28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6903 í B-deild Alþingistíðinda. (4852)

410. mál, mengun í álverinu í Straumsvík

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari fsp. um mengun í álverinu í Straumsvík frá Hjörleifi Guttormssyni og jafnframt þakka ég heilbrmrh. fyrir svar hans.

Ég tek undir það, sem kemur þar fram, að það er mjög mikilvægt að grannt sé fylgst með þessum hlutum og það sé tekið á því þegar niðurstaða fæst úr þeirri skýrslu sem er væntanleg, þannig að hvorki þeim sem vinna í álverinu né heldur nánasta umhverfi sé hætta búin af mengun frá álverinu. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að þegar álverið var reist var ekki gert ráð fyrir mengunarútbúnaði, enda ekki á þeim tíma svo mikið um þau mál rætt, en núna hefur verið gerð bragarbót á þessu og ég veit að heilbrmrh. mun fylgjast með því að þessu verði fylgt eftir og passað upp á að þetta verði lagað.