sé frestað og látið bíða einhverrar heildarendurskoðunar sem á að eiga sér stað úti í bæ. Það er verkefni Alþingis að taka ákvörðun í þessu máli. Það er ekki verkefni ríkisstjórnarinnar. Þetta er verkefni fjvn. m.a., það er ekki verkefni ríkisstjórnar að ganga frá þeim málum. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að framfylgja því sem Alþingi samþykkir.

Ég vil taka fram vegna smámisskilnings sem gætti hjá forseta þegar hann kynnti það lagafrv. sem var á dagskrá á undan þessu, að mín töluð orð hér eiga við það frv. líka. Ég vil mótmæla því að afgreiðslu sé frestað á þessum tveimur frv.