28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6905 í B-deild Alþingistíðinda. (4856)

414. mál, einstaklingar með glútenóþol

Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Hér er tekin fyrir fsp. til heilbrmrh. um einstaklinga með glútenóþol. Sú fsp. er merkileg á þann hátt að hún vekur athygli á máli sem er mjög mikilvægt fyrir nokkurn hóp manna. Einstaklingar með glútenóþol hafa verið að greinast tíðar síðustu árin og er líkleg ástæða til þess að sjúkdómurinn fer mjög leynt og ef svo má að orði komast e.t.v. vegna þess að hann hefur mjög mörg einkenni sem eiga við um aðra sjúkdóma og þess vegna hafa einstaklingar með glútenóþol oft fengið greiningu á hinum ýmsu sjúkdómum alls óskyldum glútenóþoli. Vekja ber sérstaklega athygli á að sérfæði sem fólk með glútenóþol borðar er allt að fjórum sinnum dýrara en hefðbundið fæði og auk þess er oft mjög erfitt að nálgast glútenfríar vörur. Þetta er atriði sem stjórnvöld verða að taka til athugunar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef má gera ráð fyrir að ein heil mánaðarlaun einstaklings á ári fari í að greiða aukakostnað vegna fæðis án glútens. Þá vil ég vekja sérstaklega athygli á að einstaklingar með glútenóþol hafa sótt um fyrirgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins og um ívilnanir vegna skatta hjá skattyfirvöldum en alls staðar fengið neitun þrátt fyrir rökstuðning frá læknum, matvælafræðingum og gögn frá skattyfirvöldum á hinum Norðurlöndunum. Ekkert hefur verið gert til að greiða götu sjúklinga með glútenóþol. Það er því tímabært að skoða þessi mál vandlega og taka á þeim.

Fsp. er svohljóðandi:

„1. Hve margir einstaklingar hafa greinst með glútenóþol hér á landi?

2. Bera innfluttar vörur fyrir sjúklinga með glútenóþol með einhverju móti lægri skatta en aðrar vörur og ef svo er, hvaða tilvik er um að ræða?

3. Hefur kostnaðarauki við matargerð sjúklinga með glútenóþol verið reiknaður út og hver er hann á ári?

4. Hve margir einstaklingar njóta fyrirgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna sjúkdómsins?"