28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6902 í B-deild Alþingistíðinda. (4851)

410. mál, mengun í álverinu í Straumsvík

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur borið fram fsp. um mengun í álverinu í Straumsvík í tveimur liðum.

Fyrri liðurinn hljóðar svo: „Hvaða athuganir hafa verið gerðar á mengun í álverinu í Straumsvík vegna gallaðra rafskauta?"

Þegar notuð eru gölluð rafskaut við álbræðslu er hætta á vandamálum varðandi rekstur kerja. Í slíkum tilvikum eru þekjur gjarnan teknar af kerjunum til þess að starfsmenn geti betur fylgst með ástandi þeirra. Þegar ker stendur opið fer mengun frá því ekki í gegnum hreinsibúnað álversins og hefur það í för með sér að mengun í kerskálum verður mikil ef mörg ker eru opin samtímis. Mengunarefnin fara síðan út um rjáfur.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með mengun á vinnustöðum og sér um að fylgjast með mengun í kerskálum álversins og áhrifum á starfsmenn, þann þáttinn sem hv. fyrirspyrjandi gerði sérstaklega að umræðuefni í framsögu með fsp. sinni. Það er sem sagt Vinnueftirlit ríkisins sem sér um eftirlit með mengun á vinnustöðum þannig að fyrir þann þátt get ég ekki svarað sérstaklega. Það verður hæstv. félmrh. að gera.

Hollustuvernd ríkisins hefur hins vegar eftirlit með mengun sem berst frá álverinu út í umhverfið og eftirlit með mengun í umhverfinu. Sumarið 1986 fóru fram í samvinnu við álverið í Straumsvík mælingar á útblæstri frá viftum í kerskálum og frá hreinsibúnaði. Í þeim tilvikum þar sem mikið var um opin ker var mengun frá álverinu töluvert meiri en viðunandi getur talist. Skýrsla um þessar mælingar er væntanleg í næsta mánuði.

Ég vil enn fremur geta þess að í samræmi við lög um álverið í Straumsvík starfar svokölluð flúornefnd sem á að fylgjast með því hvaða áhrif mengun frá álverinu hefur á gróður í nágrenni álversins. Þessi nefnd starfar á vegum iðnrn. og í tengslum við það.

Síðari liður fsp. hv. þm. var hver væri afstaða heilbrmrn. og Hollustuverndar ríkisins til þessa máls og hvaða kröfur hafi verið gerðar um úrbætur.

Afstaða ráðuneytisins og Hollustuverndar ríkisins mótast af því að mengun frá álverinu er óviðunandi þegar mörg ker eru opin, en hjá slíku ástandi verður ekki komist ef notuð eru gölluð rafskaut.

Í lok ágústmánaðar sl. skrifaði Hollustuvernd ríkisins álverinu í Straumsvík bréf vegna þessa máls og fékk hinn 16. sept. svar þar sem tilkynnt var að gölluðum skautum hafi verið skipt út þegar í ágústmánuði. Ráðuneytið og Hollustuvernd ríkisins töldu þar með að þetta mál væri komið í viðunandi horf. Greinilegt er hins vegar að ekki hefur fengist viðunandi lausn á þessu máli og mun ráðuneytið taka á málinu í samráði við Hollustuvernd, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar, iðnrn. og stjórnendur álversins í Straumsvík þegar niðurstöður áðurnefndrar rannsóknar liggja fyrir sem eins og áður greindi frá er gert ráð fyrir að verði í næsta mánuði.